29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (3327)

91. mál, ullarmat

Flm. (Hákon Kristófersson):

Jeg og hv. 1. þm. Árn. (S. S.) höfum leyft okkur að koma fram með frv. þetta. Fer það, eins og það ber með sjer, í þá átt, að bæta ullarmatslögin, sem nú gilda, en eins og kunnugt er, hefir framkvæmd þeirra þótt fara misjafnlega úr hendi. Þetta má þó ekki skilja svo, að jeg telji þá, sem unnið hafa að ullarmatinu, ekki hafa verið starfa sínum vaxna. Að ósamræmi hefir átt sjer stað mun frekar hafa komið til af því, að menn hafa litið misjöfnum augum á málið, og líka því, að þegar margir eiga að sjá um hið sama, verða að mínu áliti framkvæmdir miklu síður samræmanlegar, enda laun yfirullarmatsmanna svo lítil, að engin furða væri, þó að þeir hefðu ekki gefið sig við starfanum eins og nauðsynlegt hefði verið, ef vel átti að vera. Á þessu stigi málsins hygg jeg, að litlu þurfi við það að bæta, sem stendur í greinargerð frv. — Þó vil jeg geta þess, að við samning þessa frv. nutum við flm. (H. K. og S. S.) stuðnings góðra manna, svo sem þeirra Sigurgeirs Einarssonar og Björns bónda í Gröf. Hefir hinn síðar nefndi sýnt sjerstaklega mikinn áhuga fyrir þessu máli; hefir hann bæði skrifað um það opinberlega í blöðunum, og reynt að vekja áhuga á því á annan hátt. — Nokkur hluti greinargerðarinnar er frá honum runninn, og jeg býst við, að menn telji það ekki óveruleg atriði, sem þar eru fram færð. Mjer finst óþarfi, að fjölyrða mikið um þetta frv., og vil jeg leyfa mjer að gera þá till., að því verði vísað til landbúnaðarnefndar að umr. lokinni.