16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í C-deild Alþingistíðinda. (3283)

159. mál, ríkið nemi vatnsorku í Sogni

Bjarni Jónsson:

Þetta var ekki svo fjarskalega skýrt hjá hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), því að þótt dómurinn sje ekki fallinn, þá getur þó landið hafið virkjunina.

Annars ætla jeg að benda á eitt dæmi í hans ræðu, til þess að sýna, hversu hárskarpir dómar þessa hv. þm. (J. B.) eru. Hann benti á, að jeg væri, eða hefði ekki altaf verið, á sama máli og hv. 2. þm. Árn. (E. A.), en hann gleymdi því, í hvaða sambandi jeg nefndi þennan mann. Jeg taldi það sem sje gefið, að þar sem hann, sem er einhver færasti lögfræðingur þessa lands, áliti, að lög væru fyrir því, að landið ætti fossaflið, þá væru líkur til, að engin rjettarvissa væri fyrir skoðun hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og hans fjelaga. En það hefi jeg aldrei sagt, að aldrei væri nein óvissa í hans máli. Eftir þessu tók hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) ekki, heldur ætlaðist hann til, að dómurinn hljómaði svona: Hv. þm. Dala. (B. J.) fellst ekki altaf á það, sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) segir; því dæmist rjett vera, að þar sem hann í þessu máli er á sömu skoðun og hv. 2. þm. Árn. (E. A.), þá hlýtur hann að hafa rangt fyrir sjer.