24.09.1919
Neðri deild: 72. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (3207)

155. mál, vörutollur

Magnús Guðmundsson:

Jeg get ekki látið vera að undrast nokkuð, að þetta frv. skuli fram komið, þar sem tvö frv. eru fyrir um breytingu á sömu lögunum, og hefði Ed. átt að steypa einhverju af þeim saman, ef hún á annað borð hefir ætlað frv. að ganga fram. Þetta frv. breytir engu, nema óverulega færslu á milli flokka í vörutollslögunum, og eru það aðallega þrennskonar vörur, sem lækka dálítið við það, sem sje seglgarn, strigi og femisolía. En jeg get ekki ímyndað mjer, að þetta muni nokkru verulegu, og er mjög óheppilegt að vera að hringla í vörutollslögunum svona á hverju þingi.

Svo á frv. þetta ekki að gilda nema til ársloka 1921. Jeg hygg, að Ed. hafi hleypt þessu frv. hingað til þess að það lognaðist út af. Ein breyting er í frv., sem er þess verð, að henni sje veitt eftirtekt, og það er að tolla farþegabifreiðar eins og vefnaðarvöru. Þar kemur fram óbeinlínis viðurkenning Ed. um rjettmæti sjerstaks tolls af bifreiðum, eins og fjárhagsnefnd þessarar deildar vildi láta leggja á þær. En Ed. hefir þótt betur við eiga að gera þær að vefnaðarvöru. Annars er nokkurt vafamál, hvað átt er við með farþegabifreiðum. Ef átt er við þær bifreiðar einar, sem taka farþega fyrir borgun, getur leikið nokkur vafi á, hverjar það sjeu, því ekki sjest það á þeim. Fjárhagsnefnd er mótfallin frv., og er það að eins til að tefja tímann að láta það ganga lengra, ef deildin er nefndinni sammála um, að frv. eigi ekki að ganga fram. Og jeg skal bæta því við, að það kemur dálítið undarlega fyrir, ef þrenn lög um breytingu á sömu lögunum verða staðfest af konungi, öll frá sama þinginu, og ef til vill sama daginn, og sitt gjald í hverju frv. Væri slíkt óþarfi og óhæfa.

Jeg legg því til, að frv. verði felt nú þegar.