03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hefi álitið það skyldu mína að sýna háttv. deild sem ljósast, hvernig sakir stæðu í fjármálunum. Jeg hefi sýnt fram á, hvaða skuldir standa að baki, og varað við þeim hliðargötum, sem háttv. fjárveitinganefnd hefir lagt inn á og reynt að teyma þingið á eftir sjer út á. Jeg hefi reynt að gera mönnum það skiljanlegt, að full ástæða sje til að fara varlega.

Háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.) hefir átalið stjórnina fyrir sparsemi og afturhald, og talið það ósamræmi, að stjórnin hefði þó viljað hækka laun embættismanna. Ástæðan til, að stjórnin sá sjer ekki annað fært en að leggja til, að laun embættismanna væru sómasamleg, var sú, að hún taldi það óhjákvæmilega nauðsyn. Sú þjóð er illa farin, sem á fjárhagslega ósjálfstæða embættismenn, en það var sýnilegt, að ef kjör þeirra hjeldust óbreytt, þá hefðu þeir orðið flestir bundnir á skuldaklafann, en allir sjá, hvert það stefnir, ef svo er farið með trúnaðarmenn þjóðarinnar, því með því væru opnaðar allar leiðir að spillingunni. Jeg get sagt fyrir mig, að jeg er hálaunaður embættismaður, en þó sje jeg mjer ekki fært að lifa af launum mínum. Jeg gat því dæmt um nauðsynina af eigin reynslu. Jeg vil ekki innleiða umr. hjer um launamálið; menn eru víst orðnir sæmilega leiðir á þeim hjer áður, en jeg vildi að eins skýra frá því, hvernig stóð á því, að stjórnin sá sjer ekki annað fært en að leggja með hækkun á launum embættismanna.

Við fyrstu umr. fjárlaganna lýsti jeg greinilega, hvaða stefnu jeg teldi að þingið ætti að fylgja í fjármálunum nú, bæði að því er landsverslunina snertir, fyrirsjáanlegan halla á kolum og salti, og svo einnig hallann á þessu ári á landsbúskapnum. Enn talaði jeg um árin, sem fram undan eru, og taldi lítt forsvaranlegt að stofna til halla á þeim nú. Þá stefnu taldi jeg lítt verjandi, því ef inn á þá braut væri farið, þá værum við á leið niður á við. Ef þetta á að kallast afturhald, þá er jeg reiðubúinn til að taka við því nafni.

Jeg veit, að háttv. framsm. (M. P.) telur engin vandkvæði á því, að greiða hallann með lánum, en það er einmitt eldur í öllum fjárhagnum, ef þingið heldur lengra inn á þá leið. Áreiðanlega getur líka farið svo, að erfitt verði að fá slík lán í þessu augnamiði, og spá mín er sú, að ódýr reynist þau ekki. Vel verður að gæta að því, að lán, sem tekin eru til að borga árlega halla, eru miklum mun ver sjeð en lán til arðvænna fyrirtækja. Talað hefir verið um innanlandslán, og stjórnin hefir haft það mál til athugunar, en nóg pláss mun verða fyrir það, þó ekki sje þess leitað í hallann árlega. Ýms framleiðslufyrirtæki eru fyrir stafni, sem styðja þarf. Má nefna t. d. Flóaáveituna, sem mun þurfa 2. milj. króna lán til. Mjer hefir nú að vísu dottið í hug að reyna að fá bankana til þess að veita þetta lán, með ódýrum kjörum, en hvort það tekst veit jeg ekki.

