22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í C-deild Alþingistíðinda. (3378)

59. mál, bann gegn refaeldi

Pjetur Þórðarson:

Jeg hafði ekki hugsað mjer að taka til máls við þessa umr. málsins, fyr en hv. þm. Stranda.

(M. P.) hafði hlutast til um málið á þann veg, er ver gegndi.

Jeg býst ekki við, að mikið beri á milli um það aðalatriði málsins, hvílík plága refir hafa verið á sauðfjenaði landsins frá ómunatíð, og hve miklu fje og vinnu hefir verið varið til að eyða ófögnuði þessum.

En mig furðar á því, ef nú kemur eitthvað upp úr kafinu, sem ónýtt geti þá gömlu reglu, að gera skuli alt til þess að eyða og útrýma dýrum þessum.

Sami hv. þm. (M. P.) sagði, að yrðlingauppeldið væri vegur til þess að eyða refunum. En þetta hefir farið á alt annan veg þar sem jeg þekki til.

Þess vegna hefi jeg gerst meðflutnm. að máli þessu, fyrir óskir margra manna í mínu hjeraði og nálægum sýslum þar. Hafa þær óskir komið fram bæði heimulega og opinberlega, á sýslufundum og öðrum fundum í hjeruðunum. Meðal annars hafa þær óskir komið fram, að bannað verði með öllu slíkt uppeldi yrðlinga, með því að halda þeim innan einhverra takmarka, þar sem þeir gætu aukið kyn sitt.

Slíkar óskir hafa komið fram í Mýrasýslu, Snæfellsnessýslu, Dalasýslu og ef til vill víðar.

Það, sem liggur til grundvallar óskum þessum, er það, að, eins og kunnugt er, hefir oft svo illa til tekist með uppeldi þetta, að dýrin hafa sloppið, og hefir það sannast af því, að borið hefir við, að þau hafa fundist aftur með merkjunum á sjer.

Þetta kom seinast fyrir síðastliðið sumar. Þá kom maður nokkur til sýslumannsins í okkar hjeraði og kvaðst hafa mist 11 yrðlinga úr eldi. (B. J.: Hvar var það?). Maðurinn var úr næstu sveit við mig, og meira að segja svo hreinskilinn, að fara ekki leynt með þetta, hvort sem hann mundi sæta þungum búsifjum fyrir þessa vanrækslu eða ekki.

Þó má geta því nærri, að honum hefir verið fullljóst, hve illar afleiðingar þetta gat haft fyrir hann og hjeraðið í kring.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að þótt við flm. vildum með þessu frv. koma í veg fyrir ræktina, til þess að sjá um, að ekki slyppu refir úr ræktarstöðunum, þá hefðum við ekki tekið það til greina, að refirnir geta komið annarsstaðar frá.

Mjer hefir aldrei komið til hugar, að þeir gætu ekki komið frá útlöndum, en það mælir alls ekki á móti því að fækka þeim, sem fyrir eru í landinu.

Annars býst jeg við, að mál þetta sje svo ljóst, að allur þorri hv. þingdm. fallist á það og sjái, að þetta er eina leiðin til að útrýma þessum ófögnuði.

En þeir, sem ekki þekkja til og ekki hafa alið aldur sinn í sveit, vona jeg að ekki taki mark á orðum hv. þm. Stranda. (M. P.), því þau hljóta að vera sprottin af þeim sjerstöku ástæðum, að hann vill hjálpa atvinnuvegi örfárra manna, sem ættu þó ekki að hafa rjett til þess að halda þessari hættu áfram, sem hjer vofir yfir höfði landsmanna.

Í þeirri von, að hv. deild gefi frv. gaum og láti það ganga sína leið gegnum þingið, vil jeg gera það að till. minni, að því verði vísað til landbúnaðarnefndar, að lokinni þessari umr.