22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í C-deild Alþingistíðinda. (3358)

91. mál, ullarmat

Frsm. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Jeg tók eftir því, að hv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að matsmenn mundu hika við að setja ljelega ull í 2. flokk. Þar, sem jeg þekki til, þá hika þeir ekki; þeir fara eftir því, sem þeir álita rjettast. Jeg sje ekki betur en að þetta sje aðdróttun að matsmönnunum; jeg sje ekki betur en að þeim sje borið það á brýn með þessu, að þeir sjeu ekki starfa sínum vaxnir. Jeg vil mótmæla því um þá ullarmatsmenn, sem jeg þekki.

Það er búið að margtaka það fram, að það er ekki góð ull víða á Norðurlandi. Það er ekki heldur þess vegna, að þessi till. er fram komin. Hlutverk hennar er að eins að skapa samkepni milli matsmannanna. Mjer finst það liggja hjer í loftinu, að við sjeum að gera aðra að olnbogabörnum með fjórðungaflokkuninni. Það er misskilningur. — Við sáum að eins, að þetta var heppilegast; þetta var besta ráðið til að vekja samkepni, en hún hlýtur að miða að vöruvöndun.

Það er búið að sýna fram á það, að hægt er að fá fult samræmi með fjórum mönnum. Það hefir líka verið sýnt fram á, að einn maður getur ekki komið því samræmi á. Hann getur ekki haft það eftirlit, sem æskilegt er, enda var í upphafi ekki til þess ætlast, að hann ferðaðist yfir alt landið árlega, og er þá hætt við, að samræmið skjótist aftur í skakka liðinn.

Þá hefir flm. verið borin á brýn fordild. Jeg álít, að slíkt sje með öllu ástæðulaus getsök, að bregða þeim um nokkuð í þá átt, og verð að mótmæla öllu slíku. Hitt er víst, eins og jeg hefi áður bent á, að sumar breytingar þeirra á lögunum eru til bóta, þótt meiri hl. nefndarinnar geti ekki fallist á þá aðalbreytingu, að einn yfirmatsmaður sje skipaður í stað fjögra. — Fjórðungsmatið er meiri trygging og vekur samkepni, og samræmi getur fengist með því, að matsmenn beri sig saman eða láti ullarsýnishorn ganga á milli sín til glöggvunar á flokkuninni. Það er að eins vöruvöndun, sem við viljum og verðum að hafa tryggingu fyrir.