22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (3202)

155. mál, vörutollur

Frsm. (Magnús Torfason):

Út af ummælum hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) vil jeg leiðrjetta þann miður góðgjarna skilning, sem hann lagði í framkomu mína í þessu máli. Hún hefir sem sje, eins og auðsjeð er, alls ekki miðað að því að eyða málinu, eða tefja það, heldur að hinu, að sniða af stj.frv. þá agnúa, sem auðsýnilegir voru á því. En það hefir hæstv. fjármálaráðherra sjálfur játað, að agnúar hafi verið á því. (Fjármálaráðh.: Játað?). Já; hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hefir meira að segja játað, að till. mínar væru sanngjarnar, þar sem hann sagði, að jeg hefði áður komið fram með svipaðar till. Þá sje jeg ekki að neitt sje við það, að vera þannig sjálfum sjer samkvæmur, allra helst þar sem till. mínar miða í rjetta átt og að því að hækka tekjur ríkisins, en með því er auðvitað eigi sagt, að jeg vilji, að hækkunin komi ósanngjarnlega og misjafnt niður, eins og hún gerir í stj.frv.