18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í C-deild Alþingistíðinda. (3336)

91. mál, ullarmat

Hákon Kristófersson:

Það er nú komið á daginn, að þetta frv. okkar hefir ekki fundið náð fyrir augum hv. meiri hl. landbúnaðarnefndar, eins og líka brtt. á þgskj. 379 ber með sjer. Áður en við gengum frá þessu frv. fyrir fult og alt bárum við okkur saman við þá menn, er við töldum hafa mesta þekkingu til að bera í þessu máli, og á jeg þar einkum við Sigurgeir Einarsson. Hann er manna kunnugastur verkun og meðferði allri á ull, eins og hv. þm. Borgf. (P. O.) tók fram. Og jeg hygg, að hann standi ekki að baki hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.). Þó skal jeg geta þess um þann seinni, að hann hefir haft mikil afskifti af þessu máli, og ber því gott skyn á það.

Við flm. höfðum því búist við, að þetta frv., eins og það lá fyrir, mundi fá betri undirtektir hjá nefndinni en nú er raun á orðin. Það sem virðist vekja mesta mótspyrnu er breytingin á yfirmatsmönnunum. Við gerðum ráð fyrir í frv., að hann væri að eins einn, og var það álit þeirra manna, er við bárum okkur saman við, að það mundi heppilegast.

Hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar (St. St.) talaði móti þessu og færði ýms rök fyrir þeirri skoðun, sem nefndin heldur fram. Jeg skal nú ekki fara að vefengja það, sem hann sagði. En ómögulega get jeg sannfærst af andmælum hans, því mjer virtist þau lík því, er menn halda fram þegar þeir verja ekki satt mál. Hann færði þau rök móti þessu meðal annars, að ekki væri hægt að ætlast til, að þessi eini maður gæti verið á öllum stöðum sama árið. Það var heldur ekki ákveðið af okkur, eða í það minsta ekki slegið föstu, en við gengum þó út frá, að svo mætti verða. En Sigurgeir Einarsson ljet það álit sitt í ljós, að með bættum samgöngum mundi hann vafalaust geta komið nægilega oft á matsstaðina, eins og líka var skoðun hv. þm. Borgf. (P. O.). Enda sje jeg ekki, að brýn nauðsyn sje á, að hann komi á hvern stað árlega. Hann getur haft með sjer sýnishorn af ull, þegar hann kemur þangað, og sýnt ullarmatsmönnunum, og auk þess sagt þeim fyrir um alla meðferð á ullinni. Ef það eru samviskusamir menn og áreiðanlegir, eins og gera má ráð fyrir að þessir sjeu, geri jeg ráð fyrir, að þeir hagi sjer þar eftir. Enn fremur sagði háttv. frsm. (St. St.), að engin sönnun væri fengin fyrir því, að þessi eini maður rækti starf sitt betur en þeir fjórir, sem verið hafa. Það hefir ekki verið minst neitt á það af okkur flm. En jeg býst satt að segja við, að það sje æði misjafnt. Að öllu samanlögðu verð jeg að telja meiri líkur fyrir því, að maður, sem gefur sig við þessu sem aðalstarfi og fæst við það alt sumarið, hann hafi betri skilyrði til að gegna því á sómasamlegan hátt en hinir, sem hljóta að hafa það að eins í hjáverkum. Þó frsm (St. St.) kunni að hafa nefnt einn góðan mann, þá sannar það út af fyrir sig ekkert um hina. Það getur verið undantekning. Því er þó engan veginn slegið föstu af mjer, að allir þeir menn, er starfið hafa haft á hendi, hafi eftir atvikum ekki rækt það sómasamlega, sjerstaklega er þess er gætt, hve starfið er illa launað. Enn fremur mintist hv. frsm. (St. St.) á, og vildi mæla þeirri skoðun nefndarinnar bót, að ullina bæri að flokka eftir fjórðungum. Og í sama strenginn tóku þeir hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og hv. þm. S.-Þ. (P. J.). Jeg skal játa, að jeg legg talsvert upp úr áliti beggja hv. þm. Þó mun nú svo vera um hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), að hann mun aðallega hafa sjeð lakari tegundir af ull á Vestfjörðum. En einmitt þetta, að ullin er misjöfn hjer innanlands, sannar það best, að þörf er á einum yfirmatsmanni, til að koma samræmi á um alt land. Jeg skal leyfa mjer að benda á, að jeg efast um, að þessi svo kallaða norðlenska ull sje nokkru betri heldur en til dæmis úr Strandasýslu og austurhluta Barðastrandarsýslu. Ef nú þessi tilhögun kemst á, sem nefndin vill, þá fellur ull úr Strandasýslu og Barðastrandarsýslu undir vestfirsku ullina, sem vitanlega mun lítið eða ekki vera lakari en norðlensk ull, þótt hún hafi fengið meira álit á sig, bæði hefir á sjer lakara orð, og er enda ekki eins góð í sumum hjeruðum. Þess er heldur ekki að vænta, þar sem fje lifir þar að miklu leyti á útigangi. Þar af leiðir, að ullin verður þynnri og óálitlegri, auk þess sem miður er vandað til hennar á sumum stöðum, ef til vill, en þar, sem vöndun og önnur skilyrði eru í besta lagi. Þetta yrði því skaði fyrir þessa ull úr þessum tveim sýslum, er jeg nefndi, og sennilega viðar, t. d. hjer sunnanlands. — Jeg býst við, að ef einn væri yfirullarmatsmaður, þó ætti hann hægt með, sökum kunnugleika síns á staðháttum víða um landið, að segja fyrir um, hvernig ullarverkun væri komið í best horf, og að koma á sem bestu samræmi. Þetta væri mikið verra viðureignar, ef þeir væru fjórir, eins og hver getur sjeð. T. d. mundi ullarmatsmaður í Sunnlendingafjórðungi sennilega telja bestu ullina þar nr. 1, þrátt fyrir að hún væri ef til vill ekki betri en nr. 2 annarsstaðar. Aftur á móti gæti sá maður, sem alstaðar þekti til staðhátta, sagt fyrir um, hvað bæri að varast og hvers bæri að gæta, til að koma sem bestu samræmi á milli landsfjórðunganna.

