14.07.1919
Efri deild: 8. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í C-deild Alþingistíðinda. (3311)

51. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Magnús Torfason:

Það virðast allar horfur á, að eignarrjetturinn eigi ekki upp á pallborðið hjá hv. þingi, og fer þetta frv. í þá átt. — Hjer er farið fram á töluverðar breytingar, sem skerða stórkostlega umráð jarðeigenda yfir jörðum sínum. Jeg verð að játa, að frv. hefir að mörgu leyti mikið til síns máls, en mjer virðast tímarnir nú ekki vera heppilegir til að gera slíkar breytingar, sem hjer er farið fram á. — Við 1. brtt. hefi jeg ekkert að athuga. Mun jafnan hafa verið ætlast til, að ekkjan hjeldi ábúðarrjettinum, þó að hún giftist aftur. En ekki miðar þetta ákvæði til að efla sjálfsábúðina í landinu. — Það er aðallega 2. gr. frv., sem mjer finst athugaverð. Þar stendur, að jarðeigandi skuli láta fylgja jörðinni „öll hús, sem nauðsynleg eru við ábúð á henni.“ Held jeg, að slíkt ákvæði sem þetta hefði þurft nokkru meiri undirbúning. Hygg jeg, að örðugt muni vera fyrir þá, sem þurfa að byggja jarðir sinar fyrir næstu fardaga, að fylgja þessu ákvæði, ef þeir eiga ekki að missa af umráðarjetti húsaskipunarinnar. — Síðustu 20–30 árin hefir ágerst, að jarðeigendur letu meta húsin til peninga, og ljetu svo jörðunum fylgja fje í stað húsa. Gátu þá leiguliðar ráðið, hvort byggja vildu og hvernig; alt eftir því, hvernig þeim þótti best henta.

Mun þetta hafa gefist vel yfirleitt, og er jeg í miklum vafa um, hvort rjett muni að breyta til, að minsta kosti nú, meðan allar húsbyggingar fara í ólestri, svo telja má, að enginn kunni að byggja í sveit, svo vel sje. Álít jeg, að fyrsta skrefið sje, að gert yrði meira að því, að styrkja bændur til að koma betra skipulagi á hús sín. — Nú eru hús í afskaplega háu verði, þó ljeleg sjeu, og finst mjer of langt farið í að íþyngja jarðeigendum, með því að láta þá kaupa dýr hús nú, er þeir yrðu svo að rífa niður að fáum árum liðnum.

Yfirleitt hygg jeg, að það sje nauðsynlegt að setja nákvæmari og skýrari reglur um húsaskipun og skipun allra mannvirkja á jörðum, en nú er, því það er svo hjer, sem annarsstaðar, að mest er undir því komið, að grundvöllurinn sje vel fundinn.

Þótt jeg nú, þrátt fyrir alt, geti verið samþykkur stefnu greinarinnar, lít jeg svo á, að hún fari of langt, og að fyrirkomulagið þurfi betri umbúnað en hjer er hafður. Í 6. gr. frv. stendur, að þegar fráfarandi fari frá, þá eigi hann að fá frá landsdrottni greitt alt það, sem jörðin hefir hækkað í verði fyrir verk eða aðgerðir leiguliða, en svo stendur síðar, að fráfarandi eigi að endurgjalda það, sem jörðin hefir spilst fyrir niðurníðslu eða óheppilegar umbótatilraunir, sem landsdrottinn hefir lagt á móti eða engan þátt átt í. Þetta er tvírætt. Jörðin getur hækkað í verði, án þess hún verði betri en hún var einhvern tíma áður, og ef sú verðhækkun verður fyrir aðgerðir leiguliðans, þá á landsdrottinn að greiða mismuninn, jafnvel þótt jörðin hafi rýrnað að gæðum. Hins vegar getur jörð lækkað í verði, jafnvel þótt hún hafi batnað fyrir aðgerðir leiguliða. Það getur farið svo, að landeigandi verði að borga fyrir verðhækkun niðurníddrar jarðar. Í þessu sambandi skal jeg benda á niðurlagákvæði 6. gr. Þar stendur, að landsdrottinn geti hækkað landsskuld jarðar með 5% af fje því, sem hann greiðir fyrir aðgerðir leiguliða. Ef það er meiningin, að landsdrottinn megi ekki taka nema 5% af mati jarðarinnar — ekki einu sinni bankavexti af kaupgjaldinu, — þá er það ákvæði, sem alls ekki fær staðist, jafnvel þó litið sje á frá sjónarmiði leiguliða. Þetta er ákvæði, sem vafalaust yrði farið í kring um á einhvern hátt, og það er sjerstaklega ranglátt, ef ætlast væri til þess, að menn ættu að hafa rjett til þess að kaupa býli; þeir, sem keyptu nú, mundu stórskaðast. Jeg skal ekki ábyrgjast, að þetta liggi í orðunum, en það getur legið í þeim og er því tvírætt.

