19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í C-deild Alþingistíðinda. (3296)

156. mál, bannmálið

Benedikt Sveinsson:

Jeg tek ekki til máls til að skerast í skoðanamun þeirra hv. þm., sem talað hafa, heldur til að gera grein fyrir brtt., sem jeg hefi leyft mjer að koma fram með.

Hún er þess efnis, að atkvæðagreiðslan skuli ekki fara fram næsta vor, eins og í þingsál.till. stendur, heldur vorið 1922.

En jeg lít svo á, að það geti ekki komið til mála að nema þessi lög úr gildi nema á undan gangi atkvgr. þjóðarinnar, enda var svo til bannsins stofnað í fyrstu.

Það væri líka frumhlaup af þinginu að nema lögin úr gildi, ef svo skyldi vera meiri hl. þjóðarinnar þeim fylgjandi. Það mundi hefna sín, því við næstu kosningar til þings mundu þeir menn kosnir verða, sem kæmu því á aftur. Ef hitt væri aftur á móti sýnt, að lögin hefðu tapað fylgi, svo að nú væri ekki helmingur kjósenda þeim fylgjandi, þá væri það þýðingarlaust að hafa þau í gildi.

Meiri hl. gæti þá komið þeim mönnum þing, sem vildu afnema þau. Framkvæmdir laganna eru líka mjög háðar fylgi þeirra.

En jeg get ekki felt mig við, að atkv.gr. fari fram þegar á næsta vori. Reynslutíminn er þá enn of stuttur.

Lögin gengu í gildi 1. jan. 1912, en þar ganga frá 3 ár, sem að eins var aðflutningsbann, en ekki sölubann.

En jeg hefi altaf litið svo á, sem það hafi verið illa ráðið, því að það var hentugur tími til að kenna mönnum að fara í kring um lögin og koma áfengi inn í landið á ólöglegan hátt.

Það er þá fyrst 1. jan. 1915, sem segja má að lögin hafi til fulls komið í gildi. En þá er svo komið, að heimsstyrjöldin er komin og samgöngur allar teptar að miklu leyti; sum árin hefir jafnvel engin sigling verið til landsins nema til Reykjavíkur.

Í næstu löndum er þá líka erfitt um vín. Í Englandi tekur jafnvel fyrir alla vínsölu, og í Danmörku og Noregi er hún af mjög skornum skamti. Auk þess er það vín, sem þar fæst, afskaplega dýrt.

Alt þetta hefir orðið til þess, að minna hefir reynt á bannlögin en ella.

Enn þá er því ekki fengin full reynsla fyrir því, hvernig þau reynast, ef fullar siglingar væru á allar hafnir landsins, eins og var fyrir styrjöldina.

Nú fyrst eru þær siglingar að hefjast aftur, þótt mikið bresti á, að þær sjeu komnar í það horf, sem áður var. Það verður ekki yfir en í fyrsta lagi að ári, að þær verði jafnar því, sem var fyrir styrjöldina.

Það er því of fljótt, að atkvgr. fari fram, meðan ekki er reynsla fengin fyrir því, hvernig lögin reynast á venjulegum tímum.

Þetta er ekki heldur svo aðkallandi, því að ekki hafa margar raddir heyrst um það frá almenningi, að atkvgr. skuli fram fara.

Það er líka annað atriði, sem taka verður til greina. Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) tók rjettilega fram, að nú væri bannhreyfing komin á í öðrum löndum.

Það getur haft mikil áhrif á það, hvernig íslenska þjóðin lítur á málið. Hreyfing þessi er komin á bæði í Englandi og Danmörku, og í Noregi stendur fyrir dyrum, að greitt verði atkvæði um það, hvort bann skuli koma á.

Það er því engin reynsla fengin fyrir því, hvernig bannið reynist.

Hjer mætti gjarnan bíða 2–3 ár til þess að sjá, hvernig það reyndist þar, áður en atkvgr. er látin fara fram á ný.

Árið 1922 eru líka liðin 10 ár frá því er bannið komst á. (Atvinnumálaráðh.: Mega ekki eins vera liðin 11 ár, og láta þá atkvgr. fara fram l923, samfara kosningu til Alþingis?). Jeg sje ekki neina ástæðu til að spara svo kjósendur frá því að greiða atkv. um þetta sjerstaklega.

En mín vegna má það vera svo, ef betur þykir henta.

Menn geta nú sagt sem svo, að það sje þýðingarlítið að samþ. þessa till. nú, ef hún á ekki að koma fyr til framkvæmda. Það mætti segja, að ekki liggi þá á að koma með hana fyr en á þinginu 1921. En jeg sje ekki, að hún geti orðið til skaða, þó samþ. sje nú.

Þjóðin hefir þá betri tíma til að átta sig á málinu og hugsa það til hlítar og gefa öllu gaum, sem fram kemur, bæði með og móti.

Jeg held því, að það geti orðið til þess, að málið yrði síður lagt á hilluna og þjóðin yrði betur vakandi, ef hún veit, að atkvgr. stendur fyrir dyrum.

Jeg mun því greiða atkv. með þingsál., ef þessi brtt. mín verður samþ. Að öðrum kosti býst jeg ekki við að sjá mjer það fært.