12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (3219)

151. mál, heimild handa landsstjórninni til að kaupa hús

Flm. (Hákon Kristófersson):

Jeg hjelt, að þessi till. mundi ekki verða til þess að leiða af sjer harðar umr. og jafnvel aðdróttanir í sumra manna garð, eins og raun er á orðin.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) furðaði sig á því, að till. skyldi vera flutt af einum manni. En mjer er spurn, er slíkt nokkurt einsdæmi? Jeg veit ekki betur en að það komi fyrir oft og mörgum sinnum á hverju þingi, að till. eða frv. sje flutt af einum manni. Hann sagði, að jeg hefði átt sæti í nefnd, sem hefði fjallað um málið. Þetta er nú bæði satt og ekki satt. Það var aldrei tekin bein afstaða til málsins í nefndinni.

Annars má um mörg mál segja, að það skifti ekki svo miklu máli, hvort persónuleg atriði standa á bak við eða ekki. En jeg verð að segja það, að mjer þykir það nokkuð hörð aðdróttun, að það muni frekar byggjast á mönnum en málefnum, að þessi till. er komin inn í þingið. Jeg vil ekki drótta því að stjórninni, að hún fari hjer út á einhverja gerræðisglapstigu. Hún hefir oft sýnt það, að hún á ekki slíkt vantraust skilið, og margt hefir henni tekist vel, þótt ýmislegt hafi þótt mega að henni finna.

Hv. þm. (G. Sv.) sagði, að byggingin væri veruleg hrákasmíð. Jeg er ef til vill ekki eins dómhæfur maður um þessa hluti og býst við, að hann segi þetta af þekkingu. Annars held jeg, að megi segja um þessi ummæli hv. þm. (G. Sv.) hið fornkveðna: „Frændur eru frændum verstir,“ þegar þess er gætt, hve náinn skyldleiki er með hv. þm. (G. Sv.) og manni þeim, er bygði hús þetta. En ef sanna mætti, sem jeg tel engan efa á, að frágangurinn er góður á húsinu, þá er framkoma hans, vægast sagt, ódrengileg. Hann sagði enn fremur, að húsið væri í braskarahöndum. Þetta er nú fyrst og fremst fullyrðing, sem hann rökstuddi ekki, og þótt þetta væri rjett, þá sannar það ekkert um ásigkomulag hússins. Það getur verið jafngott eins og þó að það hefði verið í höndum hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), eða mínum, og erum við hvorugir braskarar. (G. Sv.: Það er nú ekki útsjeð um það). Þessi ummæli hv. þm. (G. Sv.) hljóta að eiga við um hann sjálfan, en ekki mig; læt þeim því ósvarað.

Svo endaði hv. þm. (G. Sv.) með því, að vilja láta heimila stjórninni að kaupa eitthvert hús. En það er ekki betra fyrir hana heldur en að hafa eitthvað víst. Einnig sagði hv. þm. (G. Sv.), að hann vildi ekki leiða neinum getum að því, af hverju till. væri fram komin. Jeg veit ekki, hvað hann meinar, því það er deginum ljósara, af hverju till. er fram komin. — Annars hygg jeg, að megi segja um þessa ræðu hv. þm. (G. Sv.), að hún var, eins og fleiri úr þeirri átt, full af órökstuddum sleggjudómum og illgjörnum aðdróttunum, sem maður, er kynni sjer eitthvert hóf, ljeti ekki frá sjer fara.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) fullyrti, að hvorki mælitækjastofan nje hagstofan væru í húsnæðisvandræðum. En jeg er þar ekki á sama máli, og vil leyfa mjer að lesa upp kafla úr brjefi, sem jeg fjekk í gær, máli mínu til stuðnings. Brjefið er frá Þorkeli Þorkelssyni, löggildingarskrifstofustjóra. Þar segir svo, meðal annars:

„Húsnæði löggildingarstofunnar er nú 2 stofur (gólf 29 flatarmetrar) og dálítil geymsla í kjallara, en húsnæði þetta er alveg ónægt; allar stærri vogir verður að prófa úti í porti, og er ómögulegt að una við það lengur. Jeg er nú að leita að húsnæði fyrir verkstæði, því að reynslan hefir sýnt það, að nauðsynlegt er að hafa í sambandi við löggildingarstofuna verkstæði, til þess að gera við vogir, og hefi jeg hugsað mjer að hafa þá prófun voganna á sama stað, því að það er hagfeldast. En mjög er það óþægilegt að geta ekki haft alt, sem löggildingarstofunni viðkemur, á einum og sama stað.“

Jeg verð að halda því fram, að hjer sje einmitt um brýna þörf að ræða.

Sami háttv. þm. (M. G.) benti á, að það mundi verða heppilegra fyrir landssjóðinn að byggja. En þær byggingar, sem landssjóður hefir þegar komið upp, sýna, að hann kemst síst að betri kjörum en aðrir. Jeg man t. d. ekki betur en að áætlaðar væru 60 þús. kr. til byggingar, yfir einn einasta starfsmann, sem landið á nú í smíðum, en til hennar mun ganga nokkuð á 2. hundrað þús. kr. Og svona mætti margt upp telja.