28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (3259)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Sveinn Ólafsson:

Jeg kann ekki við að falla frá orðinu, enda þótt flestu sje svarað í ræðu hv. frsm. meiri hl. (G. Sv.), sem jeg vildi gera athugasemdir við. Vil jeg því leyfa mjer að drepa á ýmislegt, sem mjer þykir máli skifta.

Jeg varð fyrir vonbrigðum, er jeg las nál. hv. meiri hl. Mig furðaði mjög á niðurstöðunni hjá honum, og fjekk óbeit á till. hans, er jeg sá, að hann ætlar ríkinu að sleppa hendinni af lúthersku þjóðkirkjunni, en halda svo áfram að styðja ýmiskonar aðrar kirkjudeildir og hlutast til um málefni þeirra á ýmsan veg. Gæti svo farið, að metingur yrði milli þeirra ólíku kirkjudeilda, sem ríkið ætti við að skifta og að nokkru leyti að segja fyrir verkum, því að með því að slita tengslin milli ríkis og þjóðkirkjunnar er kaþólskum, thesofiskum, spiritistiskum, unitariskum og mormónskum kirkjudeildum boðið til rúms, jafnhliða þeirri lúthersku, og hverskyns öðrum trúarflokkum.

Hv. meiri hl. virðist ekki kominn lengra en það í till. sínum um skilnað ríkis og kirkju, að hann ætlast til, að margar, en lausbeislaðar kirkjudeildir komi í stað þeirrar einnar, sem nú er lögboðin. Hann ætlar ríkinu að sjá öllum fyrir trúarjátningarlausum guðfræðingum og að veita þeim einskonar innsiglun prestsstarfa, staðfesta þá, en svo ætlar hann þessum prestum að hafa störf á hendi fyrir ríkið, svo sem skýrslugerð, og leiðir af því, að prestarnir verða að nokkru leyti starfsmenn ríkisins, en þó söfnuðunum miklu háðari, vegna launanna, en þjóðkirkjuprestarnir eru nú. Auk þessa ætlar meiri hl. söfnuðunum að erfa kirkjubyggingar og lausafje kirkna, jafnvel fjefúlgu að auki fyrir kirkjujarðir þær, sem ríkið á að taka, og þetta alt án tillit til þess, hvaða söfnuðir rísa upp á hverjum stað. Hjer virðist því mega gera ráð fyrir margvíslegum þjóðkirkjum, í stað þeirrar einu, og að Mormónar og Múhameðsdýrkendur geti erft reitur lúthersku þjóðkirkjunnar og komist undir verndarvæng ríkisins.

Að vísu mun meiri hl. ætlast til, að lútherskir söfnuðir og engir aðrir erfi þjóðkirkjuna, en málið vandast, þegar söfnuður skiftir um trúarjátningu og sleppir þeirri lúthersku, sem auðveldlega getur orðið, þegar ríkið sendir út allan guðfræðingahópinn trúarjátningarlausan. Þá komast eignirnar í hendur þeim trúarflokkum, sem ekki áttu að njóta þeirra.

Ekki verður betra ástandið þar, sem söfnuðir klofna í sundur. Sje þá annar eða einn hlutinn lútherskur, erfir hann eignina, sem áður var sameiginleg, og kemur þá fram misrjetti milli trúarflokka og þeim lútherska gert hærra undir höfði en öðrum, og hvernig sem að er farið, þá verður þessi afhending eignanna annað tveggja, til þess að viðhalda yfirskynslúthersku á söfnuðunum, eða vekja óánægju hjá þeim, sem öðrum trúmálastefnum fylgja. Yfirleitt virðist alt þetta leiða út í kirkjumálaglundroða: Trúarjátningarlausir prestar, skipaðir af ríkinu til að þjóna söfnuðum með breytilegum eða óþektum trúarbrögðum og hafandi skifti á trúarjátningum eins og fötum sínum, efir því sem við ætti, til að ná í arf gömlu þjóðkirkjunnar.

Jeg held, að þessi nýmóðins fríkirkja, svona í venslum við ríkið, yrði ljeleg eftirmynd þeirrar gömlu þjóðkirkju, og illa mundi jeg kunna því, ef jeg væri í fríkirkjusöfnuði, að ríkið væri að hlutast til um ráðning forstöðumanns eða annað, sem hann snerti.

Jeg verð að líta svo á, að ekki sje gerlegt að taka neina ákvörðun í svona vandasömu máli fyr en búið er að gerhugsa það fyrirkomulag, sem á eftir fer, en það finst mjer hv. meiri hl. ekki hafa gert.

Það á eigi við að tala um það, svo sem hjer hefir verið gert, að þjóðinni sje bannað að segja álit sitt um þetta mál, þótt till. verði eigi samþ. Hver skyldi banna henni að bera fram óskir um það? En hún hefir eigi óskað eftir þessu á síðari árum og eigi falið neinum fulltrúa sinna, svo jeg viti, að þessu sinni, að flytja neitt erindi í anda þessarar till., þótt margvísleg sjeu málefnin, sem þingmálafundaskýrslurnar koma við. Till. virðist ekki komin fram af neinni umhyggju fyrir trúarmálefnum, heldur miklu fremur bera blæ fordildar. Svona erindi á eigi að neyða að þjóðinni, eða reka á eftir henni um framkvæmd þess. Það á að koma fram af frjálsum vilja, og kemur sennilega síðar, þegar hún er undir breytinguna búin.

Að sjálfsögðu lita menn misjafnt á rjettmæti till. þessarar, en hvað sem öðru liður, tel jeg hana að óþörfu fram komna og greiði atkv. gegn henni.