18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í C-deild Alþingistíðinda. (3341)

91. mál, ullarmat

Pjetur Jónsson:

Jeg hallast heldur að því, að rjett minn vera hjá hv. meiri hl. landbúnaðarnefndar að hafa yfirmatsmennina fjóra, eins og nú er, en ekki einn. Það kom líka til tals, þegar um kjötmatið var að ræða, að hafa einn — ef maður mætti segja — háyfirkjötmatsmann, en það þótti ókleift. Bæði er tíminn, sem slátrun og kjötútflutningur aðallega stendur yfir, svo stuttur, að þessi maður gæti engan veginn komist yfir að hafa eftirlit með undirmönnum sínum, og svo eru staðirnir svo margir, er hann þyrfti að heimsækja á sama tíma, að hann þyrfti að vera gæddur þeirri yfirnáttúrlegu gáfu, að vera alstaðar nálægur, ef hans ætti verulega að gæta. En til þess að koma samræmi á í kjötmatinu var svo óákveðið, að stjórnarráðið gæti kallað matsmennina saman á fund, til þess að ræða málið sín á milli og bera sig sem best saman. Ef nú ætti að vera einn „háyfirullarmatsmaður“, gildir sama um hann og hinn, að starfið verður honum ofvaxið; en ef menn vildu koma á samræmi um ullarmat, mætti mæla svo fyrir í lögum, að stjórnin gæti kvatt ullarmatsmennina á fund, á sama hátt og áður er sagt um kjötmatsmenn. — Menn tala hjer mikið um mismuninn á gæðum ullarinnar í mismunandi bygðarlögum, en jeg held, að sá mismunur liggi engu síður í eðlisgæðum ullarinnar en í verkun hennar, þvotti, þurkun o. s. frv. Jeg vona fastlega, að verkunin eigi fyrir sjer að batna um land alt. En hinn mismunurinn breytist síður.

Sje nú sjermerki á ullinni eftir landshlutum, gætu þau bent á, hvar hina eðlisbetri ull er að finna. Jeg get talað hlutdrægnislaust um þetta mál, því þessi merki yrðu hvorki til gagns nje ógagns fyrir Suður-Þingeyjarsýslu, því að ullin þaðan hefir þegar besta orð á sjer á markaðinum af íslenskri ull. Það er eftirtektarvert um eðlisgæði ullarinnar, að hún er bæði fínni og þelmeiri á Hjeraði og Norðurlandi austanverðu heldur en annarsstaðar á landinu. Þessi breyting ullarfarsins mun hafa komið í Þingeyjarsýslu með hinu svo kallaða Jökuldalskyni, sem þar breiddist út á árunum 1840–1860. Fór þar saman breyting til hins betra bæði á ull og kjötþrifum eða holdafari. Jeg hefi ekki enn hugsað mjer, hvernig best væri að skifta landinu undir þessi merki, en það þyrfti að athuga nákvæmlega.