28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í C-deild Alþingistíðinda. (3255)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Jón Jónsson:

Að eins fáein orð til að skýra afstöðu mína.

Hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) ljet í ljós undrun yfir því, að við flm. hefðum komið fram með till. nú, er annir þingsins væru svo miklar, að eins til að tefja fyrir öðrum málum með þannig löguðu máli. Þó játaði hann, að hjer væri stórmál á ferðinni. Virðist þetta ekki vel samræmilegt. Jeg get ekkert sjeð á móti því, að slíkt stórmál sem þetta komi inn á þing, svo að fram komi skoðanir manna um það.

Sjerstaklega vil jeg þó benda á, að þegar samþ. hafði verið samskonar till. á þingi 1909, var ekkert framkvæmt. Stjórnin gerði þá ekkert málinu til undirbúnings. Virðist þess vegna ekki fjarri að láta nú eitthvað verða úr því, sem þá var vanrækt, að fá að vita vilja þjóðarinnar í þessu máli. Hví skyldum við ekki mega fá að vita það, einn góðan veðurdag, skýrt og ákveðið, hvort meiri hluti þjóðarinnar er með eða móti? Við flm. höfum ekki ætlast til, að neitt verði framkvæmt, nema ákveðinn meiri hluti safnaðarmanna verði með till. Till. er því svo hógvær, sem verða má.

Af því að hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) talaði um, að hann furðaði sig á afstöðu okkar, þá get jeg látið í ljós, að mig furðar mjög á afstöðu hans. Jeg man svo langt, að þegar mál þetta var rætt á þingmálafundum í okkar kjördæmi, þegar það var á dagskrá, þá var þessi sami hv. þm. (Þorst. J.) eldheitur skilnaðarmaður. En nú hefir hann snúið við blaðinu og talar á móti málinu af mikilli sannfæringarfestu. Þetta þykir mjer mjög einkennileg afstaða hjá þingmanninum. Mjer þykir hún svo skrítin, að mjer liggur við að trúa því, sem vitrir menn hafa stungið upp á, að hann muni hafa tekið þessa afstöðu í málinu fyrir þá skuld, að vissir, ónefndir menn hjer í bænum eru málinu andvígir, og það ef til vill ekki af sem kirkjulegustum ástæðum. Það er sem sje vitanlegt, að til er klíka ein, Tímaklíkan. Ýmsir menn í þessari klíku eru nú að „spekúlera“ í því, hvaða afstaða muni hagkvæmust í ýmsum málum nú fyrir kosningarnar. Má setja afstöðu þeirra í þessu máli í samband við það, að vitanlegt er, að margir prestar eru mikilsmegandi menn í landinu, áhrifamenn í sinni sveit, og geta ráðið eigi alllítið atkvæðum manna um kosningar. Jeg skýt þessu svona fram, af því að jeg skil þá betur afstöðu hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.). Þessir menn, Tímaklíkumennirnir, vilja gera öll mál að pólitískum málum. Þeir stefna að því, að taka öll völd í landinu í sínar hendur, og nota öll meðul til að hafa það fram. En hve mikinn hag kirkjan eða þjóðfjelagið hefir af slíkum afskiftum, er annað mál.

Hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) segir í nál. sínu, að ný trúarvakning sje að fara fram í landinu, og við það hafi skilnaðarhugmyndin mist fylgi. Þetta fullyrði jeg að sje alveg órannsakað mál. Þótt þetta mál hafi legið niðri um stund og ekki komið fram á þingmálafundum, þarf það alls ekki að vera svo að skilja, að málið sje ekki eins vakandi í hugskoti manna eftir sem áður. Það gæti verið svo að skilja, að þar sem niðurstaða málsins varð þessi 1909, að ekkert varð úr og málið fjell niður, þá hafi menn hugsað sem svo: „Það þýðir ekki neitt að tala um þetta mál; það er ekki til neins nema þreyta sig.“ En komið gæti sá tími, að þjóðin tæki aftur afstöðu í þessu máli, og að þá yrði alt annað uppi á teningnum en minni hl. segir.

