22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í C-deild Alþingistíðinda. (3356)

91. mál, ullarmat

Matthías Ólafsson:

Það stendur líkt á fyrir mjer og hv. þm. S.-Þ. (P. J.); jeg get ekki setið þegjandi undir mörgu, sem hjer hefir verið borið fram. Menn hafa efast um, að gæði norðlensku ullarinnar væru annað en sögusögn ein og beðið þess, að bent væri á, í hverju þau gæði væru fólgin. Ekkert er hægara. Norðlenska ullin er talin þelmeiri og finni, og hægara að vinna úr henni betri voðir og dúka en annari ull. Þetta er viðurkent á erlendum markaði, og var áður gefið hærra fyrir norðlenska ull. Jeg hefi áður tekið það fram, að jeg veit ekki um takmörkin, og þau verða sjerfræðingar að ákveða. Þá hefir verið sagt, að erlendir kaupmenn gætu haldið áfram að gefa meira verð fyrir norðlensku ullina, ef hún væri betri. En þetta er ekki rjett. Kaupmaður í Reykjavík kaupir ull hvaðanæfa af landinu, og kaupendum er ómögulegt að vita, hvað er norðlensk ull og hvað ekki, þegar engin merki benda á það. Ef þeir fengju norðlenska ull sem norðlenska, þá væru þeir í engu blektir, og þá gætu þeir sjeð, að ull væri að skána annarsstaðar frá, með því að bera hana saman við þá norðlensku. En vitanlega yrði það ekki verkunin, sem ylli því; hún batnaði líklega hlutfallslega jafnt á öllu landinu; heldur yrðu það sjálf ullargæðin, því það eru þau, sem eru misjöfn, og þau, sem hljóta að ráða verðinu að miklum mun.