Hv. frsm. (St. St.) gat um það í ræðu sinni, að þetta frv. mundi sennilega fram komið af því, að við flutningsm. værum óánægðir með ullarmatsmennina. Jeg gæti með jafnmiklum rjetti sagt, að hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) væri á móti frv. af því, að hann teldi, að einhver skjólstæðingur hans misti einhvers í ef það yrði að lögum. (E. A: Það segja sumir, að svo sje). Um það vil jeg ekkert fullyrða. Jeg vil, að gefnu tilefni, lýsa því yfir, að mjer hefir aldrei komið til hugar, að þetta væri endilega ætlað sjerstökum manni. Jeg skal viðurkenna, að við höfðum augastað á ágætum og færum manni í alla staði, þar sem er Sigurgeir Einarsson ullarmatsmaður. En er jeg spurði hann, hvort hann mundi fást til að taka að sjer slíka stöðu, aftók hann það með öllu og sagði það ekki koma til mála. (E. A.: Fyrir 400 kr.). Jafnskýr maður og hv. 2. þm. Arn. (E. A.) er ætti að vera það kunnugur bæði sjálfum sjer og mjer, að hann vissi, að við erum ekki vanir að skera við neglur okkar. Við erum örlátari en svo, að við ljetum kauphæðina bera á milli. Hvað snertir það atriði, að ein ástæðan á móti frv. sje sú, að ekki sje völ á hæfum manni í svo vandasama stöðu, þá skal jeg játa, að hjer er nokkur vandi á. Það þyrfti að vera maður, sem hefði kynt sjer ullarmarkað bæði erlendis og hjer heima. En á hinn bóginn finst mjer það vera hreinasta þrotalýsing á þjóð okkar, ef við höfum ekki á að skipa mönnum í þessa sem aðrar trúnaðarstöður. — Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), sem talaði kröftuglega og allítarlega um málið, taldi það vera hvatvíslega fram borið. Þessi dómur þm. (G. Sv.) er, eins og fleiri úr þeirri átt, alger sleggjudómur. Jeg skal kannast við, að undirbúningi málsins kunni að hafa verið ábótavant í einhverju, en þó átti jeg aldrei von á, að önnur eins brtt. eins og sú á þgskj. 379 mundi koma fram við frv. Jeg lít á hana sömu augum og hv. meðflutningsm. minn. (E. A.: Ekki sömu augum). Eftir því, sem það er venjulega skilið, þá hygg jeg það enga málvillu, þó að jeg viðhefði þetta orð. — Annars finn jeg ástæðu til að segja það, að hv. 2. þm. Árn. (E. A.) væri sæmra að sitja í sæti sínu og gera þaðan þær athugasemdir, er honum þætti við eiga, heldur en ganga um gólf í deildinni, kastandi fram útúrsnúningum og hártogunum á orðum mínum og annara. Jeg vona, að hæstv. forseti sje ekki að hingja, þótt jeg segði þessi maklegu orð.

Að ullarmatsmennirnir ferðist hver til annars og beri ráð sín saman, væri að vísu gott, en jeg hefi litla von um, að þeir gerðu það. Skyldu þeir ekki miklu heldur hokra hver í sínu horni og fara að sínum eigin ráðum.

Það er heldur ekki hægt að ætlast til þess, að þeir geri nema það minsta, sem þeir álíta sig geta komist af með, fyrir þau laun, er þeir nú hafa.

Ef hv. deild vill ekki samþykkja frv. óbreytt, eða lítið breytt, þá verð jeg að hallast að þeirri skoðun, sem fram hefir komið hjá sumum hv. þm., að best sje að fella alt saman, bæði frv. og brtt.

Jeg hefði þó ekkert á móti því, að 4. gr. frv. væri breytt dálítið, þannig, að skýrt kæmi fram meining hennar, sem er sú, að enginn ullarsölustaður megi undan falla, þannig, að ullarmatsmaður hafi ekki komið þar einhvern tíma á 3 árum. En þar með er ekki sagt, að hann megi ekki koma þar oftar. Miklu fremur er sjálfsagt að gera ráð fyrir, að svo eigi að vera.

Flokkunina eftir fjórðungum álit jeg verða mundu til ills eins, og lýsir hún smásálarskap þeirra, sem að henni standa. Hvers vegna var ekki samskonar till. flutt þegar sett voru lögin um mat á saltfiski? Hvers vegna var vestfirskur saltfiskur ekki látinn ganga undir sjerstöku merki? Þess eru þó dæmi, að annar fiskur hefir verið sendur út undir því yfirskyni, að hann væri vestfirskur. Þess munu líka dæmi, að vestfirsk ull sje send til Akureyrar og seld þar sem norðlensk ull. Hvorttveggja getur vel komið fyrir, meðan varan er mismunandi að gæðum.

En það er vaxandi áhugi fyrir vöndun vörunnar, sem á að koma því til leiðar, að þessi mismunur hverfi, og jeg efast ekki um, að svo muni fara áður en langt um liður. En þótt einhver njóti góðs af öðrum fjórðungi landsins, það tel jeg frekar gott en hitt, og jeg get ekki sjeð, að löggjafarvaldið hafi neina ástæðu til að stemma stigu fyrir því.