13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (3237)

137. mál, skógrækt

Bjarni Jónsson:

Hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) talaði mikið um skógræktina við Rauðavatn, og að geitur væru þar innan girðingar á beit. Þetta kom málinu ekki sjerlega mikið við; eða ætlast hv. þm. (B. Sv.) til, að skógræktarstjórinn standi þar á verði og verji geitum og sauðfje að komast inn á skógræktarsvæðið. Það er vitanlegt, að hann hefir ekki fje til að láta gera við girðingarnar þar, og verður hann ekki sakaður um það; þeim skeytum verður að beina til þingsins, og þeirra, sem dyggilegast berjast fyrir því, að skera sem mest við neglur sjer fje til skógræktar. Annars mun hafa verið frá upphafi í vitleysu stofnað til skógræktar við Rauðavatn, en þá var skógfræðingurinn ekki kominn hingað til lands, svo að ekki getur það verið honum að kenna.

Hv. flm. (S. S.) talaði ýmislegt um málið. Honum þótti það undarlegt, að jeg teldi það leiðinlegt, að ráðist væri á útlendan mann, sem ekki ætti kost á að bera hönd fyrir höfuð sjer. En skjóta vil jeg því til hv. þm. (S. S.), hvort honum mundi ekki vera viðkvæmara, ef á hann væri ráðist, ef hann væri starfandi erlendis, en þótt eigin landar hans rjeðust á hann heima. Og ekki ætti honum að þykja það undarlegt, þótt einhver verði til þess að taka málstað þess, sem á formælendur fá, þegar ómaklega er á hann ráðist. Hv. þm. (S. S.) þótti það og furða, að jeg skyldi nú fara að taka málstað Dana, svo óvæginn sem jeg hefði oft verið í þeirra garð. Reyndar nefndi jeg ekki Dani á nafn í þessu sambandi; en satt er það, að jeg hefi haft fulla einurð á að andmæla Dönum, þegar þeir hafa seilst um of eftir yfirráðum hjer, en það er stjórn og stefnur, sem jeg hefi þá ráðist á, en ekki einstaklingar. Þá hefi jeg aldrei verið eins stimamjúkur við Dani eins og hv. þm. (S. S.) og flokksbræður hans. Þá talaði hv. þm. (S. S.) um, að þeir, sem ekki vildu samþ. þessa viturlegu till., væru menn, sem vildu draga fjöður yfir alt. Hv. þm. (S. S.) hefir engan rjett til að kasta þessu fram; og vita má hann, að hvorki hefi jeg skap til að vera rógheri nje ákærandi varnarlausra manna. En líklega má finna fleira en þetta í búnaðarbótaviðleitni þeirra, sem mest fást við þær, sem vert væri að draga fram og taka til skoðunar, en um það hirði jeg ekki. Hins vegar er það fallegt, að hv. þm. (S. S.) ætlast til þess, að skógræktarstjórinn fái eftirlaun, svo sparsamur sem hann annars er á eftirlaun og annað. — Hv. þm. (S. S.) var að tala um erfiða skapsmuni manns þessa. En þá er langt leitað, ef þingið fer að ákæra menn fyrir skapgalla, og gæta skyldu þm. að vera skapgóðir sjálfir við löggjafarstörf sín. Ekki bregð jeg hv. þm. (S. S.) um, að hann sje það ekki; en stundum sækir hann mál og ver af allmiklu kappi í þinginu, og það svo, að ókunnugum mun þykja gæta ofsa nokkurs hjá honum. Enn sagði hv. þm. (S. S.), að hann gæti nefnt fimm menn, sem gætu tekið að sjer starf skógræktarstjórans. Það getur vel verið, því að jeg get nefnt til 20 menn, sem mundu treysta sjer til að vera ráðunautar búnaðarfjelagsins. Þó dettur mjer ekki í hug að bera fram þingsályktunartill. um að svifta háttv. þm. (S. S.) þeirri stöðu, og mundi vart gera það, þótt jeg heyrði einhverjar hviksögur um hann.

Þá er að minnast á það, sem sagt er í nál. fjárveitinganefndar 1917 um þetta mál. Það er satt, að jeg gerði ekki ágreining um það, sem þar stóð, þótt mjer hins vegar líkaði alls ekki, hvernig það var orðað.

Það hefir enn sem komið er veitt erfitt að koma með sannanir gegn skógræktarstjóranum. Aðalsynd hans á að vera, að hann hafi verið að fást við fleytingu á skógarviði. En nú er það komið í ljós, að síðan hið umrædda nefndarálit kom fram hefir hann látið fleyta miklu minna, og fleytingin borgað sig betur. Með þessu ætti sú dauðasynd að vera afmáð.

Þá gengur ekki betur að sanna, að árangurinn af starfi skógræktarstjóra hafi verið lítill eftir atvikum. — Ekki ómarkari maður en sjálfur atvinnumálaráðherrann (S. J.) hefir borið um það, eftir eigin sjón og reynslu, að skógræktinni hafi farið mjög fram síðustu ár; hafi að því stuðlað ýms atvik, en ekki síst þó kunnátta og áhugi skógræktarstjórans, sem meðal annars hafi kent mönnum að grisja skóg af skynsamlegu viti. Jeg hefi heyrt fleiri en hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) tala um Hallormsstaðaskóg, og ber öllum saman um, að nú sje alt önnur sjón að sjá hann en verið hafi áður en skógræktarstjórinn fór að hafa afskifti af honum, enda er það von, því að síðan hefir hann verið varinn og hirtur.

Fyrst sóknin hefir gengið jafnilla fyrir hv. nefnd, sem raun er á orðin, ætti hún að taka till. aftur, því að margt annað hefði landbúnaðarnefnd gert þarfara landbúnaðinum en að vera að burðast með till. þessa; svo margt hefir hún ógert látið af því, sem gera hefði átt.

Að endingu leyfi jeg mjer að bera fram brtt. við rökstudda dagskrá hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.):

Í því trausti, að stjórnin hafi nægilegt eftirlit með skógrækt landsins, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.