13.08.1919
Neðri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í C-deild Alþingistíðinda. (3395)

59. mál, bann gegn refaeldi

Bjarni Jónsson:

Jeg mundi láta mig þetta refamál litlu skifta, ef ekki hefðu orðið umr. um það heima í hjeraði. Var þetta mál rætt þar á 2 þingmálafundum, og komu ýms tilmæli fram um það, að skora á hv. Alþingi að banna refaeldi. Var það fært til sönnunar, að miklar líkur væru til, að refir hefðu sloppið úr Elliðaey og eyjum á Steingrímsfirði á ís, og hefðu þeir bitið fje manna. Ekki var þó till. í þessa átt samþykt nema á öðrum fundinum. Á hinum fundinum komust menn að þeirri niðurstöðu, að í sjálfu sjer væri ekkert út á refaeldi að setja, ef tryggilega væri frá öllu gengið. Jeg þykist því vera í fullu samræmi við vilja kjósenda minna, þótt jeg sje meðflm. að brtt. Mjer er engin launung á því, að miklu rjeð um vilja annars þessa fundar, að í sýslunni er maður nokkur, Jón í Ljárskógum, ágæt refaskytta og dugnaðarmaður. Hefir hann haft atvinnu af refaeldi, enda verið forgöngumaður að því máli, og hefir hann manna fyrstur reynt að útvega þessari vörutegund góðan markað. Þótti mönnum fyrir því, að eyðileggja þennan atvinnuveg fyrir þessum manni, þar sem líka aldrei hafði fyrir komið, að refir hefðu sloppið frá honum. Vildu þeir því ekki láta það koma niður á honum, þótt einhverjir hefðu farið ógætilega. Þá tel jeg það ekki heldur rjett af löggjafarvaldi að eyðileggja einn atvinnuveg, þótt hætta stafi af honum fyrir einhverja. Ekki eru t. d. bannaðar fiskveiðar, og kemur það þó fyrir á stundum, að skip týnast, og það sem er enn meiri skaði, að ungir og duglegir menn bíða oft bana af. Margt fleira mætti tilnefna, og dettur þó engum í hug að leggja þennan eða aðra atvinnuvegi niður. Þá má og leggja töluverða áherslu á þá skoðun hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að með þessu yrði hvötin til þess að eyða refunum tekin frá mönnum. Það hlýtur hver heilvita maður að sjá, að hvötin til að eyða refunum og ná yrðlingunum er því meiri, sem meiri er hagsvonin. Jeg man líka frá mínu ungdæmi, að mikið hirðuleysi var haft við grenjavinslu. Voru yrðlingarnir oft látnir vera eftir í greninu, er foreldrarnir höfðu verið drepnir, og kylfa látin ráða kasti um það, hvort þeir yrðu hungurmorða eða lifðu. En nú hefir áhugi manna fyrir að ná í refina og yrðlingana vaxið við það, að mátt hefir tengja við það atvinnugrein, sem mikið gefur í aðra hönd.

Íslendingar eru oft vanir að líta til annara landa, er þeir eru sjálfir að ráðgera, hvernig einhverju skuli haga. En eins og menn vita, þykir konum víðs vegar um heim mikið koma til loðskinna, sjerstaklega þeirra, sem fásjeð eru. Eftir því tóku menn í Vesturheimi, að þar í landi voru sumar refategundir með rauðum lubba undir hinum löngu gráu háruni á bakinu, en aðrar með svörtum lubba undir silfurgráum, löngum hárum. Eru þeir sjaldgæfari og miklu dýrari, og eru skinn þeirra seld afardýru verði. Tveir menn tóku sig þá til og ólu refina; bjuggu þeir svo vel um, að enginn vissi, hvaðan öli þessi skinnavara kom inn á markaðinn, enda máttu mennirnir ekki við því að missa refina. Þessum mönnum tókst að verja refunum útgöngu, en þeim tókst ekki að verjast því, að meðbræður þeirra kæmust ekki að þessu. Fóru því menn alment að leggja stund á þennan atvinnuveg. Er nú svo mikið um þennan atvinnuveg þar vestra, að stjórnin hefir gefið út skýrslu um það meðal annars, hvernig menn eigi að haga sjer, og er þar teikning af, hvernig refagirðingar eða stíur eiga að vera. Verður að búa svo um, að þeir grafi sig ekki í gegnum, og hefir grjót til þessa þótt duga; enn fremur grafa refir sig ekki í gegnum trjevegg, sem er makaður upp úr kreosod. Til þess að gefa mönnum nokkra hugmynd um, hvern arð þessi atvinnuvegur gefur þar, sem menn hafa hitt á að ala upp sjerstaklega sjaldgæfar og skinngóðar refategundir, get jeg sagt frá því, að eitt skinn af silfurref var selt þar fyrir 1000 vesturheimska dali, og í 12 árin, eftir 1905, hefir meðaltalan af verði bestu skinnanna verið 600 dalir. Ættu þessar tölur að fá menn til þess að hugsa sig um, áður en þeir fara að banna þennan atvinnuveg með lagaboði. Þess ber og að gæta, að silfurrefir geta engu síður lifað hjer á landi en þar vestra, og eru raunar til hjer á landi refir, bláir á lit, með silfurlituðum hárum. Væru þeir aldir upp af viti, er engin hætta á öðru en að þeir myndu gefa góðan arð.

Jeg vildi geta þessa, mönnum til íhugunar, áður en þeir loka atvinnuvegi, sem nú er í byrjun.

Það er von, að menn heimti, að svo sje tryggilega um búið, að fjenaði stafi ekki hætta af refarækt. Og það ætti að vera vinnandi vegur að búa svo tryggilega um hnútana, að fjenaði væri óhættara eftir en áður. Því að refarækt mundi auka veiðilöngunina, eins og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir tekið fram, þar sem menn vissu, að einhvers væri að vænta í aðra hönd.

Jeg vona þess vegna, að landbúnaðar-, eða refanefndin, taki þessi atriði til íhugunar, áður en hún gengur að málinu af kappi. Það tel jeg vera miklu sæmilegra. Jeg hygg, að Íslendingum verði engu erfiðara en öðrum þjóðum að búa svo tryggilega um hnútana, sem hjer hefir sagt verið.