Mjer er ekki heldur kunnugt um þessa nýju trúarvakningu, sem hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) talaði um. Jeg þekki þess t. d. engin dæmi á Austurlandi, að breytingar hafi orðið á trúarlífinu á síðustu tímum. Jeg þekki ekki til þess, að kirkjur sjeu þar neitt betur sóttar, eða áhrif klerka hafi breyst til batnaðar. Þau munu heldur hafa farið minkandi en vaxandi. Jeg held því, að það sje dálítið rangt í þessu. Getur verið, að þetta sje dálítið mismunandi, eftir landsfjórðungum. En jeg hygg óhætt að segja, að þar, sem jeg þekki best til, er ekki um neina vakningu að ræða.

Satt að segja furðaði mig á því, að minni hl. skyldi tala eins digurt og hann gerði. Hann fullyrti svo margt, sem alls ekki er hægt að fullyrða neitt um, sjerstaklega um vilja þjóðarinnar. Hann segir, að það sje vitanlegt, að mikill hluti þjóðarinnar sje andvígur skilnaði ríkis og kirkju. Við flm. till. viljum engum getum að því leiða, hvernig þetta er, en viljum láta skjóta því til þjóðarinnar, svo að atkvæði skeri úr.

Jeg skal ekki fara inn á trúarhlið þessa máls. Það hefir hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gert í framsögu sinni, og enn fremur er það gert í nál. meiri hl. Jeg vildi að eins mótmæla þessu atriði í nál. hv. minni hl., sem ástæðulausri staðhæfingu. Og enn fremur vildi jeg benda á þetta atriði, sem jeg hygg sterka ástæðu í málinu og langsennilegustu skýringuna á afstöðu hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.). Þetta er af pólitískum hvötum, hvort sem af því leiðir það, sem ætlast er til. Það er hin mesta ógæfa okkar á þessum tímum, að einkum sá flokkur manna í landinu, sem jeg nefndi áðan, „Tíma“-flokkurinn, gengur alt of langt í þessa átt. Það, sem skiftir mestu, er, að þetta mál og önnur sjeu flutt hjer á þingi æsingalaust og án allrar hlutdrægni. En þegar svo langt er gengið, að ýms mestvarðandi mál þjóðarinnar eru gerð að pólitískum æsingamálum, þá fer að versna hjá okkur. En þetta hygg jeg að sje að byrja hjer í þessu máli.

Þetta mál er sannarlega tímabært mál. Og ekkert er fjarstæðara en að gera kirkjumál að pólitísku flokksmáli, í hagsmunaskyni fyrir kosningar.

Þarf jeg svo ekki að fjölyrða meir. Allir vita mína afstöðu til þessa máls. Og till. þessi er svo hógvær, að hún sýnist ógnarlega meinlaus. Þar eru engin misjöfn orð í garð prestastjettarinnar, enda væri það ekki rjett. Því er sem sje alls ekki að neita, að þeir eru góðir og gegnir menn, eins og fyr a tímum. En fólki líkar ekki eins vel við þá og verið hefir. Prestarnir sjálfir eru og margir sáróánægðir með kirkjuástandið. Jeg hygg, að þeir sjeu einmitt margir, prestarnir, sem vilja gjarnan, að þessi leið sje farin.

Hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) talaði um, að prestarnir í fríkirkju gætu ekki orðið leiðandi menn, þar sem þeir yrðu háðir söfnuðunum. Þetta er hinn mesti misskilningur. Þarf ekki annað en að benda á Jón heitinn Bjarnason í Ameríku. Jeg veit ekki betur en að hann hafi haft miklar virðingar, notið sín vel og haft mikil áhrif á kirkjudeildina íslensku vestan hafs, líklega meiri áhrif en nokkur biskup hjá okkur í seinni tíð. Sannar þetta hið gagnstæða.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar. — Býst jeg við, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) muni taka til máls fyrir nefndarinnar hönd.