25.07.1919
Efri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í C-deild Alþingistíðinda. (3322)

51. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hefi ekki verið viðstaddur umr. um þetta mál hjer í hv. deild, og ætla jeg því nú einungis að minnast á gang annars frv. um líkt efni, er flutt var í Nd. 1917. Þar var farið fram á að breyta þessum sömu lögum í líka átt. Var málinu vísað til landbúnaðarnefndar, og samdi hún allítarlegt álit um það. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að málið yrði ekki látið ganga lengra á þinginu, heldur skyldi því vísað til stjórnarinnar. Bar nefndin fram rökstudda dagskrá á þá leið, að stjórninni yrði falið að undirbúa málið og leita álits hjá Búnaðarfjelagi Íslands og stjórnum búnaðarsambandanna um það, hverjar breytingar sjeu nauðsynlegar á ábúðarlögunum, og hvernig þær skuli ákveðnar í einstökum atriðum, og leggja tillögumar fyrir næsta reglulegt Alþingi. Lauk málinu svo, að þessi rökstudda dagskrá var samþykt, og frv. þar með vísað frá.

Stjórnin sneri sjer þegar næsta vetur til Búnaðarfjelags Íslands og skoraði á fjelagið að taka til meðferðar þann hluta málsins, sem því var ætlaður, og leggja fram álit sitt og tillögur. Stjórn fjelagsins svaraði um hæl og vjek sjer algerlega undan því að eiga nokkuð við málið. Bar hún það fyrir sig, að hún hefði eigi þeim mönnum á að skipa, er til þess væru færir, enda leit hún svo á, að taka þyrfti alla landbúnaðarlöggjöf landsins fyrir í heild sinni mjög bráðlega.

Þar sem svona fór, að landbúnaðarfjelagið vildi ekki sinna málinu, gat stjórnin ekkert aðhafst í því. Hún hafði hvorki nægum starfskröftum á að skipa nje heldur fje, til þess að láta rannsaka málið til verul. hlítar. Frá þessu vildi jeg skýra nú, þó að það viðkomi Nd. 1917.

Þótt frv. þetta nái ekki nema til nokkurra atriða í þeim mikla lagabálki, sem ekki er ólíklegt, að nokkur bið það sje til talsverðra bóta. Vil jeg stuðla að því, að frv. gangi til hv. Nd., þar sem ekki er ólíklegt, að nokkur bið verði á því, að landbúnaðarlöggjöf landsins verði tekin fyrir í heild sinni.