22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í C-deild Alþingistíðinda. (3382)

59. mál, bann gegn refaeldi

Sigurður Stefánsson:

Jeg þykist vita, að okkur komi öllum saman um, að eyða beri refunum eftir föngum. En hjer erum við komnir inn á svæði, sem heyrir fremur undir sveitarstjórnir en hv. Alþingi, því hver sýslunefnd hefir heimild til að banna refarækt í sínu hjeraði. Og það álit jeg heppilegra heldur en að Alþingi fari að semja lög um þessi efni. Og það er ekki nema sjálfsagt fyrir sýslunefndir, ef dýrbítur vex, að setja svo rammar skorður við, sem frekast er unt.

Mig furðar á frásögn hv. þm. Mýra. (P. Þ.) um bóndann í kjördæmi hans, og því meira á því, að jafnmikil landbúnaðarsýsla sem Mýrasýsla er skuli ekki hafa sett nein slík sektarákvæði fyrir að sleppa refum úr eldi, og verð jeg að telja það óþolandi hirðuleysi, og býst jeg ekki við, að betur sje gengið fram í því að eyða grenjum þar í sýslu. Á Vesturlandi er orðinn svo mikill annmarki að fá menn til þess að liggja á grenjum, að það má heita ókleift. — Kemur það til af því, að í reglugerðinni er kaupgjaldið ákveðið svo lágt, að enginn vill vinna fyrir það.

Fyrsta stigið fyrir sýslunefndirnar er að hækka kaupgjaldið að stórum mun, svo að ábyggilegir menn fáist heldur til að vinna grenin, þó jeg efist um, að hreppsnefndirnar sjái sjer fært að borga svo hátt kaup, sem nú er heimtað, en þá verður afleiðingin sú, að refunum fjölgar unnvörpum í landinu. Jeg hygg, að það geti verið orsökin til þess, að refunum fjölgar, að grenjavinslan sje slælega rekin.

Hvað Vesturlandi viðvíkur, þá hefir refaeldi verið þar í Stranda-, Ísafjarðar-, Dala- og Snæfellsnessýslum um nokkur undanfarin ár, og síðan hefir refunum fækkað þar mikið. Það gefur líka að skilja, þegar drepnir eru refir svo hundruðum skiftir á ekki stærra svæði. Held jeg, að sje nú refaeldið bannað, geti afleiðingarnar orðið þær, að refunum fjölgi stórkostlega.

Það var góð upplýsing, sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) gaf um fækkun refanna eystra eftir 1875, og nokkur ástæða er til þess að ætla, að öskufallið hafi átt þar hlut að máli. En hafi bíturinn farið að aukast eftir aldamótin, þá getur það ekki stafað af refaeldinu á Vesturlandi, því þá var það alls ekki byrjað. En það, sem mestu mun hafa valdið um fjölgun refanna á Austurlandi um þær mundir, hefir eflaust verið hvalveiðarnar, því að miklu var meira um tófur á Vesturlandi er hvalveiðarnar voru þar heldur en bæði á undan og eftir. Refirnir sóttu mjög í hvalþjóðirnar, sem þá lágu í hrönnum á fjörunum.

Í öðrum löndum, t. d. Norður-Kanada, var stofnað til tófuræktar í stórum stíl nokkru fyrir stríðið. Komu menn sjer upp girðingum, er hjeldu tófunum, og ólu þær upp. Er þetta nú orðið miljónafyrirtæki, og amast enginn við. Fjáreigendur þar norður frá amast alls ekki við þeim, því þeim er það fyrir mestu, að tófunum verði fækkað, og þeim dettur ekki í hug að öfundast við landa sína, þótt þeir græði á eldinu.

Þá vil jeg vekja athygli manna á því, að þó að þetta sje ekki stór atvinnuvegur, heldur að eins í fárra manna höndum, þá er það mjög varhugavert að banna hann, meðan engar sannanir eru fyrir því, að hann skaði landbúnaðinn, heldur þvert á móti, að hann geti orðið stór þáttur í útrýmingu refanna, því hann er mjög arðvænlegur.

Þá hefi jeg heldur ekki vissu fyrir, að þær tófur bíti mikið, sem úr eldi slyppu. Jeg hefi reynslu fyrir mjer í þessu efni, því jeg hefi sjálfur alið tófur á Vigureyjunni og látið þær ganga innan um sauðfje mitt frá því í ágústmánuði og til febrúarmánaðarloka, án þess að tjón hafi af hlotist. Finst mjer það sanna, að þessar tófur sjeu ekki neinir bitvargar. — En eins og áður er sagt, finst mjer, að sýslunefndir eigi að fara með þetta mál, og þeim sje vel trúandi fyrir að gera þær ráðstafanir, sem haldkvæmar eru til útrýmingar eða eyðingar tófunnar, en hitt er víst, að örðugleikarnir á því að fá góðar grenjaskyttur vaxa fremur en minka, verði frv. þetta gert að lögum, og þá er ver farið en heima setið.