12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (3215)

151. mál, heimild handa landsstjórninni til að kaupa hús

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal geta þess til skýringar þessu máli, að í vetur kom það til, að landssjóður keypti hús fyrir þær stofnanir sínar, sem væru að meira eða minna leyti á hrakningi. Voru þá nefnd til þrjú hús — en tvö af þeim munu nú ekki lengur á markaðinum; þriðja húsið er það, sem hjer er um að ræða. Mín afstaða var þá, að stjórnin hefði tæpast heimild til kaupanna án samþ. þingsins.

Þess vegna var engu svarað til um þetta þá, heldur beðið þess, að þing kæmi saman.

Jeg hygg, að það gæti verið mjög þægilegt fyrir landsstjórnina að hafa húsið, og get ekki talið neitt ísjárvert að heimila landsstjórninni að kaupa húsið fyrir hæfilegt verð. Það mætti vonandi losa sig við það, landinu að skaðlausu, ef ekki þyrfti að nota það lengur.

Þetta segi jeg til skýringar afstöðu minni í málinu, en læt að öðru leyti hv. deild um það, hvernig hún snýst við því.