16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í C-deild Alþingistíðinda. (3275)

159. mál, ríkið nemi vatnsorku í Sogni

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get svarað þessari till. að miklu leyti með sömu athugasemdum og þingsál.till. næst á undan, að jeg get ekki svarað henni nema fyrir sjálfan mig. Stjórnin getur ekki lofað neinu um framkvæmdir málsins að svo stöddu, því að þetta er pólitískt deilumál, eins og hv. frsm. (G. Sv.) tók fram, svo að það er ekki við því að búast, að stjórnin geti gert þar mikið.

En þar sem skorað var á mig að svara, þá skal jeg geta þess, að jeg legg ekki mikla áherslu á það, hvernig till. er orðuð. En jeg skil ekki, að hægt sje að skipa nokkurri stjórn þetta. En jeg legg ekki aðaláhersluna á þetta. Hitt er aðalatriðið, sem felst í skipuninni, að ná á einhvern hátt orku fyrir ekki neitt. Frsm. (G. Sv.) segir, að hjer sje ekki farið fram á annað en að fá skorið úr deilumáli, sem upp sje komið. En þó að þessi leið væri farin, þá tel jeg hana ekki rjett áframhald af álitsgerð meiri hl. milliþinganefndarinnar. Hjer er að greina milli tvenns. Annað er rjettur ríkisins til þess að setja lög um þetta efni. Um þetta atriði skal jeg ekki fara fleiri orðum. En það hefir verið gert áður, að sett hefir verið í lög: svona skal það vera. Hjer er farið fram á að skipa stjórninni að ná rjetti, sem er „theoretiskt“ fram settur. Jeg sje ekki, að hægt sje að skipa nokkrum manni að halda öðru fram við dómstólana en því, sem hann álítur vera rjett. Ef stjórnin fellst á skoðun meiri hl. fossanefndar, þá gæti hún orðið við tilmælum þingsins um að fara í mál. En ef stjórnin álítur þessa skoðun ekki vera rjetta, þá getur hún ekki framfylgt tilmælunum um málsókn. Eftir mínum skilningi tel jeg landeigendur eiga þennan notarjett. Hitt er annað mál, hvaða lög ríkið getur sett um þetta efni. Jeg skal ekki segja neitt um það, hvað getur orðið að lögum. En þær ástæður, sem meiri hl. fossanefndar hefir fram fært fyrir skoðun sinni, hafa ekki sannfært mig um, að hjer sje um rjettaróvissu að ræða. Jeg hafði altaf haft þetta álit áður en ritgerð nefndarinnar kom út, og hún hefir ekki komið mjer á aðra skoðun. Þetta er að eins „theoretiskt“ atriði.

Þetta er mitt álit, og jeg get ekki skilið annað en að jarðeigendur hafi rjett á vatninu til afnota, og að þessi rjettur hafi altaf fylgt landeigninni. Hitt er annað mál, hvort landeigendum hefir altaf verið þetta ljóst. Annars er leiðinlegt að taka þetta einstaka atriði út úr, í stað þess að setja lög í eitt skifti fyrir öll. Þingsál., sem borin er fram í þingbyrjun, var aðgengilegri. Frá nefndarinnar sjónarmiði er sjálfsagt að prófa, hvor aðilinn hefir rjett fyrir sjer. En hver sá, sem vill prófa þetta, verður að vita, hvað hann álítur sjálfur. Og þetta mátti bíða þangað til meiri hl. veit, hvað hann vill láta vera lög eða ekki.