30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

33. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (S. E):

Jeg sje ekki ástæðu til að ræða frekar um nauðsyn tóbaksins. Jeg vil að eins benda á það, að tekjur þær, sem um er að ræða af hækkuninni á tóbakstollinum, eru hjer um bil 80 þús. kr. á ári. Það dregur ríkissjóð allmikið, og mun ef til vill nema meiru. Enn fremur má búast við því, að allmikið tóbak muni flutt inn það sem eftir er ársins, og veitti ekki af því, að tollhækkunin minkaði eitthvað tekjuhallann, sem fyrirsjáanlegur er 1919. Jeg vona því, að háttv. deild fari varlega í að lækka tóbakstollinn aftur.

Jeg fellst á brtt. fjárhagsnefndar á þgskj. 197. Virðist mjer 4 kr. tollur sæmilegur og ekki ástæða til að hafa hann lægri. En í samræmi við ummæli mín við síðustu umr. aðhyllist jeg brtt. hv. þm. Ak. (M. K.), um að tollurinn á vínanda til eldsneytis og iðnaðar sje ekki hærri en 2 kr. á lítra. Eins og háttv. þm. Ak. (M. K.) tók fram, þyrfti að breyta brtt. á þgskj. 197 þannig, ef brtt. á þgskj. 199 verður samþ: „svo og af ilmvötnum og hárlyfjum, sem vínandi er í, kr. 4.00 af hverjum lítra“, og láta þessa setningu koma aftan við greinina. Jeg vona, að hæstv. forseti fallist á, að þessu sje hægt að breyta með skriflegri brtt. nú á fundinum, svo að ekki þurfi að taka málið út af dagskrá. Ef báðar tillögurnar verða samþ., yrði líka 2 kr. tollur á ilmvötnum. en það er hvorki tilætlun háttv. flutnm. (M. K.) nje mín.