12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (3169)

149. mál, þingsköp Alþingis

Bjarni Jónsson:

Það var ekki ástæða til fyrir hæstv. forsætisráðherra (J. M.) að verða reiður, þótt jeg hafi skift um skoðun í þessu máli, því hann hefir einnig skift um skoðun síðan 1909. — Hann segir þá:

„Fyrir sögu landsins hefir það mikla þýðingu, að umr. á Alþingi sjeu prentaðar; því verður alls ekki neitað, að við værum nú miklu ófróðari um sögu landsins síðan um 1850, ef vjer hefðum ekki Alþingistíðindin.“

Og enn fremur segir hann:

„Og að segja það, að blöðin geti flutt tíðindi af þinginu, það er ekki til neins, því að það er vitanlegt, að blöð vor eru eigi fær um, enn sem komið er, að flytja nema mjög ófullkomnar frjettir af þingi, svo að segja með höppum og glöppum.“

Og enn fremur:

„Þjóðin á rjett á að sjá, hvað hjer gerist, enda þótt fáir lesi mikið af því. Og látum svo vera, að einungis 2–3 menn í hverjum hreppi læsu nokkuð að ráði í Alþt. Þeir eiga í rauninni heimting á því, að missa ekki það færi, sem þingtíðindin gefa til þess að fá að vita, hvað á þinginu gerist.“

Þar sem nú hæstv. forsætisráðherra (J. M.) talaði svo fyrir svo sem tíu árum, þá get jeg sjeð, að hann verður ekki með þessu máli nú. Jeg varð að vinna til að hverfa frá minni skoðun, en hann getur setið á sinni skoðun.