18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í C-deild Alþingistíðinda. (3332)

91. mál, ullarmat

Gísli Sveinsson:

Jeg skal þegar lýsa yfir því, að jeg sje ekki annað en að svo sje komið hjer málum, að hv. flm. þessa frv. geti með engu móti fylgt meiri hl. landbúnaðarnefndar, því að jeg sje ekki, hvað eftir stendur af frv., ef brtt. hans ná fram að ganga. Þá er eins gott að láta ullarmatslögin, sem nú gilda, standa óbreytt. Enda er skemst frá að segja, að jeg er hvorugu hlyntur, hvorki frv. nje brtt. meiri hl., en vil láta ullarmatslögin gilda enn um hríð, eins og þau eru, og láta ganga úr skugga um það, hvort ekki má herða á eftirlitinu. Landsstjórnin hefir þegar sent út áminningu um, að vandað sje ullarmatið betur en verið hefir, og má vænta einhvers árangurs af því. — Að hinu leytinu er jeg hv. meiri hl. samdóma um, að ekki sje heppilegt að setja einn yfirmatsmann í landinu, í staðinn fyrir fjóra. Er því talið til gildis, að meira samræmi mundi verða í matinu, ef maðurinn er einn. Fljótt á litið kann að virðast svo, en þá er líka mikið komið undir þessum eina manni.

En ef sá maður — sem sennilega yrði valinn úr hóp yfirmatsmanna núverandi, — yrði ekki sem bestur, hvar situr maður þá með samræmið?

Meiningin ætti að vera að ganga svo frá þessu mati, að það yrði sem best. Mjer sýnast rök hv. þm. S.-Þ. (P. J.) fullframbærileg, sem sje þau, að þessir matsmenn geti kynt sjer aðferðir hvers annars, staðið í sambandi hver við annan, ferðast á milli, ef svo ber undir, og borið sig saman. Þeim ætti þá að vera vanda- og vansalaust að koma sjer saman um mat og matsaðferðir, og væri þetta vegur til samræmis. En sú leiðin er á engan hátt einhlít, að fela þetta alt einum manni.

En jeg vildi benda á, að þegar rætt er um samræmi, þá verður að líta lengra, líta dýpra og aðgæta, hvort ekki sje hægt að láta samræmið ná til fleiri vöru- eða afurðategunda Og vil jeg þá fyrst og fremst nefna kjöt. Þar er víst og ætlast til samræmis, en þó eru fimm menn, sem hafa þar yfirumsjón. (H. K.: Þar stendur öðruvísi á). Mjer virðist einmitt, að mjög sje líkt á komið. Eitt er að minsta kosti mjög skylt, og það er, að kjötið er misjafnt að gæðum í hinum einstöku hjeruðum. Þar fer eins og um ullina, að hún hefir eðlisgalla eða eðliskosti fram yfir það, sem er í öðrum hjeruðum. Þar er ekki verkun til að dreifa, heldur, eins og hv. 1. þm. Árn. (S. S.) rjettilega benti á, fer það eftir veðráttu og landslagi, og ef til vill er um sjerstakt fjárkyn að ræða. En þarna ber eins að gæta, og það er, að fullkomið rjettlæti kemst ekki á, þótt farið sje eftir fjórðungum og þeim sett ákveðin merki. Bæði kjöt og ull geta verið misjöfn að eðlisgæðum innan fjórðunga og jafnvel innan hjeraða. En vitanlega nær það ekki neinni átt, að ætla að flokka eftir sýslum, hreppum, eða ef rjettast ætti að vera, þá jafnvel eftir bæjum. Þetta ákvæði um fjórðungsmerkin nær því á engan hátt tilgangi sínum. Matinu verður heldur ekki kent um, því að bersýnilegt er, að hjer er eðli ullarinnar, sem skilur á milli.

