13.08.1919
Neðri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í C-deild Alþingistíðinda. (3393)

59. mál, bann gegn refaeldi

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. er komið fram, eins og kunnugt er, sökum þess, að mikið hefir borið á refum hjer á landi nú í seinni tíð og þeir valdið talsverðu tjóni. Á þetta var itarlega minst við 1. umr. málsins. Landbúnaðarnefnd hefir nú haft málið til meðferðar og komist að þeirri niðurstöðu, að hjer sje um alvörumál að ræða, og því sje tímabært, að slík lög sem þessi verði sett. Auðvitað var nefndinni það fullvel ljóst, að þetta mundi hvergi nærri óbrigðult til að útrýma refum alveg, en áleit hins vegar, að það væri spor í áttina. Nefndin var þeirrar skoðunar, að ef ekki væru sett svipuð lög og þetta, þá væri þýðingarlaust að fást við málið, nema ef til vill að ýta undir sýslufjelög að gera bragarbót.

Það hafa hjer komið fram brtt. frá þrem háttv. þm., sem breyta frv. allmikið, ef þær yrðu samþyktar, þannig að í staðinn fyrir frv. um bann gegn refaeldi, þá yrði það frv. um refaeldi. Á því sjest greinilega, að hjer er um algerðan stefnumun að ræða. Ef litið er á brtt., sýnist það muni óþarft að fara að semja lög um refaeldi, því það er ekki bannað, eins og nú er. Nema ef mönnum þætti nauðsynlegt að benda sýslunefndum á að herða á sektarákvæðum þeim, er nú gilda. En það út af fyrir sig er tæplega næg ástæða til að setja lög um þetta.

Fyrsta brtt. erum heimild sýslunefnda til að leyfa refaeldi á vissu tímabili. Það er í sjálfu sjer ekkert athugavert. En svo er 2. brtt. svo hljóðandi:

Sá, sem refi vill ala, skal kveðja hreppstjóra til að skoða hús þau og girðingar, er hann ætlar til geymslu refanna; telji hreppstjóri geymsluna örugga, er eldið heimilt.

Þessi brtt. virðist nefndinni allvarhugaverð. — Gagnvart þeim, sem eldi hafa og hafa kostað til húsa og girðinga, getur komið sjer illa, ef hreppstjóri svo úrskurðar, að áheldið sje ekki nægilega örugt. Af því leiddi tjón fyrir þann sem í hlut á. Hins vegar gæti líka verið hætt við, að ef maður, sem ætlar að taka upp eldi, hefir lagt fje til bygginga og annars, þá muni honum frekar leyft eldið, enda þótt geymslunni kunni að vera ábótavant í einhverju.

Þetta frv. okkar er einmitt fram komið af því, að það er sannanlegt, að refir hafa sloppið úr eldi. Hjer frammi í lestrarsal liggur þingmálafundargerð úr Dalasýslu, þar sem sagt er frá, að refir hafi sloppið. Þetta er kunnugt öllum, og ekki sagt út í loftið. Frv. er fram komið af hræðslu við, að þetta eigi sjer stað. Það hefir sýnt sig, að það er annað en spaug að ganga svo frá, að ekki sje hætta á, að dýrin sleppi. Ef slíkt ætti að vera örugt, þyrfti mjög strangt eftirlit, sem í engu væri ábótavant. En á eftirliti hjá okkur er ekki byggjandi.

3. brtt.: Fyrir lok júlímánaðar skal sá, er refi elur, skýra hreppstjóra frá tölu eldisrefa. Er hann hefir lógað refunum, skal hann sýna hreppstjóra belgina. Fyrir hvern ref, er þá vantar á refatöluna, skal hann útlægur um 200 kr., nema hann sanni fyrir hreppstjóra, að ekki hafi sá refur úr eldi sloppið.

Um þessa till. er það að segja, að auðvelt er að fara í kring um hana. Hvaða sannanir á t. d. að heimta af manni, til þess að hann sje laus allra mála? Jeg býst við, að einhver kynni má ske að skýra skakt frá tölunni með það fyrir augum, að oft er ekki gott að vita nákvæmlega, hve marga refi hann hefir tekið á eldi. Við skulum gera ráð fyrir, að hann hafi eldið í einhverri eyju alllangt úti í sjó. Hver getur þá vitað, hvað marga refi hann flytur þangað? Það er ekki hægt að ganga úr skugga um það, nema því að eins, að farið sje út í eyna og refirnir taldir. En á því geta líka verið vandkvæði, því að víða finna refir sjer fylgsni. — Yfirleitt má segja, að hægt sje að fara í kring um þetta alt saman. Og þó hv. flm. gangi ekki annað en gott til, þá er ólíkt hægra að semja slík lög en framkvæma þau.

