13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í C-deild Alþingistíðinda. (3225)

137. mál, skógrækt

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Landbúnaðarnefndin hefir leyft sjer að flytja þessa till., um framkvæmd skógræktar, á þgskj. 521.

Ástæðan fyrir till. er óánægja sú, sem ríkir í landinu út af framkvæmd og stjórn skógræktarmálanna. Vil jeg nú leyfa mjer að gera nokkra grein fyrir þessu máli.

Helstu framkvæmdir í skógrækt, og í raun og veru þær einu, sem gerðar hafa verið undanfarin 6–8 ár, eru skógarhögg, eða grisjun, og fleyting skógvíðar.

Um skógarhögg er það að segja, að gert hefir verið mikið að því sumstaðar, og það jafnvel meir en góðu hófi gegnir. Fróðir menn um þessa hluti telja, að skógarhöggi eða grisjun verði að haga eftir því, hvernig skógbotninn er, eða jarðvegurinn, sem skógurinn vex í. Þar, sem jarðvegurinn er laus í sjer eða sendinn, verður að fara mjög varlega í það að höggva skóginn. En þessa hefir, því miður, ekki ætíð verið gætt sem skyldi. Aftur eru víða stór skóglönd, sem lítið eða ekkert hefir verið átt við að höggva þannig er það t. d. um þann hluta Efstadalsskógar í Laugardal, sem liggur inn með hliðunum inn undir Bjarnarfell. Þar er skógurinn svo þjettur eða svo mikið vaxinn, að eigi verður komist um hann. Í Barðastrandasýslu eru viða álitleg skógarsvæði, sem eru í mestu óhirðu, meðal annars vegna þess, hvað lítið og ófullnægjandi skógurinn er höggvinn. Gæti jeg nefnt þar sem dæmi skóginn í Djúpadal og Vatnsfirði á Barðaströnd. Mest hefir skógur verið höggvinn hjer í nágrenni við Reykjavík, svo sem Vatnaskógur á Hvalfjarðarströnd. Hefir verið unnið þar að skógarhöggi 2 undanfarin sumur. Í sumar hefir verið unnið að skógarhöggi í Ánastaðaskógi vestur við Langá á Mýrum. Með miklum kostnaði hafa fjórir menn unnið þar að þessu verki, og hefir sumum þeirra að minsta kosti verið borgaðar 250 kr. á mánuði, auk ókeypis fæðis og annars kostnaðar við dvölina þar vestra.

Í stuttu máli sagt, þá er þetta skógarhögg framkvæmt mjög af handa hófi, og ekki tekið nægilega mikið tillit til hvernig til hagar á hverjum stað með jarðveg og annað. Ef mikið er höggið þar sem jarðvegurinn er sendinn eða laus í sjer, getur það stutt að uppblæstri og eyðileggingu skógarins.

Við þetta bætist svo það, að skógarhöggið undir forustu skógræktarstjórans hefir ekki svarað kostnaði. Undantekning frá því er þó árið sem leið. Og ástæðan til þess var vitanlega eldiviðarleysið í fyrra, og því var hægt að selja þennan höggna við úr Vatnaskógi fyrir hátt verð. Öðru máli var að gegna áður, og eins verður með viðinn úr Ánastaðaskógi. Hann hlýtur að verða afardýr, því bæði varð höggið kostnaðarsamt, og þá ekki síður flutningurinn. Það sýnir sig áður en lýkur.

