04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

33. mál, tollalög

Sveinn Ólafsson:

Mjer skilst, að það sje nokkuð tvísýnt hvernig atkvæðagreiðslan fer. Jeg vil þess vegna láta uppi álit mitt á málinu.

Jeg var ekki alls kostar ánægður með frv. eins og það fór hjeðan úr deildinni síðast og því síður eins og það er komið frá hv. Ed., og þó að mjer sje ekki vel við innflutningsleyfi fyrir brensluspíritus, þá verð jeg að vera hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sammála um, að hv. deild beri að fella till. um að hann sje tollaður. Jeg mun þess vegna greiða atkvæði með till. hans.

Dálítið öðru máli er að gegna með brtt. á þgskj. 236. Jeg sje mjer ekki fært að fylgja henni af því að mjer finst órjettlátt að leggja innflutningsgjald á þessa vöru. Að vísu mætti segja að ávextir sjeu ekki meiri nauðsynjavara en t. d. sykur. En hann er líka sú vörutegund, sem að mínum dómi ætti ekki að tolla með þeim tollskyldu vörum, sem frv. telur. Hitt eru alt, að meira eða minna leyti munaðarvörur. Vjer búum hjer í ávaxtasnauðu landi og höfum ávaxtanna fylstu þörf engu síður en aðrar þjóðir. Er þess vegna óviðeigandi að tolla þá, einkum þær tegundir, sem eigi geta þroskast hjerlendis, og þó eru alment notaðar, svo sem rúsínur, plómur og epli. Nær hæfi mundi jeg telja að tolla jarðepli. Þau má rækta hjer svo nægi landsbúum öllum, og tollur á þeim mundi hvetja til aukinnar ræktunar.

Að vísu mun þessi till. um ávaxtatollinn borin fram til að vinna upp eftiræskta lækkun á tóbakstollinum, en tóbakstollurinn hefir nú verið samþyktur í báðum deildum, og eru því litlar líkur til þess, að hann verði lækkaður.