16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í C-deild Alþingistíðinda. (3277)

159. mál, ríkið nemi vatnsorku í Sogni

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla, að hv. frsm. (G. Sv.) hafi tekið það fram, að nefndin vilji lagfæra orðalag till., eftir því, sem stjórninni þætti æskilegt.

Jeg vildi minnast hjer á eitt atriði, út af umtali því, sem orðið hefir í blaði einu hjer, um vatnsorku, að mjer skilst, að í till. hefði átt að standa, að engar bætur kæmu fyrir vatnið, en af því að þetta orð hefir fallið úr í prentun, verður það orsök til greinarinnar. Í skjölum fossanefndarinnar er það sannað mál, að landeigendur eiga þó botninn undir vatninu. Enginn þarf heldur að sýna lærdóm sinn á því, sem allir vita, að vatnsorka er framkvæmi af tveim gerendum, vatnsmagninu og fallhæðinni. Það er auðvitað óþarfi að taka þetta fram. En slíkt orðalag mætti laga, ef hæstv. stjórn æskir þess.

Mjer er líkt farið og frsm. í því, að mjer þykir allundarlegt, þar sem stjórnin segist ekki geta framkvæmt það, sem þingið fyrirskipar, nema því að eins, að hún sje sjálf sannfærð um, að úrskurðurinn sje annaðhvort á þessa eða hina hliðina. — Þetta gæti verið, ef hún ætti að ákveða eitthvað mikilvægt atriði sjálf, en ekki þegar að eins er um það að ræða, eins og hjer, að skjóta því undir dómstólana. Jeg skil ekki í hæstv. stjórn að láta þetta uppi hjer, því varla getur hún verið svo hrædd við dómstólana. Það er ekki nema um tvent að velja fyrir stjórnina, ef þingið skipar henni að gera eitthvað, annaðhvort að framkvæma það, sem skipað er, eða neita að fara að vilja þingsins, og leggja þá niður starf sitt. Líka þótti mjer undarlegt af hæstv. forsætisráðherra (J. M.) að halda því fram, að það væri engin rjettaróvissa í þessu máli. Að vísu er það kunnugt, að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) er mikill og skýr lögfræðingur; en þó þykir mjer fullhart, að þegar hjer er háskólakennari í lögum, einmitt um þetta efni, sem deilir við lögspeking S.-M. (Sv. Ó.), þá skuli hann ekki, eða orð hans, vera svo mikils metin, að ekki þyki ástæða til að tala um, að hjer sje um rjettaróvissu að ræða. Þar sem hann heldur fram skoðun, sem er gagnstæð lögspeki hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), þá finst mjer því undarlegra, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.), sem er sjálfur lögfræðingur, skuli leggja meira upp úr lögspeki þessa hv. þm. (Sv. Ó.) heldur en háskólakennarans.

Aftur á móti virtist hæstv. forsætisráðherra (J. M.) ekki ótilleiðanlegur til þess að ákveða þetta mál með lögum. En á hvaða hátt var ekki hægt að heyra. En fram hjá dómstólunum kemst hann ekki nema á einn hátt. Því að ef ætti að ákveða það með lögum, að ríkið ætti vatnið, þá mundu hlutaðeigandi eigendur snúa sjer til dómstólanna og vitna í stjórnarskrána um, að samkvæmt henni mætti ekki taka þetta af þeim án endurgjalds. Eini vegurinn til þess að komast fram hjá dómstólunum er að setja það í lög, að einstaklingarnir eigi vatnið, eins og Norðmenn gerðu 1887.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) neitar því, eins og hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að hjer sje um nokkra rjettaróvissu að ræða. — Það er kunnugt um þann hv. þm. (Sv. Ó.), að hann er ætíð svo sannfærður um, að hann einn hafi rjett fyrir sjer. En nú vil jeg spyrja: Ef þessi rjettur er svona ákveðið þeirra megin, að um enga óvissu sje að ræða, hvað er það þá, sem hræðir þá frá að leggja málið undir úrskurð dómstólanna? Ef þeir eru svo vissir, eins og þeir láta, þá ættu þeir að firra sig ámæli með því að láta dæma í málinu. Því að varla getur þeirra málstaður verið í neinni hættu, úr því að þeir þykjast ótvírætt hafa á rjettu að standa.

Annars var ekki nema venjulegt að heyra jafnstór orð viðhöfð hjá þessum aldurhnigna stillingarmanni, hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sem þau, að þessi till. skipaði stjórninni að fara ránsferð á hendur einstaklingum. Hv. frsm. (G. Sv.) tók að vísu fram, að fjarri sanni er, að þetta sje nokkur ránsferð. En þó tel jeg rjett að geta þess, að sá eini vatnsræningi, sem hjer er á þingi, það er hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó). Bæði háttv. sessunautur minn (E. A.) og jeg erum sannfærðir um það, að einstaklingarnir eiga ekki vatnið, en viljum þó láta dómstólana skera úr, svo að það er engin ránsferð. En aftur á móti hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem fyrir sig þykist viss um, að einstaklingarnir eigi vatnið, hann vill svo svifta þá þessum rjetti, eða gera hann þeim ónýtan með sjerleyfislögum. Hann er því þar að framkvæma vatnsrán, hv. þm. (Sv. Ó.), og er eini vatnsræninginn, sem lætur til sín heyra. Jeg skal ekki segja, hvort fleiri fylgja honum í þessum ránum. En í till. felst ekkert rán: þar er að eins farið fram á að leita úrskurðar dómsvaldanna.

