20.09.1919
Efri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (3191)

155. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Vitanlega verða ávalt skiftar skoðanir um það, þegar á að fara að flytja milli flokka í vörutollslögunum. 1914 var líka mjög deilt um einmitt sömu breytinguna, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) er nú með. Ýmsar þessara breytinga virðast frá mínu sjónarmiði ekki sjerlega athugaverðar, að öðru leyti en því, að þær geta orðið frv. að fótakefli. Annars vil jeg benda á, að breytingarnar miða heldur til lækkunar.

Ástæðan til þess, að jeg hefi mælt svo mjög með stj.frv., er sú, að jeg óttast, að ef farið verður á annað borð að flytja á milli flokka, verði það til þess, að engar breytingar gangi fram eða hækkanir. Annars eru hækkanirnar á báðum frv. þannig:

1. fl. nú 20 au., eftir frv. 30 au.

2. — — 50 — — — 75 —

3.— — 600 — — — 900 —

4. fl. fellur burtu í stj.frv., vegna sjerstakra laga um salt og kolatoll.

5. fl. nú 6 au., eftir frv. 9 au.

6. — — 200 — — — 300 —

Að því er snertir hinar almennu hugleiðingar hv. þm. Ísaf. (M. T.) um það, að tekjuþörfin sje vafasöm, þá skal jeg ekki þreyta menn á því, að sýna fram á þá þörf enn þá einu sinni. En það hefi jeg margsannað, að ef ekkert er gert til þess að draga úr hallanum, er fyrirsjáanlegur óvenjumikill tekjuhalli á næsta fjárhagstímabili.