23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í C-deild Alþingistíðinda. (3368)

110. mál, sala á spildu kirkjujarðarinnar Fjósa í Laxárdalshreppi

Pjetur Jónsson:

Jeg vildi vekja athygli hv. deildarmanna á því, að ef þessari málaleitun verður sint, þá má búast við, að samskonar beiðnum rigni yfir þingið. Það eru margir, sem hafa líka bletti á leigu til 50 ára, og þegar liðin eru 10–20 ár, og þeir hafa gert eitthvað til að bæta þá, kunna þeir illa við að sleppa þeim, og munu sækja um kaup. Hv. flm. (B. J.) taldi þetta smámál, og það er það, ef litið er einungis á þennan eina blett. En ef menn taka tillit til halarófunnar, sem í vændum er, þá verður málið stórmál. Það veltur nokkuð á því, hvernig þessu máli verður tekið, hvernig þingið síðar snýst í öðrum samskonar málum. Þeir, sem yfirleitt eru á móti sölu þjóðjarða, geta þess vegna ekki verið með þessu frv. Það getur verið ástæða til að athuga, hvort eigi megi breyta leiguskilyrðunum leigjanda í vil, af því sjerstaklega stendur á, en hitt finst mjer ekki koma til mála, að selja. Jeg vildi að eins gera þessa bendingu.