03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Pjetur Jónsson:

Eins og skilja mátti á ræðu háttv. framsm. (M. P.), þá var minst á sendiherrann í nefndinni, og varð ekki meiri hluti með því að fella hann niður. Jeg vil gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli. Jeg býst við að greiða atkv. með brtt. á þgskj. 596, en það ber ekki að skilja það atkv. svo, að jeg sje að mæla endanlega á móti því, að við fáum sendiherra í öðrum löndum, því síður að hafa forstöðu okkar mála þar sem besta. En þegar um það er að ræða að búa til slíkt embætti, þá veltur það á mestu að hafa til þess hæfan og góðan mann, hvaða embættisnafn sem hann ber. Jeg sje ekki ástæðu til að slá þessu embætti föstu fyr en vitanlegt er, hvernig okkur verður til um hæfan mann. Okkur væri nær að líta á það, sem fyr kallar að, og reyna að skipa þau 3 ráðherrasæti, sem nú eru auð; það og enda fleira ætti að ganga á undan. Jeg vildi að eins taka þetta fram, til að hafa frjálsar hendur til að greiða atkv. með sendiherra síðar, ef til þess kemur. Jeg skal ekkert fara út í þá hærri pólitík í þessu máli eða samband þessa máls við fullveldi þjóðarinnar, en það sem mest á ríður er, að maðurinn, sem í stöðuna velst, sje duglegur og vel hæfur, og áður en vissa er á því er óþarfi að stofna embættið.