24.07.1919
Neðri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (3245)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Flm. (Gísli Sveinsson):

Það er langt síðan þjóðirnar fundu það, að eðli alls átrúnaðar krefst þess, að með hann sje farið sem einkamál, að svo miklu leyti sem kleift er. Og eins og menn vita, er nú liðin meira en öld síðan, að sú stefna kom fram, er leiddi til þess, að ákvæði um trúarbragðafrelsi voru tekin upp í grundvallarlög eða stjórnarskrár allra helstu ríkja í Norðurálfunni og víðar.

Hjer hjá oss Íslendingum hafa ákvæðin í stjórnarskránni frá 1874 verið aðalmælikvarðinn í þessu efni. Þau ákvæði eru að mestu samhljóða því, sem annarsstaðar er, enda eru þau tekin upp úr skyldum stjórnarskipunarlögum.

Það eru 45., 46. og 47. gr. stjórnarskrárinnar frá 1874, sem hljóða um þessi efni.

En þótt 45. gr. standi fremst, er það þó ekki aðalgreinin, heldur er það 46. gr., og sem afleiðing af henni stendur 47. gr., en 45. gr. er nokkurskonar afturhvarf frá þeim grundvelli.

Með leyfi hæstv. forseta skal jeg lesa þessi ákvæði upp. Þau hljóða svo:

„46. gr. — Landsmenn eiga rjett á að stofna fjelag til að þjóna guði með þeim hætti, sem best á við sannfæringu hvers eins.“

Endir þessarar gr. er samhljóða því, sem annarsstaðar er sett sem takmörk vegna almenns velsæmis hann hljóðar svo: „Þó má ekki kenna eða fremja neitt, sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.“

Þetta eru aðalákvæðin. Þá kemur 47. gr.: „Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum rjettindum fyrir sakir trúarbragða sinna, nje heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri fjelagsskyldu.“

Þessi takmörkun í síðari hl. greinarinnar er í fullu samræmi við 46. gr., og ef þessi ákvæði giltu ein, mætti segja, að fullkomið trúarbragðafrelsi væri í landinu, þá stæði það í löggjöfinni sem aðalregla.

En það er 45. gr., sem hjer gerir höfuðtakmörkin. Það er hún, sem kemur í beina mótsögn við aðalregluna, er átti að vera. Sú grein er á þessa leið:

„Hin evangeliska lútherska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal hið opinbera að því leyti styðja hana og vernda.“

Með þessu ákvæði er settur slagbrandur fyrir dyrnar að trúarbragðafrelsinu, því að það, sem veitt var með hinum ákvæðunum, var aftur tekið með þessu. Því er sem sje slegið föstu, að sú kirkja, sem hjer skuli vera ríkjandi, skuli vera hin evangeliska lútherska kirkja. Þjóðin hefir því bundið sig við eitt kirkjufjelag, eða verið bundin við það. En þetta ákvæði er reyndar komið inn í lögin af skiljanlegum og skýranlegum ástæðum. Fyrst og fremst af því, að grundvallarhugsunin, sem átti að ganga í gegn í þessu máli, var mönnum óljós, og í öðru lagi var svo ástatt hjer, eins og raunar á öllum Norðurlöndum, að langa lengi hafði lútherska kirkjan verið aðalkirkjan hjer á landi. Síðan þetta ákvæði var lögleitt hefir orðið mikil breyting á hugsunarhætti manna og þekkingu. Mönnum hefir sem sje orðið það ljóst, að það getur ekki farið saman, að leyfa fult trúarbragðafrelsi og að binda menn við einn einstakan trúarbragðaflokk. — Þess vegna hefir sú breyting, að aðskilja ríki og kirkju, náð víða um lönd tökum á hugum manna. Það er öllum mönnum kunnugt, að bæði austan hafs og vestan hefir sú stefna víða orðið ofan á, að mönnum skuli vera frjálst, hvort þeir vilja vera innan nokkurrar kirkjudeildar eða engrar, með öðrum orðum, ríkið og kirkjan hafa verið aðskilin, eða eru að verða það. Þó hefir hið opinbera gætt þess, að ekki væru kend önnur trúarbrögð en þau, sem eigi brytu bág við siðferði og landslög.