Þá hjelt sami hv. þm. (Sv. Ó.) því fram, að ýmsir fjellust á skoðun meiri hl. fossanefndarinnar, af því að þeir hjeldu, að það væri eini vegurinn til að ráða við vatnasöluna. — Með þessu gerir hv. þm. (Sv. Ó.) löndum sínum þær getsakir, að þeir fari ekki eftir því, sem þeir haldi að sje rjettast, heldur eftir því, hvað þeir telji haganlegast. Hann er með öðrum orðum að bera þjóðinni það á brýn, að ef tekin sje niður gríman, þá sje hún samviskulaus í þessu máli. Jeg veit ekki, hvaðan þessum hv. þm. (Sv. Ó.) koma heimildir til slíkra getsaka á íslensku þjóðina, og væri honum sæmra að láta þær falla niður.

Enn fremur sagði hv. þm. (Sv. Ó.), að ekki gætu verið tveir eigendur að vatnsorkunni. En ef nú kæmi í ljós við rannsókn, að ríkið ætti vatnið, en einstaklingar aftur landið, sem undir er, þá væru þó tveir eigendur að vatnsorkunni. Annars er sjálfsagt óþarfi nokkuð um þetta að ræða, því hv. þm. (Sv. Ó.) er sjálfur búinn að úrskurða þetta alt. Hann einn veit alt, hvað er rjett, og þarf því í rauninni engan úrskurð þingsins eða annara í málinu.

Hv. minni hl. fossanefndarinnar hefir, eins og kunnugt er, tekið það ráð, að birta sitt viturlega nefndarálit áður en meiri hl. hafði lokið sínu og senda það víðs vegar út um land. Hvernig sem menn annars líta á þetta, býst jeg við að megi skoða það sem fyrstu kosningaárásina á þá menn, sem vilja rjett ríkisins í þessu máli. — Eins og menn hafa sjeð þar, og heyra nú á ræðu hv. þm. (Sv. Ó.), þá skortir hann ekki stóryrðin. Hann talar hátt um ránsferðir og annað því um líkt, og er með getsakir í garð þjóðarinnar. Og má mikið vera, ef kjósendur hans þekkjast þetta og sjá ekki, hvernig á þessu stendur. Því af hverju skyldi hv. þm. (Sv. Ó.) vera með þessi stóryrði, nema af einskærri röksemdafátækt. Og svo þeirri ósk, sem brennur honum í brjósti, að einstaklingarnir ættu vatnið. Skyldi nú hv. þm. (Sv. Ó.) ekki hafa gert sig sekan í því sama, sem hann var að bera öðrum á brýn áðan, að hann hafi sveigt rjettinn til, eftir því, sem hann taldi hagkvæmast.

Nú býst jeg við, að margir líti svo á þetta mál, að það sje vel þess vert, að komist verði að niðurstöðu um, hvort ríkið eigi eitthvað í þessu, eða hvort það sje eign einstaklinganna. — Munu sjálfsagt margir spyrja, einkum kjósendur, hverjir það sjeu, sem vilja að þetta sjeu einstaklingseignir, og hvers vegna þeir vilji ekki leita úrskurðar dómstólanna um málið. Enn fremur hygg jeg, að mörgum þyki fróðlegt að vita, hvort þessir menn sjeu þeir, sem eru vinir fossabrasksins hjer. Og menn svara sjer sjálfir, að þeir sjeu einmitt þeir sömu, sem halda fram einstaklingseigninni og vilja fá alt fossaaflið í hendur útlendingum. Þó vil jeg þar undanskilja hv. þm. S.-M. (Sv. Ó.), en sjálfur verður hann að skýra samræmið. Því þó að hann sje sannfærður um, að ríkið eigi ekki fossana, þá er hann mjer sammála um það, að fossasalan eða fossabraskið sje hættulegur hlutur. En kjósendur munu vafalaust svara sjer sjálfir á þá leið, er jeg nefndi áðan. — Hverjir eru þeir, sem ekki vilja trúa dómstólunum? spyrja menn. — Og svarið verður hið sama.

