22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í C-deild Alþingistíðinda. (3349)

91. mál, ullarmat

3349Einar Jónsson:

Mjer dettur að vísu ekki í hug að efast um, að það hafi verið af góðum toga spunnið hjá hv. flm. frv., að koma fram með þessar breytingar á ullarmatslögunum. En jeg hefði þó heldur óskað, úr því sem komið er, að hv. flm. hefðu aldrei farið út í þá fordild, að gera þessar breytingar á lögunum. Því að nú er svo komið, að lög þessi eru orðin, með áorðnum breytingum, að svo götóttri flík, að alls eigi má við hlíta.

Þegar lög þessi voru samin, árið 1915, gerði ekki hvað síst hv. þm. S.-Þ. (P. J.) sjer far um að vanda til laganna eftir bestu föngum. Og jeg veit ekki betur en að þau hafi komið að góðu gagni, hvað ullarvöndun og samræmi í verði ullar snertir, og efast stórlega um, að þau muni gera eins mikið, hvað þá meira gagn, eftir þessa breytingu. Að vísu er það svo, að þeir, sem gert hafa sjer far um, að vanda ullina sem allra minst, una illi við aðhald það, er lögin hafa í för með sjer. En við því mátti altaf búast.

Ef nú er hugsað um að gera breytingar á lögunum, eru það 2 breytingarnar, sem jeg gæti fallist á og talið til bóta. Er þá fyrst og fremst sú breyting, að yfirullarmatsmaðurinn verði einn, í stað fjögra áður. Með því mundi meira samræmi fást í matið. Það efast jeg ekki um, því að jeg hygg, að nú myndi hægra að koma þessu fyrirkomulagi við en í fyrstu hefði verið, er lögin voru samin og sett. Fyrir þá reynslu, sem menn hafa nú fengið af lögunum, væri nú miklu hægra fyrir einn að komast yfir yfirmatsstarfið. Liggur það í því, að í kaupstöðum, þar sem ullin hefir verið og er flutt út, eru nú þegar æfðir menn, vanir matsstörfum. En þessi breyting er mjer þó alls ekkert kappsmál. Jeg vil sem sagt gjarnan halda því ástandi, sem er.

Í öðru lagi virðist mjer það eiga betur við, að haustullin sje einnig metin. En í sjálfu sjer er þetta þó ekki svo stórt atriði, frá mjer að sjá, að fyrir það sje tilvinnandi að sætta sig við aðrar og stærri breytingar á lögunum, sem, eins og jeg hefi tekið fram, hafa reynst til bóta í öllum aðalatriðum.

En þá kem jeg að því, sem hjer er verið að burðast með til breytinga á lögunum. En það eru fjórðungamerkin, sem fyrirhuguð eru samkvæmt breytingum nefndarinnar. Mjer eru þau ekki þyrnir í augum af öðru en því, að með þeim kemst sá glundroði á lögin, að þau verða ekki til neins gagns. Virðist þá ver farið en heima setið. Sama reglan ætti þá að gilda um kjötmat og fiskimat og alt mögulegt mat. Mjer sárnar þetta ákvæði alls ekki Sunnlendinga vegna. Og síst af öllu gæti mjer sárnað það, ef við það kæmist betra samræmi í matið en áður. En það er ómögulegt að hugsa sjer slíkt samræmi, þar sem matsmennirnir, hver í sínu lagi, merkja ullina eftir geðþótta sínum, án þess að kynnast matsreglum hvers annars til hlítar.

Eitt atriði kom fram í umr. um daginn, sem sýndi, að fjórðungsmerkin kæmu ekki að gagni vegna þess, að t. d. Sunnlendingar mundu flytja sína ull norður á Akureyri. (P. O.: Borðeyri.). Akureyri var nú sagt, til þess að koma henni undir merki þar. Jeg sje því ekki, að breytingin bæti nokkuð úr því, sem nú er. Þegar búið væri að lögleiða fjórðungsmerki, mundi ekki verða látið þar við lenda. Þá kynni að vakna áhugi í því, að koma á merkjum fyrir hverja sýslu og seinast jafnvel fyrir einstaka hreppa. T. d. er í Árnessýslu afskaplega mikill munur á ullargæðum í Þingvallahr. og Laugardalshr. móti Skeiða og Flóa.

Jeg sje, sem sagt, ekki ástæðu til að orðlengja um þetta, en gerði mig vel ánægðan með, að lögunum um ullarmat frá 1915 yrði ekkert breytt. Gagnið af þeim lögum er ljóst, og gaf hv. þm. S.-Þ. (P. J.) þá í ræðu einkar glögga hugmynd um þörf laganna, ef menn vildu kynna sjer hana nú.

Að lokum vildi jeg skjóta því til hæstv. forseta, að ef allir hv. þm. væru ekki viðstaddir í deildinni að lokinni umr. þá væri atkvgr. frestað, þangað til allir væru komnir.