28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (3258)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Þorleifur Jónsson:

Þetta mál, sem nú liggur fyrir þinginu, er eitt af stærstu málum, sem það hefir haft til meðferðar að þessu sinni. Það er þess vegna skýlaus skylda hv. þm. að athuga málið rækilega og hugsa afleiðingarnar út í æsar. Fyrir 20–30 árum var mikið rætt og ritað um þetta mál. Áhugamenn í trúarefnum, sem voru óánægðir með þann doða og þá deyfð, sem þá ríkti í þjóðkirkjunni, töldu aðskilnað ríkis og kirkju besta ráðið til þess að blása lífi í kirkjuna. Sjerstaklega voru það hinar áhugamiklu, íslensku kennimenn á gamla vísu, og hefir þeim ógað lífi og anda í kirkjuna með þessu móti. Þetta var um 1890–1900. En síðan hefir minna verið um málið rætt, og almennar óskir hafa ekki komið fram síðari árin í sömu átt og till. fer. Það hafa verið einstaka menn, sem alið hafa á þessu. Sumir þeirra hafa verið trúmenn á gamla vísu, og hefir þeim ógað alt það los og sú sundrug, sem þeir þóttust verða varir við í þjóðkirkjunni á síðari áratugum. Við höfum nú heyrt til eins þeirra, þar sem er hv. þm. N.- Ísf. (S. St.), og er því ekki að neita, að frá þeirra sjónarmiði er horfið frá gamalli stefnu. En þessi alda, sem hjer hefir gengið yfir í trúmálum, hefir gert vart við sig víðar en hjer, og jeg er þeirra skoðunar, að hún eigi eftir að hjaðna og verða að engu. — Þá eru aðrir, sem vilja aðskilnað af þeim ástæðum, að þeim er illa við kristni og kirkju og álíta rangt, að ríkið verji fje til slíks. Þeir vilja þó á engan hátt meina þeim, sem þetta er einhvers virði, að halda því við; þeir telja sig að eins ekki hafa neinar skyldur til að borga með hinum. Þetta er í sjálfu sjer góð og gild ástæða, og á henni er m. a. álit hv. meiri hl. bygt. Það er allítarlegt, og jeg skal játa, að það gerir till. aðgengilegri en leit út fyrir í fyrstu.

En eins og bent hefir verið á, verður að líta á annað en það, hvort málið sje hugsjónalega rjett. Það verður að athuga það, hvort það sje tímabært, hvort það nú hefði meira gott en ilt í för með sjer. Jeg held, að málið hafi lítið fylgi þjóðarinnar sem stendur. Jeg býst því við, að það verði fýluför, þótt stjórninni sje skipað að smala saman safnaðarfundum til að greiða atkv. um málið. Þessi till. verður stjórninni forsending. En þá eru nokkrir, sem ekki telja skaða að því, að undirbúningur sje gerður. En jeg verð að skoða hann sem þarfleysu. Engar raddir meðal þjóðarinnar hafa hrópað á þennan undirbúning; það mætti bíða með að fyrirskipa hann þangað til að þess yrði æskt.