Það er öllum kunnugt, að hjer á landi hefir fyrir löngu myndast hreyfing í þessa átt, enda þótt hennar hafi ekki enn gætt í löggjöfinni. Og háværar raddir hafa heyrst um það, bæði á mannfundum og í ritum, að ekki tjóaði að láta við gamla horfið sitja, að styrkja eina kirkjudeild og hafa verið teknar ályktanir um það. Eins og þetta er öllum ljóst, eins er og ljóst, að um heiminn fer áframhald af þessari hreyfingu, svo að verið er nú er gera gangskör að því, jafnvel hjá mjög fastheldnum þjóðum, hvort ekki muni vera rjett að skilja ríki og kirkju og koma á fullkomnu trúarbragðafrelsi undir umsjón ríkisins. Það er því engin furða, þó að menn hjer telji nú þetta mál tímabært, eins og jeg hefi talið það tímabært fyrir löngu.

Jeg skal geta þess, út af ákvæðum stjórnarskrárinnar um, að landsmenn sjeu bundnir við lúthersku kirkjuna, að það er svo að skilja, að þjóðfjelagið á að styrkja eina kirkjudeild, en sá styrkur er í framkvæmdinni aðallega fjárhagslegur, auk þess sem ríkið, hið verslega vald, verður að fjalla um öll þau mál, er kirkjuna varða að einhverju leyti. Það er því ekki nema eðlilegt, að margir, bæði utan kirkjunnar og innan, hafa fundið til þess, hversu óeðlilegt það sje, að hið verslega valdið svo nefnda rjeði til lykta málum kirkjunnar, eða með öðrum orðum, menn hafa fundið, hversu óeðlilegt það sje, að jafnvel vantrúaðir löggjafar fjölluðu um þau mál. Af þessum ástæðum hafa einnig úr herbúðum kirkjunnar sjálfrar komið fram háværar skilnaðarkröfur, kröfur um það, að kirkjan væri ekki í neinum veraldlegum böndum, framar því, sem eðli þjóðfjelagsins krefur.

Þá er og fjárstyrkurinn mörgum þyrnir í augum. Við hann eru allir landsmenn bundnir. Þvi að í fyrsta lagi, þó svo sje ákveðið í stjórnarskránni, að menn utan kirkju skuli ekki skyldir að greiða víst gjald til hennar, þá losar það ekki um hömlurnar, því að annað gjald verður að greiða, sem kirkjugjaldinu samsvarar, til mentastofnunar, svo sem háskólans. Auk þessa eru allir landsmenn, hverrar trúar sem þeir eru, gjaldskyldir í landssjóð, og hann heldur uppi þessari stofnun, enda ber raun þess vitni, því allrífleg fjárupphæð er í fjárlögunum ákveðin til prestlaunasjóðs og hinnar svo nefndu andlegu stjettar.

Tvent er, sem nú á tímum gefur fulla ástæðu til þess að hreyfa þessu máli.

Er fyrst að nefna ástandið innan kirkjunnar sjálfrar. Það er sem sje öllum ljóst, að á síðustu tímum hefir ástandið innan þjóðkirkjunnar verið þannig, að jafnvel má fullyrða, að sú kirkja hafi ekki neina trúarjátningu. Eitt hugtak eða nafn, sem mikið er notað nú, ber þess ljósan vott. Það er hugtakið „hin rúmgóða þjóðkirkja“. Til þessa hugtaks hefir verið gripið út úr vandræðum, því að það verður ekki varið, að ýmsar stefnur hafa nú upp á síðkastið komið fram innan kirkjunnar, sem ekki geta samrýmst hinni evangelisk-lúthersku kirkju“, stefnur, sem forkólfar hennar vilja með engu móti vísa á bug, heldur leyfa rúm innan kirkjunnar.

Það er kunnugt, að þær tvær stefnur, sem mest orkar tvímælis um í þessu sambandi, eru hin svo nefnda „nýja guðfræði“ og „andatrúin“. Bæði jeg og aðrir höfum leyft okkur að halda því fram, að þessar tvær stefnur gætu engan veginn samrýmst því, sem menn alment hafa viljað skilja við grundvallaratriði hinnar evangelisk-lúthersku kirkju. En þessu hefir vikið svo einkennilega við, að forkólfar kirkjunnar hafa ekki snúist reiðari við nokkru en því, ef sagt hefir verið, að þetta væri stefnubreyting, sem þjóðkirkjan gæti alls ekki innibyrgt. Í stað þess að viðurkenna, að t. d. nýja guðfræðin væri ný stefna, er leiddi út úr þjóðkirkjunni, hafa forkólfarnir reynt að nota orðabúning, er kirkjan hefir notað öld eftir öld, og hafa þeir fært í þennan búning hinar nýju hugmyndir. Þetta hefir mörgum þótt óviðeigandi. Jeg tel, að mennirnir eigi að kannast við, að þeir sjeu með nýjar kenningar, og sje því að eins tvent til, annaðhvort að mynda nýja söfnuði, utan kirkjunnar, eða þá að breytt sje að rjettum lögum grundvallaratriðum þjóðkirkjunnar, er þannig skuli vera önnur í framtíðinni. En þetta hafa þessir heiðursmenn ekki mátt heyra nefnt.

