04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

33. mál, tollalög

Einar Arnórsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þgskj. 227. Jeg skal byrja mál mitt á að lýsa yfir því, að jeg tek þessa brtt. aftur. Og ástæðan til þess er í fyrsta lagi sú, að fjárhagsnefnd er hrædd um, að frv. verði limlest, ef það gengur aftur til Ed. En jeg sje ekki ástæðu til að stofna frv. í hættu fyrir brtt. mína. Í öðru lagi er ástæðan sú, að í frv. er farið fram á að leggja háan toll á ilmvötn og hármeðul. Ef þessi liður nær fram að ganga, býst jeg við að þessi efni verði ekki tekjustofu, því að nú er komið hjer fram frv. um að banna innflutning á þeim. Og í þriðja lagi er ástæða mín sú, að þessir vökvar flytjast ekki inn í svo stórum ílátum, að nemi 1 lítra. Aðalatriði málsins sýnist vera það, að bannað verður væntanlega að flytja þessa vöru inn í landið. Úr því jeg er svona frjálslyndur, geri jeg ráð fyrir, að 2. þm. S.-M. (B. St.) taki sína brtt. líka aftur. Þótt hann mælti fjálglega fyrir henni, hefir það getað verið líkræða, því að það er oft siður viturra og snjallra ræðumanna að mæla spakleg orð eftir látna vini sína. — Sveskjur eru ekki meiri nauðsynjavara en sykur, en ef ætti að telja upp alt, sem mætti tolla, yrði sú upptalning óendanleg.