16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í C-deild Alþingistíðinda. (3276)

159. mál, ríkið nemi vatnsorku í Sogni

Sveinn Ólafsson:

Jeg hafði ekki búist við, að till. á þgskj. 795 hefði verið borin fram sem sjerstök till., heldur hafði jeg gert ráð fyrir, að hún mundi verða skoðuð sem brtt. við þingsál. á þgskj. 121, er var borin fram af þrem þm. snemma á þingi. Till. hljóða báðar um sama efni, og hin síðari er hugsuð svo af meiri hl. nefndarinnar, að hún komi í hinnar stað. Báðar till. lúta að því, að ríkið taki vatnsorkuna í Soginu til umráða. Að því leyti eru þær samstæðar. En annars eru þær að orðalagi mjög mismunandi. Fyrri till. fer hina löglegu leið til þess að ná þessari vatnsorku. En síðari till. bendir á leið, sem mjer hefir skilist að ekki mundi vera lögleg eða fær, að taka vatnsrjettindin ránshendi og án bóta.

Eins og nál. á þgskj. 808 ber með sjer, þá lítur minni hl. svo á, að fyrri till. sje frambærileg, og leggur með henni, en móti þessari. Jafnákveðinn og hann er í að fylgja fyrri till, eins ákveðinn er hann móti þessari seinni.

Í síðari till. felst það, að stjórninni er boðið að fara ránsferð á hendur einstökum mönnum og að þeir sjeu sviftir þar kauplaust eign sinni. Þetta brýtur algerlega í bága við fyrirmæli laga frá 1907 um eignar- og umráðarjett á fossum, sem hafa gilt hjer að undanförnu. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp 12. gr. þessara laga. Þar segir svo:

„Hver maður er skyldur til, gegn fullum skaðabótum, að láta af hendi fossa sína, ár eða læki, og jarðir þær, er þar að liggja, eða rjettindi, sem hann hefir yfir þeim, þegar almenningsheill krefst þess til mannvirkja í þarfir landsins eða sveitarfjelaga.“

Hjer er aðferðin mörkuð og sýnt, hver leiðin er, til þess að ná vatnsorku undir ríkið, þegar nauðsyn krefur, og við, sem tilheyrum minni hl., þekkjum ekki aðra leið en þessa, sem gerlegt sje að fara.

Hins vegar er það víst, að meiri og minni hl. leggja áherslu á það, að ríkið fái umráðarjett yfir Soginu; um það eru engin skoðanaskifti. Og þetta sama kom greinilega fram þegar rætt var um till. á þgskj. 121. En aðferðin er mismunandi. Þessi aðferð, sem meiri hl. hefir komist að niðurstöðu um, og varð deiluatriði í milliþinganefndinni, mætti segja að væri ráð til þess að fá skorið úr því, hvor meiri hl. hafi haft rjett fyrir sjer. En þetta er ekki einfaldasta leiðin, því að eins og tekið er fram í áliti minni hl., er hjer ekki um neina rjettaróvissu að ræða, og mjer er það ánægja, að hæstv. forsætisráðherra ljet sömu skoðun í ljós. Og það er engum vafa undirorpið, þegar allar æsingar eru teknar burtu, og menn fá að njóta sín fyrir fortölum einstakra æsingamanna, að þá munu menn komast yfirleitt að sömu niðurstöðu.

Það, sem valdið hefir því, að svo margir hafa hallast að kenningu meiri hl., er, að menn hafa álitið, eða verið talin trú um, að það væri eina leiðin, sem ríkið gæti farið, til þess að geta sett skorður við því, að einstakir menn notuðu vatnsorkuna ríkinu til tjóns. En þetta má gera með öðru móti. Því að þar sem það er ljóst, að ríkið á rjett á að takmarka eignarrjettinn yfir vatninu, sem öðrum eignum einstaklings, eftir þörf sinni og vild, þá er því líka innan handar að aftra einræði einstaklings yfir vatninu. Þar eða þá beitir það sínu drottinvaldi, sem enginn efast um að það eigi.

Jeg hjó eftir því hjá hv. frsm. (G. Sv.), að hann vildi líta svo á eða gefa í skyn, að eignarrjetturinn gæti verið hjá báðum aðiljum, ríkinu og landeigendum. En jeg get ekki felt mig við þessa skoðun. Rjetturinn verður að vera hjá öðrum hvorum, en þó rjetturinn verði hjá landeigendum, fyrirgirðir það ekki, að ríkið geti hlutast til um athafnir hans.

Hv. frsm., (G. Sv.) sagði líka, að þessi deila væri eðlileg, því hjer væri hagsmuna að gæta á báða bóga. Hagsmunirnir eru auðsæir fyrir landeigandann, en þeir eru ekki eins auðsæir fyrir ríkið. Því að það mundi setja sjerleyfishafa sömu skilyrði, hvort sem það ætti vatnsorkuna eða einstakur maður.

Um 3. lið till. er það að segja, að jeg tel litla ástæðu til að gera ráð fyrir áframhaldandi rannsókn á vatnsorku í Soginu, þangað til búið er að gera ráðstafanir til, að ríkið taki það til umráða. Því að jeg sje ekki neina ástæðu til, að búið sje í hendur einstökum mönnum eða fjelögum, sem kynnu að nota vatnsorkuna, ef ríkið tæki hana ekki. Hins vegar má gera þessa rannsókn á eftir, er ríkið hefir tekið Sogið til umráða. Þetta er ekki eins mikilfenglegt og gefið hefir verið í skyn. Það er að eins liður í því verki, sem vinna þarf, þegar Sogið yrði virkjað.