04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

33. mál, tollalög

Gísli Sveinsson:

Jeg hafði búist við, að fram kæmi till. hjer í deildinni um að fella burtu liðinn um toll á suðuspíritus.

Jeg hafði þess vegna ekki búið mig undir að koma með brtt. Enn fremur bjóst jeg við, að brtt. háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) kæmi til atkvgr.

Jeg er sammála hæstv. forsætisráðherra um, að óheppilegt sje, að tollur sje lagður á suðuspíritus. Þó að vera kunni að leiða megi rök að því, að suðuspíritus hafi verið notaður til drykkjar, þá er það ekki nægileg ástæða til, að lagður sje á hann tollur. Aðalatriði málsins er þetta, hvort suðuspíritus er ekki nauðsynleg vara, og hvort svo mikið flyst af honum til landsins, að það taki því að tolla hann. Þeir, sem nota hann, nota hann vafalaust til fullra nauðsynja. Og jeg geri alls ekki ráð fyrir, að þeir, sem drekka hann á annað borð, hætti því fyrir þá skuld, að hann hækkaði í verði. Það mætti stemma stigu fyrir því á annan hátt, að menn notuðu hann til drykkjar; t. d. má takmarka sölu á honum með seðlum.

Í sambandi við þetta vil jeg leyfa mjer að bera fram svo felda skriflega brtt. við 2. tölulið frv., að síðasta málsgrein orðist svo:

„Af ilmvötnum og hárlyfjum, sem vínandi er í, kr. 2.00.“

Það þarf að vísu afbrigði þingskapa til þess, að till. geti komið til atkvæða, en jeg get ekki sjeð, að neitt þurfi að vera því til fyrirstöðu.