12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (3164)

149. mál, þingsköp Alþingis

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vil að eins segja örfá orð, til þess að lýsa afstöðu minni til þessa máls. Það er ekki langt síðan till. kom fram um það hjer á Alþingi, að þm. yrði leyft að krefjast leynilegrar atkvgr. um mál hjer á þinginu. Jeg var á móti þessu þá, af því að jeg taldi það ekki rjett gagnvart kjósendum; þeir ættu heimting á að vita, hvernig fulltrúar þeirra greiddu atkv. á þingum. Og jeg er einnig á móti þessari till., því með henni finst mjer vera verið að gera tilraun til þess að loka þinginu fyrir kjósendum, því jeg veit ekki, eftir hverju hv. kjósendur eiga að dæma fulltrúa sína, ef ekki eftir þeim ræðum, sem þeir halda á þinginu. Og það er því meiri ástæða til þess að halda prentun þingtíðindanna áfram, þar sem blaðaútgáfa er orðin svo afardýr, að það má segja, að ekki geti aðrir en efnamenn haldið þeim úti. Nú vita menn, að blöðin eru oft ekki sem sannorðust um andstæðinga sína, svo að myndin, sem þau bregða upp af þeim fyrir kjósendunum, er alveg eftir því, hvort þeir eru í náðinni eða ekki. Það er engin miskun hjá Magnúsi. Eini vegurinn fyrir kjósendurna til þess að geta áttað sig á framkomu þm. eru Alþingistíðindin, og hví skyldum vjer þá taka þau frá þeim?