Þá er að athuga, hvernig ástandið yrði eftir skilnaðinn. Þótt jeg búist engan veginn við, að hann komist á, þá verður þó að reikna með þeim möguleika. Hv. meiri hl. vill, að söfnuðurnir fái kirkjurnar og eitthvað af kirkjueignunum í heimanmund. Og meiri hl. gengur það langt, að vilja leggja þetta til lútherskra safnaða. Það verður því ekki borið honum á brýn, að hann vilji með öllu kasta kirkjunni á gaddinn. En víða hagar svo til hjer á landi, í afskektum og strjálbygðum hjeruðum, að erfitt er að halda uppi fjelagsskap, svo nokkur mynd sje á. Það er öðru máli að gegna í kaupstöðum og fjölbygðum hjeruðum; þar er hægara að halda saman og fleiri til að launa prestinn. Það má heldur ekki marka það, þó ekki hafi heyrst óánægja í Ameríku eða öðrum þjettbygðum löndum, þar sem fríkirkja er. Þar er miklu hægara að halda uppi slíkum fjelagsskap; þar er hvorki efnaskortur nje aðrar tálmanir, sem strjálbygðin hefir í för með sjer, eins og hjer á landi víða. En þó get jeg nefnt þaðan dæmi. Fyrst, meðan íslensku nýlendurnar í Vesturheimi voru í barndómi, þá var við líka erfiðleika að etja eins og hjer á landi, enda var þá prestlaust víða þar, og þeir fáu prestar, sem voru, áttu við mjög bág kjör að búa. Þetta batnaði fyrst, þegar landið fór að byggjast meira og velmegun að vaxa.

Þá er líka við því að búast, að gjöldin verði meiri hjá fríkirkjusöfnuðunum hjer á landi heldur en það, sem þarf til að launa prestinn. Jeg held, að lútherskir söfnuðir mundu ekki til lengdar gera sig ánægða með þessa trúarjátningarlausu guðfræði, sem meiri hl. ætlast til að kend verði á háskólanum. Það hlyti að fara svo, að menn sæju sjer ekki annað fært en að stofna lútherskan prestaskóla, og myndi í það drjúgum auka þau framlög, sem söfnuðurnir þyrftu að leggja á sig til kirkjulegra þarfa. Ef söfnuðurnir sæju, að það væri sjer um megn að halda prestaskóla, þá gæti það orðið til þess, að þeir yrðu að sætta sig við ver mentaða presta, eða jafnvel leikprjedikara. — Jeg býst þó við, að úr þessu mundi rætast smátt og smátt; hjer mundu rísa upp menn, sem gátu blásið lífi og anda í trúarlífið og safnaðastarfsemina. En hitt er áreiðanlegt, að byrjunarörðugleikar yrðu, og þeir ekki litlir.

Þá er talað um, að það sje ljettir fyrir ríkið að losna við alt það, sem til presta og kirkju fer, og er það rjett. Það neitar því enginn, að það yrði ljettir. En þá er hins að gæta, að þegar einstaklingar taka á sig jafnmikla aukabyrði eins og hjer verður um að ræða, að halda uppi af eigin ramleik kirkju og kristindómi, þá minkar í raun og veru gjaldþol þeirra til þjóðfjelagsþarfa, sem því nemur, svo þetta ætti að koma nokkuð í sama stað niður. Það væri líka hægt að segja, að ljettir væri fyrir ríkissjóð að losna við að borga læknum, hætta að leggja og kosta vegi o. s. frv. Þetta væri alt ljettir fyrir landssjóð, en hitt er annað mál, hvort hægt væri að kasta því á einstaklingana. (E. A.: Þarna verður að bera saman nauðsyn vega og presta; prestarnir eru líka vegurinn). Jeg sje ekki, að málið sje tímabært, hvernig sem á það er litið. Þegar raddir fara að heyrast um það með þjóðinni, að hún æski skilnaðar, þá er rjett að taka málið til yfirvegunar, en þá fyrst. Ef svo skilnaðarleiðin verður tekin, tel jeg rjett að viðhafa þá aðferð, sem hv. meiri hl. fer fram á. En áður en slíkt verður gert verður að vera vissa fyrir því, að málið hafi eitthvert fylgi. Þjóðin hefir mörg ráð til að láta í ljós óskir sínar. Henni verður engin skotaskuld úr því. Hún hefir þingmálafundina, og þó ekki sje altaf fult mark takandi á þeim, þá geta þó komið þar svo ótvíræðar óskir, að ekki sje um að villast. En slíkar óskir hafa ekki komið fram, af því að málið hefir ekkert fylgi þjóðarinnar sem stendur. Sje jeg því ekki ástæðu til að vera með tillögunni.