25.07.1919
Efri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í C-deild Alþingistíðinda. (3324)

51. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Þetta mál var talsvert rætt við 2. umr., og að því er mjer virtist, kom það álit fram í hv. deild, að mikil nauðsyn væri á endurbótum á leiguliðalöggjöfinni, og að hjer kæmu fram þýðingarmiklar tillögur til endurbóta. Á hinn bóginn hjeldu sumir því fram, að málið væn ekki nægilega undirbúið og rjettast væri að vísa því til stjórnarinnar. En jeg álít þetta að eins tilraun til að eyðileggja málið. Það hefir verið tekið til meðferðar á þinginu hvað eftir annað, og niðurstaðan altaf orðið að láta það bíða. Þetta mun meðal annars hafa orðið ein af aðalorsökunum til þjóðjarðasölunnar, sem margir iðrast nú eftir og líklega hefði aldrei orðið í stórum stíl, hefði leiguliðalöggjöfin verið viðunandi. Og þó að rjett væri að vísa málinu enn til stjórnarinnar, þá væri þó rjettara að láta það ganga fyrst til Nd. og landbúnaðarnefndar þar, svo að hún geti athugað það og látið uppi álit sitt. Eftir hennar till. var máli þessu vísað til stjórnarinnar 1917. Aðalástæðan til þess, að nefndin tók það ráð, mun hafa verið sú, að nefndin gat þá ekki fundið neina leið, er hún sætti sig við, með eignarrjettinn á jarðarhúsum. Jeg veit ekki, hvort nefndinni hefir hugkvæmst það ráð, sem hjer er komið fram með, og væri því æskilegt, að hún fengi að athuga það. Jeg vil því mælast til þess, að málið verði afgreitt hjeðan til Nd.