Hin kenningin er „andatrúin“. Það nafn þykir reyndar forvígismönnum hennar ekki nógu „fínt“, og nefna því stefnuna ýmist „spiritisma“ eða „spiritúalisma“, en jeg mun viðhafa hið íslenska heiti, „andatrú“. Hvað sem segja má um nýju guðfræðina, þá er með öllu fráleitt, að andatrúin geti með nokkru móti samrýmst hinni íslensku þjóðkirkju. Þetta fer ekki orðið neitt dult. Það er ekki að eins í ræðu og riti notað til skýringar á ritningunni, heldur er líka farið út í það í sjálfum athöfnum kirkjunnar, eins og það væri hrein kenning hennar. Að sjálfsögðu hefi jeg persónulega ekkert á móti því, að þessari stefnu sje haldið fram, en því mótmæli jeg, að henni sje blandað saman við kenningar og athafnir hinnar íslensku þjóðkirkju, og að allur sá fjöldi, sem er kúgaður til að styðja fjárhagslega að viðhaldi þessarar kirkju, sje líka þar kúgaður til þess að ala þessa stefnu.

Þetta ástand gefur því alveg sjerstakt tilefni til þess að hreyfa þessu máli. Og um þetta verður að tala, því það eru engin smámenni, sem þessar kenningar flytja, heldur eru það þeir, sem eiga að uppfræða prestaefni landsins og kenna guðfræði við háskólann.

Annað höfuðatriðið, sem gerir það sjerstaklega tímabært að hreyfa þessu máli nú, er hin verslega hlið þess, sem nú er að koma berlega í ljós. Það heitir svo, að klerkastjettin sje launuð af hinum svo nefnda „prestlaunasjóði“, og fást tillögin til hans með ýmsum gjöldum. En auk þessa er það alkunna, að í fjárlögunum er ákveðin ekki svo lítil fúlga til uppihalds stjettarinnar, eða árlega 35000 kr., auk ýmislegs annars. Hitt er og vitanlegt, að laun hins æðsta kirkjuvalds skifta þúsundum króna. Nú er svo til ætlast, samkvæmt allsherjar-launafrv. stjórnarinnar, að hækkað verði að mun við alla stjettina, og er það í sjálfu sjer ekki nema sjálfsagt, að prestarnir njóti sömu meðferðar og aðrir opinberir starfsmenn, meðan þeir eru, eða teljast vera, í þjónustu ríkisins. Þegar menn líta á athugasemdirnar, sem fylgja þessu stj.frv., þá sjer maður, að fúlgan til klerkastjettarinnar er langstærsti útgjaldaaukinn.

Stjórnin ætlast svo á, að til allra embættismanna og opinberra starfsmanna nemi hækkunin hátt á þriðja hundrað þús. kr., að því er föstu launin snertir. Þar af ganga 117,000 kr. til klerkastjettarinnar, og slagar það hátt upp í helming alls útgjaldaaukans. Þetta sjá allir að er há tala, þó að jeg vilji ekki þar með segja, að stjórnin ætli prestunum of há laun, því að það er sjálfsagt að launa þeim sómasamlega, eins og öðrum. En þetta gefur þó fult tilefni til, að aðalmálið verði tekið upp og rannsakað, með öðrum orðum komist að niðurstöðu um, hvort prestarnir eigi að vera embættismenn ríkisins eða ekki.

Sumum kann að virðast sem svo, að þessi breyting sje allviðurhlutamikil, þar sem hjer er um gamla stofnun og fornt samband að ræða. Því það er engum vafa undirorpið, að stofnunin er gömul. En þess ber þó að gæta, að trúarbrögðin eru þó miklu eldri og mönnum hefir verið lengst um frjálst, hverju þeir tryðu. Og þann veg ætti það að vera. Mönnum ætti að vera það algerlega í sjálfsvald sett, hverjar trúarskoðanir þeir vildu kosta til að halda uppi. Tengslin millum ríkis og kirkju eru ung, miðað við aldur trúarbragðanna. Þess má og geta, að ýmsir bestu menn og frömuðir kirkjunnar, bæði hjer og erlendis, og jafnvel sjálfur Lúther, vildu eindregið, að kirkjan væri borgaraleg stofnun, sem stæði utan yfirráða ríkisvaldsins. Jeg skoða það ekki sem neitt aðalatriði, þótt þetta band milli ríkis og kirkju hafi átt sjer stað nú um hríð. Jeg er alls ekki hræddur við að rifta því, eins og komið er. Það er ekki holt lengur en fólk getur sætt sig við það. En nú er svo komið, að fjöldi manna er vaxinn upp úr þessum fjötrum.

