20.09.1919
Efri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (3195)

155. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það var ekki nema sjálfsagður hlutur, að jeg vekti eftirtekt á því í Nd., að heppilegast væri að láta stjórnarfrv. ganga fram, þar sem reynsla er fengin fyrir því, að breyting á flokkuninni í vörutollslögunum vekur jafnan harðvítugar deilur. Um það efni sýnist sitt hverjum. Hins vegar er mjer aðalatriðið, að skatthækkunin verði samþykt. Jeg geri ekki ráð fyrir, að háttv. þm. Ísaf. (M. T.) takist að vekja kapp milli deildanna um þessi tvö vörutollsfrv. Tvö stór skattafrv. hafa verið samþ. í Nd., hjer um bil óbreytt eins og þau voru afgr. hjeðan, og var síður en svo, að háttv. Nd. væri að etja kappi við þessa hv. deild, því ýms atriði voru háttv. deild ógeðfeld í frv. þessum, en af hræðslu við, að skatturinn minkaði við flæking milli deildanna, beygði Nd. deild sig fyrir Ed. En ef það hefir verið tilgangur hv. þm. (M. T.) að fá sig útlagðan föður að vörutollshækkuninni, þá hefði jeg innilega gjarnan getað unt honum þess heiðurs, ef það hefði ekki hleypt málinu í neina hættu. En almennur áhugi er nú fyrir því, að hraða þinginu sem mest, og ef til vill verður því lokið síðari hluta næstu viku. Er því auðsjeð, hve mikill tími vinst til þess að endurskoða vörutollslögin. Jeg vænti því, að hv. deild taki þann einn kost, sem í raun og veru er um að velja fyrir þá, sem vilja skerða tekjuhallann mikla, og það er að samþykkja frv. óbreytt, eins og það kemur frá hv. Nd.