13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (3235)

137. mál, skógrækt

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla ekki að blanda mjer í þá deilu, sem hjer hefir staðið, og ætla ekkert að segja um það, hvort þau ákæruatriði, sem borin hafa verið fram, sjeu rjett eða röng. Þetta mál tekur ekki til mín.

Jeg hefi ekki á móti því, að þingið setji sjálft rannsóknarnefndir til að rannsaka slík mál sem þessi; en þá hefði þurft að setja þessa nefnd þegar á öndverðu þingi, en ekki í þinglok. —

Það er sjálfsagt, að sjerfróðir menn settu að framkvæma rannsókn þá, sem hjer er talað um. En þá mun fáa að fá hjer. Það hafa verið nefndir til tveir slíkir menn, sem fundið hafa að gerðum skógfræðingsins. Ætti kann ske að taka þá, annanhvorn eða báða, til að fremja rannsóknina. Reyndar mun annar maðurinn alls ekki vera sjerfróður um skógræktarmál; um hinn má ef til vill segja, að hann sje það. Eða er það tilætlunin að fá útlendinga til rannsóknarinnar? Það ræki líklega að því, að svo yrði að vera, ef hún ætti að vera ábyggileg. Till. er vanhugsuð, eins og hún liggur fyrir.

Eftir stjórnarskránni er þinginu heimilt að setja nefndir til þess að rannsaka málefni, sem eru áríðandi fyrir almenning, og fleiri aðferðir getur það haft til að fá vitneskju um þau, og þarf ekki á það að benda. En þessa aðferð held jeg að alls ekki megi upp taka, að þingið fari að blanda sjer svona óákveðið inn í umboðsstjórn landsins. Jeg vona, að hv. deild samþ. ekki þessa till., eins og hún liggur hjer fyrir.