Í 4. brtt. er sagt, að varða skuli 500 kr. sektum, ef röng skýrsla er gefin. En þar við er það að athuga, að ekki er hægt neitt um það að vita, hvort skýrslur þessar eru rjettar eða rangar Mönnum er því í lófa lagið að skáka í því hróksvaldi. Þeir, sem ala, geta fengið refina úr öllum áttum, bæði látið veiða þá á grenjum og fengið þá aðflutta úr fjarlægum hjeruðum. Mönnum er það innan handar að koma þeim undan út í eyjar og hólma, án þess að hreppsnefndin hafi um það minstu hugmynd. Hún getur því ekki bygt á öðru en sögn þessara manna.

Auk þess getur það vel komið fyrir, að refar sleppi meðan verið er að flytja þá á markaðinn, og hefi jeg þekt dæmi til þess, því jafnvel þótt yrðlingar sjeu, sem ekki eru komnir til vits og ára, þá er eðli þeirra svo ríkt, að ilt er við þeim að sjá, enda hefir það komið fyrir, að þeir hafa svo að segja smogið í gegnum greipar manna og sloppið í flutningnum.

Þá er í 5. brtt. heimilað að ala refi á hólmum og eyjum úti í sjó. En það er langvarhugaverðasta atriðið. Það gæti ef til vill verið sök sjer, að ala þá í stein- eða járnhúsum, eins og ákveðið er í Strandasýslureglugerðinni, sem heimilar þó líka eldi í eyjum, en að leyfa slíkt í eyjum úti, þar sem ísalög geta verið tíð milli lands og eyja, það er stórvarasamt, og furðar mig á því, að hv. flm. brtt. skyldu leyfa sjer að ganga svo langt.

En um girðingarnar er það að segja, að þær mun ekki unt að gera svo úr garði, að heldar sjeu, því svo mun víðast haga til, að komið geti fyrir, að þær fyllist af snjó að vetrarlagi, og er þá auðvitað hægt fyrir refina að sleppa úr þeim. Þær geta því aldrei orðið öruggar.

Það eina, sem treysta mætti, eru vönduð hús, en þegar til þess er litið, hve dýr þau yrðu, ef svo vandlega væri frá þeim gengið, að óhugsandi væri, að þeir gætu grafið sig út, þá býst jeg við, að það þætti lítill gróðavegur að ala refina.

Auk þess þurfa refir mikið að jeta, og mun það reynast allkostnaðarsamt að ala þá eingöngu á því, sem til fellur af heimili, ef þeir fá einskis að afla sjer sjálfir, og þá er heldur ekki víst, að þeir dafni vel, ef þeir eru innilokaðir á þann veg um langan tíma. En það mun hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) þekkja betur en jeg.

Yfir höfuð virtist nefndinni svo mikil hætta á því, að mistök mundu geta af því hlotist að samþ. brtt. á þgskj. 323, að hún taldi það ekki viðunandi.

Hjer hafa verið svo mikil brögð að því, að refir legðust á fjenað, að ekki má annað duga en gerð verði gangskör að því að útrýma þeim, og þótt sveitarstjórnir láti það mál að nokkru til sín taka, þá er þess full þörf, að löggjafarvaldið taki í taumana, því að hjer getur svo ramt að kveðið, að einum aðalatvinnuvegi landsins sje hætta búin. Svo gæti refunum fjölgað, að ómögulegt væri að eiga sauðfje.

Till. nefndarinnar skal jeg ekki tala um að þessu sinni, en þó vil jeg geta þess, að jafnframt því, sem nefndin vill samþ. frv., þá vill hún með till. ýta við hreppsnefndunum, að þær breyti reglugerðunum þannig, að menn verði ekki með lagabókstaf fældir frá að veiða refi.

Mjer þykir það leitt, að menn skuli ekki geta orðið sammála um þetta mál nú. Hjer á þingi hefir það altaf verið talið sjálfsagt að vinna að útrýmingu refa, og jeg býst við, að hv. flm. brtt. (S. St.) þykist vinna að því nú eins vel og við hinir.

En það er ekki rjett á litið.

Hættan er altaf við höndina, að refar sleppi af eyjum og hólmum, og sömuleiðis úr girðingum, og þótt einstaka maður sje svo skyldurækinn, að gæta þess, að slíkt komi ekki fyrir, þá er ekki öllum treystandi til þess.

Auk þess eru mest líkindi fyrir því, að lítill gróði verði að eldinu, ef svo er til gæslunnar kostað, sem vera ber.

Jeg verð því að líta svo á, að málstaður flm. brtt. sje verri, og að þeir geti ekki fullyrt, að engin hætta sje á ferðum, þótt þær sje samþ. Jeg vona því, að háttv. deild taki ekki þá stefnu í málinu, sem þar er farið fram á, þó að flm. gangi ef til vill ekki nema gott til.

Vona jeg svo, að frv. verði samþ. eins og nefndin vill vera láta.