12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (3167)

149. mál, þingsköp Alþingis

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vildi að eins minna á, að þetta er ekki nýtt mál hjer á þinginu. Það kom fram 1909. Þá vildi svo skrítilega til, að jeg var á móti málinu, og er það enn, og talaði þá aðallega fyrir munn þeirra, er ekki vildu hætta prentuninni. En þá man jeg og það, að háttv. þm. Dala. (B. J.) var gallharður á að hætta prentuninni. Vil jeg minna hv. þm. (B. J.) á þetta, með því að lesa upp orð hans frá þessum tíma. (B. J.: Jeg man þau og kannast fúslega við þetta). Hann segir í fáum orðum og gagnorðum, eins og hans er vandi:

„Það er undarlegt, hvað gert er mikið úr þessari till., um að hætta við prentun þingtíðindanna, þótt landsmenn hafi hvorki gagn nje gleði af þeim og enginn lesi þau.“ Síðan vitnar hann í þingmálafund, er haldinn var í Dalasýslu, um þetta mál, og segir:

„Hann skorar á Alþingi að afnema útgáfu þingtíðindanna.“

Jeg vildi að eins benda á þetta, því það kveður nokkuð við annan tón nú. En auðvitað gleður það mig, að hv. þm. (B. J.) skuli nú vera kominn á sömu skoðun og jeg. Jeg vil gjarnan, að málinu verði vísað til nefndar, og verði þar athugað, hvort ekki mundi rjett vera að fresta prentuninni.