Önnur mótbáran gegn aðskilnaði ríkis og kirkju hefir verið sú, að trúarbrögðunum mundi vegna ver, ef þau yrðu frjáls. Þessari skoðun mótmæli jeg algerlega. Jeg er þar á gagnstæðri skoðun og hefi mjer þar til stuðnings eigi að eins verslega, heldur og geistlega menn. Þeir eru margir þeirrar skoðunar, að það muni vera einkar heppilegt fyrir sjálf trúarbrögðin að vera frjáls og óháð. Þeir treysta því, að áhugi manna í trúarefnum verði eðlilegri og öruggari heldur en nú á sjer stað í þjóðkirkjulöndunum. Og vjer vitum, hversu mikil deyfð ríkir nú á tímum innan hinnar evangelisku lúthersku kirkju. Jafnvel af þeim rökum einum væri nægileg ástæða til að reyna hið frjálsa fyrirkomulag, sem á við mikil söguleg rök að styðjast og blessaðist að ýmsu leyti vel, á sínum tíma.

Sumir hafa haldið, að breytingin mundi verða til þess að varpa kirkjunni út á gaddinn fjárhagslega. Jeg skal ekki leggja neinn dóm á það, hvað almenningur vill mikið á sig leggja fyrir trú sína. Það má vel vera, að sumir vildu vera lausir við öll afskifti af trúmálum. En þetta er heldur ekki neitt aðalatriði; það er að eins eðlileg afleiðing breytinganna. Þeir, sem ekki vilja hafa nein afskifti af trúmálum, eiga að sjálfsögðu að vera lausir við þann kostnað, sem þau hafa í för með sjer. Það er ekkert rjettlæti í því, að kúga menn til að kosta til trúarbragðafræðslu, sem þeir vilja ekki hafa afskifti af. Hinsvegar munu sumir segja, að trúarkend þjóðarinnar segi til sín meira og minna. Frá þeirra sjónarmiði virðist auðsætt, að trúarbrögðunum yrði haldið uppi af þeim, sem hefðu áhuga á þeim. Og jeg býst við, að reyndin yrði sú hjer á landi, að minsta kosti fyrst um sinn, að allur þorri manna vildi halda uppi kirkjunni. Þeir, sem stofnuðu sjerstaka söfnuði, myndu auðvitað kosta uppihald þeirra. Slíkt gera menn þann dag í dag. Þeir, sem menn hafa talið að skifta mjög við að standa straum af henni.

Jeg skal minnast á eitt meginatriði, sem menn hafa talið að skifti mjög miklu máli í framkvæmdum á skilnaði ríkis og kirkju. Menn hafa spurt: Hvað á að gera við þær eignir, sem kirkjan á nú, þegar skilnaðurinn fer fram? Um þetta atriði hafa verið skiftar skoðanir, hjer og annarsstaðar. Og jeg skal ekki kveða upp neinn dóm um, hvað rjettmætt kann að þykja í þessu efni. Hjer er um fleiri en einn veg að velja, frá mínu sjónarmiði. Jeg lít svo á, að hin evangeliska lútherska kirkja eigi ekki eignir þær, sem henni eru nú lagðar til nota. Jeg tel sönnu nær, að hin katólska kirkja ætti þessar eignir, ef nokkur kirkja á þær, ríkið hafi tekið þær af henni og ljent þær hinni evangelisk-lúthersku kirkju. En þó að eignafærsla þessi sje rakin þann veg hugsunarrjett, þarf ekkert órjettmæti að felast í því, segja sumir, að eignirnar gangi að einhverjum hlut til uppihalds trúarbragða í landinu alment. Þetta er hagrænt atriði, sem verður að ráða fram úr á hagrænan hátt, um leið og skilnaðurinn fer fram, þótt enginn vafi geti nú leikið á því lengur, að það er ríkið, sem er eigandinn.

Skilnaðarmálið hefir áður komið að nokkru leyti til kasta þingsins. Eins og menn muna, var 1904 skipuð kirkjumálanefnd milli þinga. Nefnd þessi gaf út álit og tillögur, sem nú að mestu er undirstaða löggjafarinnar um kirkju og klerka í landinu. Meiri hluti komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri ráðlegt að skilja ríki og kirkju og þar frekari orðum um hana, þangað til hann hefir tekið til máls.