13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (3230)

137. mál, skógrækt

Pjetur Jónsson:

Jeg býst við, að hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) sje svo vant við kominn, að hann geti ekki hlýtt á mál mitt, en það var þó ræða hans, sem fjekk mig til að standa upp, af því að hann hálft um hálft skírskotaði til mín í henni. Það var ekki nema eðlilegt, að hann skírskotaði til mín, því honum er kunnugt um, að jeg er skógræktarmálinu allkunnur. Jeg hefi lengi setið í fjárlaganefnd, og hefir það oftast nær komið til mín að athuga þennan lið þeirra sjerstaklega, sem um skógræktina fjallar, svo jeg hefi, ef svo mætti að orði komast, nokkurn veginn alist upp með því máli. Málið er allóþægilegt, eins og gengur og gerist um mál, sem ganga illa, og er í slíkum efnum varla hægt að komast hjá því að snerta persónur, sem mest eru við málið riðnar. Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) sagði, að Alþingi hefði einatt sett niður þær till., sem stjórnin hefði gert til þess að hækka styrkinn til skógræktarinnar. Jeg skal ekki mikið um þetta segja, en það er víst, að stjórnin var framan af nokkuð örlátari til þessa máls en þinginu fanst ástæða til, eins og málinu var komið. En þó man jeg eftir því, að fyrir nokkrum árum var stjórnin komin að þeirri niðurstöðu, að ekki væri mikið hægt að gera í þessu máli með þeirri framkvæmdarstjórn, sem þá var og enn er. Jeg ræddi um þetta við stjórnina einslega, oftar en einu sinni, fanst ekki ástæða til að gera það svo mörgum væri kunnugt, og þá varð niðurstaðan sú, að ekki væri rjett að veita mikið fje til þessa máls, eins og stæði. Á þessum vandræðum gekk svo og gengur enn þann dag í dag. Eins og kunnugt er, ganga nærri tveir hlutar af fjárveitingunni árlega til starfslauna og ferðalaga, og er þó fjarri mjer að segja, að starfslaunin sjeu of há, nje ferðalög skógvarðanna meiri en þörf gerist. Í fjárlagafrv. stjórnarinnar, sem lá fyrir þinginu 1917, stóðu 15000 kr. til skógræktarinnar, og fjelst fjárveitinganefnd á það óbreytt, svo að það er misminni hjá hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.), að nefndin hafi altaf lækkað till. stjórnarinnar. En við þessa fjárveitingu gerði nefndin þá í áliti sínu allskarpa athugasemd, er átti að ýta undir stjórnina að hafa gott eftirlit með þessu máli og hvetja til skynsamlegra framkvæmda í því. Get jeg ekki stilt mig um að lesa upp kafla úr nefndaráliti fjárveitinganefndar, þar sem um þetta er talað:

„Nefndin kemur eigi fram með neinar brtt. viðvíkjandi skóggræðslunni. En hún hefir eigi að síður athugað mál þetta talsvert og kynt sjer framkvæmdirnar eftir föngum, og þó einkum reikninga skógræktarstjóra fyrir síðastliðin þrjú ár. Útdrátt hefir hann gert úr reikningunum, til þess að sýna, hvernig fjenu hefir verið varið, sem til skógræktarinnar er veitt.“

Útdrátt þennan má lesa í A-deild Alþt. 1917, á bls. 823, og er gagnslaust að lesa hjer upp tölurnar.

Þetta sýnir, að nefndin hefir þá, eins og oft áður, leitast við að athuga málið eftir þeim plöggum, er fyrir lágu.

En svo held jeg áfram að lesa nefndarálitið þessu viðvíkjandi:

„Yfirlitið ber með sjer, að jafnvel þótt fjárveitingunum væri vel varið eftir föngum, þá gengur meira en helmingur þeirra til launa og ferðakostnaðar lögákveðinna starfsmanna. Má efast um, að sum ferðalögin sjeu nauðsynleg; en þó er sumum nefndarmönnum kunnugt, að nauðsynlegt eftirlit og leiðbeiningar skógarvarðanna hefir eigi komist á vegna peningaskorts til eftirlitsferða. Til skóggræðslunnar sjálfrar, eða grisjunar, girðinga og umbóta, gengur minstur hluti fjárins, og fer minkandi. Virðist það mjög athugavert að hafa fjóra starfsmenn til svo lítils. Að nokkru leyti stafar þetta af naumum fjárveitingum, en þær koma aftur af því, að fjárlaganefndunum hefir einlægt virst forstaða skógræktarinnar óheppileg í fylsta lagi. Meðal annars og sjer í lagi skal bent á fjáreyðsluna við fleytingar á skógviði, sem fullreynt er að ekkert vit er í, en sívaxandi fjáreyðsla til ónýtis, eins og skýrslur og reikningar bera með sjer. Lítur nefndin svo á, að það verði að varða stöðu skógræktarstjóra, ef hann heldur áfram viðarfleytingu og öðru jafnfjarstæðu á kostnað landssjóðs. Þetta er hjer sagt landsstjórninni til nákvæmrar athugunar.“

Þetta sagði fjárveitinganefnd Nd. 1917 stjórninni, eftir fleiri ára árangurslausar tilraunir til þess að fá lagfæring á skógræktina. Síðan hefir orðið sú lagfæring á, að ekki hefir verið varið eins miklu fje til ónýtis eins og áður, og hefir að því leyti haft dálitla verkun. En nú vildi nefndin enn á ný reyna að kynna sjer málið, með því að hafa tal af skrifstofustjóra þeim, er málið heyrir undir í stjórnarráðinu. Þar sem nú nefndinni virtist það fje, sem veitt var umfram laun skógræktarstjóra og fastra starfsmanna hans, hlutfallslega of lítið, ráðgaðist hún um það við stjórnina, hvort ekki ætti að bæta við fjeð. Fjekk hún það svar frá þeim manni, sem málinu var best kunnugur, að hann sæi sjer ekki fært að fara fram á, að meiru fje væri varið til þessa máls. Þykist því nefndin hafa hreinar hendur í þessu máli.