Þá er það fleytingin. Það er langt síðan byrjað var á henni, en hún hefir gefist illa. Hugmyndin um fleytinguna er frá Noregi og Svíþjóð. En þar er ólíku saman að jafna og hjer. Þar er viðnum fleytt niður stórárnar í flekum. Þar er girt fyrir víkur og sandvík, ef nokkur eru, svo viðurinn strandi ekki þar. Viðarflekarnir fjóta ofan á vatninu. — En hjer er öðru máli að gegna. Skógviðurinn er bundinn í bagga og fleygt svo í vatnið. Baggarnir verða tíðast gegnsósa af vatni, og sandur og jökulleir sest í þá. Þyngjast þeir við það og morra í kafi, og gengur ekkert. Enda er kostnaðurinn við þessa fleytingu gífurlegur, en lítið í aðra hönd. En þrátt fyrir alla handvömm, kostnað og óþarfafyrirhöfn, er þó verið að eiga við þessa fleytingu einlægt öðru hvoru. Það er að eins fleyting skógarviðar eftir Fnjóská í Suður-Þingeyjarsýslu, sem skógræktarstjórinn virðist vera búinn að fá nóga reynslu um, að ekki svari kostnaði. Í skýrslu til stjórnarráðsins í vetur kvaðst hann munu hætta við fleyting eftir þeirri á, enda hefir fleytingin þar gefist alt annað en vel.

En það verður alfarið að breyta til í þessu efni og hætta við þetta skógarfleytingshúmbúg. Um eitt skeið var komið upp mörgum skógargirðingum. Það voru girtir hingað og þangað smáskógarblettir; það á ef til vill að einhverju leyti rót sína að rekja til ákvæða skógræktarlaganna, hvað þessir reitir eru litlir. En skóggirðingar þessar voru víða misskynsamlega settar, og ekki ætíð vandað til þeirra sem skyldi. Síðan hefir lítið og ekkert verið um það hirt. Þær eru víða nú í reiðuleysi og vanhirðu. Hitt skal viðurkent, að þessi stefna, að girða og friða skóglendi, sem eru í eyðileggingu, væri í alla staði rjett. Og það er nauðsynlegt að friða ýms skóglendi á þennan hátt, og með því styðja að vexti og viðgangi skógarins. En það þarf að gera meira en að koma upp þessum girðingum. Það þarf að halda þeim við, svo að fjenaður geti ekki farið inn og út um þær.

Ekkert hefir heldur verið athugað um það, hvort eða hverjum framförum skógurinn hefir tekið innan þessara girðinga, eða á þessum girtu svæðum. Að minsta kosti hafa engar skýrslur birst um það efni. Þannig er flest, hvað skógræktina snertir, á sömu bókina lært. Um fjeð, sem veitt hefir verið til skógræktar, er það að segja, að mikill hluti þess hefir farið í laun og ferðakostnað.

Árið 1915 var veitt til skógræktar, að með töldum launum, 13000 kr. Þar af fóru í laun og ferðakostnað 8000 kr., eða tæpir 2/3 hlutar alls fjárins. Árið 1916 nam fjárveiting til skógræktar rúmum 15000 kr.; þar af eyðist í laun og ferðakostnað rúmar 10000 kr., eða 2/3 hlutar styrksins. Svipað er að segja um árin 1917 og 1918. Fyrir næsta fjárhagstímabil hefir skógræktarstjórinn gert áætlun um, að varið verði til skógræktar 30000 kr. hvort árið. Þar af er áætlað til skógarhöggs 11.400 kr., og til að kaupa skóglendi, Hraunteigsskóg og skóglandið á Þórsmörk, 10–12 þús. kr. — Það er nú sjálfsagt vel hugsað að kaupa þessi skóglönd. Og það eru fleiri skógarsvæði, sem landið ætti að kaupa og vernda frá frekari eyðileggingu en orðið er. Mætti þar meðal annars benda í Bæjarskóg á Öræfum, sem talinn er að vera í hættu. En hitt er annað mál, hvort ráðlegt er að fela núverandi framkvæmdarstjóra skógræktarmálanna að gera þessi kaup. Reynslan virðist benda á, að svo muni ekki vera.

Niðurstaðan er, að skógræktarmálin eru í óreiðu. Fyrir því er nauðsynlegt, að framkvæmdir þeirra mála verði rannsakaðar, og það sem fyrst. Meðan á þeirri rannsókn stendur ætti að fara varlega í það, að veita fje til skógræktarinnar, bíða heldur þess, að betra skipulag kæmist á tilraunir þær, sem verið er að gera til þess að vernda og rækta skóg hjer á landi.