12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (3216)

151. mál, heimild handa landsstjórninni til að kaupa hús

Magnús Guðmundsson:

Út af till. hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.), um að vísa málinu til fjárhagsnefndar, skal jeg geta þess, að það hefir þegar verið fyrir fjárhagsnefnd, og voru allir málinu mótfallnir í nefndinni, nema háttv. flm. (H. K.). Annars veit jeg ekki betur en að bæði hagstofan og mælistofan eigi von á húsnæði, svo ekki þarf að kaupa húsið þeirra vegna.

Fjárhagsnefnd skoðaði hús það, sem hjer er um að ræða, að vísu mjög lauslega, og fanst það ekki hentugt. Og þar sem trjególf eru í því öllu, efast jeg um, að þau þoli þunga peningaskápa.

Ef svo fer, að Landsbankinn byggi á gömlu bankalóðinni og landssíminn leigi þar, losnar alveg núverandi landssímahús, og verður þar pláss. Líka væri hægt að byggja við stjórnarráðshúsið og fá þar pláss fyrir skrifstofur. Teldi jeg það að mörgu leyti þægilegra að hafa skrifstofurnar á einum stað, og nægileg lóð er þarna, sem ekki þarf að kaupa.