23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í C-deild Alþingistíðinda. (3370)

110. mál, sala á spildu kirkjujarðarinnar Fjósa í Laxárdalshreppi

Pjetur Jónsson:

Jeg er á sama máli og hv. flm. (B. J.) um það, að heppilegt sje, að þessi blettur sje ræktaður og að læknir og sjúkraskýli njóti góðs af. En lengra eigum við ekki samleið, því jeg fæ ekki betur sjeð en frv. gangi í þveröfuga átt við þessa tilætlun. Jeg get ekki búist við, að Árni læknir Árnason verði þarna lengur en þau 40–50 ár, sem samningurinn stendur. Ef bletturinn verður seldur Árna lækni og hann flytur svo burtu eftir fá ár, þá á sá nýi læknir undir högg að sækja, og óvíst, að hann geti fengið blettinn til afnota fyrir sig, eða sjúkraskýli, með aðgengilegum kjörum. Ef hann er í höndum þess opinbera, er altaf hægt að nota hann í þessum tilgangi, sem við, jeg og hv. flm. (B. J.), erum sammála um, að æskilegastur sje. Jeg hygg því, að best sje að hafa leigusamning áfram, og breyta honum til batnaðar, ef læknirinn treystist ekki að rækta blettinn með þeim skilyrðum, sem þar eru sett. Best væri, ef þarna er læknissetur til frambúðar, að það yrði trygt, að bletturinn fylgdi altaf læknissetrinu, og vil jeg leggja til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar á þessum grundvelli.