Er það því undarlegra, að þeir skuli ekki vilja láta dæma málið, úr því þeir eru svo hárvissir um, að vatnið sje eign einstaklinganna. Það er eigi furða, þótt menn eigi bágt með að skilja, vegna hvers þeir leggja svo kappsamlega á móti því, að dómsúrskurður fáist, þegar málið einmitt er þannig vaxið, að það eru ekki aðrir en góðir dómarar, sem færir eru um að skera úr. Fyrst þeir skorast undan þessu, jafnsaklaust sem það er, verður mönnum að svara á þá leið, að þessir menn vilji hafa þennan rjett úr höndum ríkisins í hendur einstaklingum, svo að þeir geti selt eða leigt þennan kraft, sem svo mikið er af í landinu og svo mikið undir komið, að vel ráðist með.

Enn munu menn spyrja, hvort hjer sjeu á ferð þeir sömu menn, sem alt vilja spara, þegar um það er að ræða að hjálpa gáfuðum mönnum og efnilegum og halda við listum og vísindum í landinu. Menn munu spyrja, hvort það sjeu sparnaðarmennirnir. Og þeim mun þykja kynlega við bregða, er þessir menn vilja óhugsað kasta frá ríkinu þessum dýrmætu afllindum landsins, sem aukast að dýrmæti því meir, sem fólki fjölgar í landinu. Þetta mun mönnum þykja undarlegt, að þessir menn vilja ekki eins skjóta því undir úrskurð dómstólanna, hvort ríkið skuli eiga eða eiga ekki. Munu renna á menn tvær grímur um það, hvort hjer sje sparnaðarumhugsunin ríkari, eða einhverjar aðrar hvatir.

Og þar sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) áfellist mjög freklega meiri hl. fossanefndar, og þá sjerstaklega okkur tvo, er einkum höfum ritað um málið og komist að þessari niðurstöðu, þá munu menn spyrja: Hvernig stendur á því, að það er ekki leyfilegt þessum mönnum að hafa þá skoðun, sem þeir hyggja rjettasta? Eða á það í framtíðinni að vera þannig, að ef menn vilja rannsaka eitthvert mál, þurfi þeir ekki að spyrja, hver rök rjettust liggi að og hverjar ályktanir rjettastar verði af niðurstöðum dregnar, heldur: Hvernig ætli kjósendum líki þessi niðurstaðan eða hin niðurstaðan? Og komast síðan að þeirri niðurstöðu, sem kjósendum líkar best. Er eigi hjer með fáryrðum þessum verið að ýta undir menn til að haga rannsóknum sínum svo, að þeir kaupi sjer kjaftalof, en glati rjettu máli. Hugsum oss, að þess væri krafist af þeim, sem gegna dómstörfum í landinu. Hvernig yrðu dómar þeirra, ef þeir ættu fyrst að spyrja: Hvernig er haganlegast að dæma? Hvaða dómur yrði vinsælastur? Það er enginn munur á meðferð, er rannsaka á vísindaleg viðfangsefni, og er dæma á dóm. Báðir rekja öll rök með og móti, eftir því sem gáfnafar er til, og kveða eigi upp annan dóm en þann, sem þeir eru sannfærðir um í insta hjarta að rjettur sje.

Jeg hugsa, að þegar landsmenn spyrja sjálfa sig, sem jeg hygg að þeir hafi gert, og finna, hver svör liggja beinast við, að reynist það ekki sigursælt að hrína góðan málstað niður, með því að kalla hann ránsskap. Jeg ætla, að íslensk alþýða fari ekki eftir því, heldur ekki í rjettarspursmálum, hvað sje haganlegt eða óhaganlegt, heldur hvað sje rjett og ekki rjett. Jeg ætla, að þeir, sem við vötnin búa, reyni sjálfir að komast að niðurstöðu um, hvað rjett sje, og hygg jeg, að þeir láti þá rök ráða, en ekki eiginhagsmuni. Hygg jeg þess vegna, að það sje ill þjónusta við þessa þjóð, að rægja þá menn og gera grunsamlega, er komist hafa að þessari niðurstöðu.

Jeg held, að sú stjórn, sem ætlar að halda áfram við völd í landinu, verði fyrst og fremst að sjá um, að ekkert það sje gert af þinginu, er geti raskað rjetti ríkisins eða einstaklinganna, heldur sje slíkum atriðum skotið til úrskurðar dómstólanna. Veit jeg, að það verður þakklátast, sem rjettlátast er, að gera það, sem till. þessi fer fram á, að láta dómsvaldið skera úr. Þá getur eigi lengur verið að ræða um rjettaróvissu, er sá úrskurður er fallinn. Sá dómsúrskurður verður síðan rjettargrundvöllur í landinu, sem semja mætti á vatnalöggjöfina. Þurfa menn þá eigi lengur að óttast deilu um þetta mál, á þingi eða utan þings. En vilji menn halda hinni stefnunni, láta kappgirni og eigingirni ráða, er erfitt að vita, hve fljótan endi þær deilur fá og hve heppilegan. Og sennilegast er, ef svo óheppilega fer, að þá muni þurfa mörg ár af ríkisæfi Íslands til að lagfæra það óhappaspor, er þá var stigið.