Þá er 4. gr., sem gefur reglur um bætur fyrir skemdir af völdum náttúrunnar og eldsvoða. Að því er eldsvoða snertir, stendur sjerstaklega á. Leiguliði getur átt sök í eldsvoðanum, þótt ekki verði það sannað, því hann mundi tæplega verða talinn eiga sök á eldsvoðanum, nema hann hefði kveikt í sjálfur. Hins vegar gætu t. d. börn hans eða hjú átt sök á eldsvoðanum, og samt skellur skuldin á landsdrotni.

Mergur og kjarni þessa frv. á að vera sá, að jörðunum sje haldið við og þær bættar. Mig furðar þess vegna stórlega á ákvæðum í 5. gr. frv., eins og hún var upphaflega. Jeg fæ ekki betur sjeð en að með þeim ákvæðum sje stórlega dregið úr ræktun jarðanna, þvert á móti tilgangi frv. Það er ofar öllum efa, að það eru kúgildin sem hafa stuðlað að því, að jarðir hafa ekki algerlega fallið í órækt. Jeg þekki dæmi þess, að jarðir, sem komnar hafa verið í fyrirtaks rækt, hafa níðst niður á fám árum, af því að fátækir leiguliðar hafa tekið við, sem ekki hafa haft kraft til þess að sitja jörðina. 5. gr. frv. fer í þveröfuga átt við það, sem þarf til þess að kippa þessu í lag. Hitt er annað mál, að jeg held ekki í kúgildin í því formi, sem þau eru nú í; innstæðukúgildin eru ekki annað en jarðargögn, sem eiga að vera til góðs. Þess er líka að gæta, að eftir því, sem kúgildum fjölgar, minkar landsskuldin, að öðru jöfnu.

Affarabest myndi, að jörðinni fylgdi sá fjenaður, sem hún minst fleytti, og í þá átt gengur hreyfingin í öðrum löndum. Jeg hygg, að í stað þess að auka húsin á jörðunum myndi rjettara að auka fjenaðinn, sem þeim fylgir. — Jeg hefði getað skilið það, ef hv. flm. (S. F.) hefði komið með ákvæði um það, að viðtakandi fengi forkaupsrjett að kvikfjenaði fram yfir aðra. Það hefði verið miklu rjettara, eins og nú stendur á, og svarað betur til markmiðs frv., að auka fjenaðinn.

Jeg skal nú ekki lengja umr. um frv. að sinni, og er þó ýmislegt við byggingu frv. að athuga, sem von er, þar sem breyta á samfeldum lagabálki. Jeg skal t. d. benda á það, að við matsskot er ekkert sagt um kostnaðinn, um fram það, hvernig honum skuli skift.

Jeg fyrir mitt leyti vildi óska þess, að nefndin sæi sjer fært að láta fresta þessari umr., til þess að mönnum gæfist kostur á að athuga frv. betur.