Ef löggjöf eins og þessi er athuguð og reynt að hafa í henni samræmi, þá verður ekki sjeð, hvers vegna hjer á að gera upp á milli. Eðli löggjafarinnar um þetta efni, grundvöllurinn, sem hún byggist á, er að koma á jöfnuði og samræmi. Þá verður manni að spyrja, hvers vegna þeir, sem betur eru settir, eigi líka að njóta betri kjara á markaðinum? Með því er brotin grundvallarreglan, og þó að það sje skiljanlegt, að einstaka hjeruð, sem standa betur að vígi, vilji pota sjer út úr, þá getur þingið, sem á að líta á málið í heild, ekki tekið það til greina. Mjer skilst, að þetta kapp stafi aðallega frá Norðlendingum, og þá sjerstaklega Þingeyingum, sem þykjast vera sjerlega vel stæðir í þessu efni. En meiningin er sú með ullarmatinu, að láta eitt yfir alla ganga, hvar sem þeir búa á landinu, og þess vegna hlýt jeg að vera þessari skiftingu mótfallinn.

Hvort sem matsmennirnir verða fleiri eða færri, þá geta menn líklega orðið sammála um það, að starfið sje mikilsvert. Það nær því ekki neinni átt að ætla að borga þeim með 400 kr. Þótt umdæmi þeirra sje ekki nema fjórðungur, þá geta þeir ekki eytt tíma sínum, og það einna dýrmætasta tíma ársins, fyrir einar 400 kr., því auk þess þurfa þeir undirbúning undir starf sitt, og það verður að launa þeim betur, ef ætlast er til, að þeir ræki starf sitt nokkuð í áttina til þess, sem vera ætti, — Hvað eru 400 kr.? Það eru 100 kr. rúmar fyrir stríðið. Það þýðir ekki lengur að tala um það sem sömu upphæð; gildið er alt annað.

Að lokum vildi jeg beina þeirri spurningu til meiri hl., hvort ætlast sje til, að yfirmatsmennirnir eigi að ferðast um árlega. Í brtt. á þgskj. 379 er þessu látið ósvarað, og gætu þeir þá meira að segja látið sjer nægja að fara 3. hvert ár. Bótin verður þá ekki mikil. Jeg vil, að svo sje frá þessu gengið, að yfirmatsmennirnir sjeu skyldaðir til þess að ferðast árlega um alt umdæmið, á hvern einasta stað, þaðan sem ull er flutt út. Þetta verður að vera tekið fram ótvírætt, svo að undan því verði ekki komist. Í samræmi við þetta verður vitanlega að launa þeim rækilega.

Þá vildi jeg spyrja meiri hl. að öðru, og það er, hvað gera eigi við þá staði, sem liggja á milli umdæma, eða milli hinna tilteknu endistöðva. Það virðist svo, sem þessir staðir sjeu settir út fyrir lögin, sjeu strykaðir út úr þjóðfjelaginu að þessu leyti. Lögin ákveða, að eitt umdæmið sje t. d. milli Víkur og Borgarness, og annað milli Hornafjarðar og Norðurlands. En hvar telst svæðið milli Víkur og Hornafjarðar? Þarna er þegar svæði, sem er matsmannslaust. Nú hafa risið þarna upp tveir staðir, sem flytja út ull, og hefir lent í bauki og basli, stappi og stímabraki að fá yfirullarmatsmennina til að skifta sjer af því. Þessu vil jeg skjóta fram til íhugunar. Það getur verið spursmál, hvort ekki sje rjettara að hafa takmörkin nákvæmari, miða þau heldur t. d. við landshluta en kaupstaði. Kauptún og ullartökustaðir risa upp og breytast, og því ótrygt að miða við þá.

Yfirleitt er jeg mótfallinn öllum breytingum á þessum lögum, en tel enn ekki fullreynt, að ekki megi takast að koma á samræmi, ef stjórnarvöldin reyna eitthvað til þess. Jeg tel þau lög, sem nú gilda, fullnægjandi, ef eftirlit er haft með, að þeim sje fylgt, en vanti eftirlitið og vanti framkvæmdina, þá skiftir líka minstu, hvernig lögin líta út á pappírnum.