Menn sjá þannig, eins og jeg hefi tekið fram, að jafnvel þótt svo væri hugsað fyrir framtíðinni, að tekjuhallinn væri greiddur með sköttum, þá er þó nóg að gera með lánin. Fyrir höndum eru miklar og dýrar húsabyggingar, brúargerðir, símalagningar og Flóaáveitan. Þegar svona miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sem gerast eiga fyrir lán, þá er með öllu ósæmilegt að skiljast svo við fjárlögin. Ef ekki er hægt að minka hallann öðruvísi, þá verða ýmsar nauðsynjar, jafnvel eins og vegabætur, að sitja á hakanum. Hitt er sjálfsagt, að halda þarf sem best við vegum þeim, sem lagðir hafa verið, og brúm. Óhjákvæmilegt er og að brúa lífshættuleg vötn, svo sem Jökulsá á Sólheimasandi; slíkt má ekki bíða.

Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) drap á, að stjórnin hefði átt að koma með fleiri tekjuaukafrv. en hún hefir gert. Má vera, en svo mikinn mótbyr hafa sum skattafrv. hrept, sjerstaklega í Ed., að ekki hefir sýnst byrja líklega fyrir fleiri nýjum tekjuaukum, en reyndir munu þó fleiri. En vert er að gæta, að þeir, sem hæst hrópa á tekjuauka, hafa átt erfitt með að benda á aðrar leiðir en einmitt þær, sem stjórnin hefir farið. Sannleikurinn er nú sá, að allþungir skattar hafa þegar verið lagðir á þjóðina; enda verður mönnum tíðrætt um það utanþings; að minsta kosti hafa margir talað um það við mig, að fjármálaráðh. sje ærið frekur til að fara ofan í vasa manna og sækja þangað fje. Það er ekki afturhald, þótt stjórnin vilji fara varlega, og síst ætti hún að eiga ámæli skilið fyrir það.

Það hefir verið sagt, að eðlilegt væri, að framkvæmdirnar yrðu stórstígar nú, þegar fullveldið væri fengið. En þess verða menn að minnast, að öruggasti bakhjarlinn fyrir fullveldið er, að fjárhagur ríkisins sje í góðu lagi. Góður fjárhagur er sterkasta stoðin undir fullveldinu.

Að svo mæltu verð jeg að snúa mjer að hv. þm. Borgf. (P. O.) og athuga ummæli hans um sendiherrann. Háttv. þm. (P. O.) sagði, að hann legði ekki mikla áherslu á, að sendiherrann hefði aðgang að hærri stöðum. Jeg skil ógerla, hvað háttv. þm. (P. O.) á við með þessum hærri stöðum. En það get jeg frætt háttv. þm. (P. O.) um, að heppilegast er að geta leitað til þeirra, sem mest hafa ráðin, þegar einhverju á að verða framgengt; hitt er ekki vænlegt, að þurfa að hafa undirtyllurnar til milligöngu. Hv. þm. Borgf. (P. O.) veit, að það er jafnan meira um vert að fá fylgi hinna máttugustu en hinna vanmáttugu. Þá sagði háttv. þm. (P. O.), að stjórnin hefði, með því að setja ekki hærri upphæð í fjárlagafrv. handa sendiherranum en þar stendur, viljað blekkja þingið. Þetta er ekki rjett. Að vísu mun upphæðin líklega vera of lág, en þegar hún var sett í fjárlagafrv., hjelt stjórnin, að hún mundi vera sæmileg. En er hann talaði um, að óhætt mundi vera að margfalda upphæðina, þá fer hann eflaust of langt. Þótt stórveldin sjái sjer fært að greiða sendiherrum sínum mikið fje, er jeg raunar efast um, og láti þá berast mikið á, þá er ekki ástæða fyrir Íslendinga að feta í þeirra fótspor í þessu. Þá sagði hv. þm. Borgf. (P. O.), að stjórnin hefði farið bak við þing og þjóð í þessu máli. Jeg veit ekki hvað háttv. þm. (P. O.) meinar með þessu. Jeg hef staðið í þeirri fullu trú, að það hafi verið vilji Alþingis að hafa sendiherra í útlöndum. Jeg veit því ekki, hvað er meint með því, er sagt er, að stjórnin hafi farið bak við þing og þjóð.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) kvaðst ekki mótfallinn máli þessu í sjálfu sjer, en hann vildi láta draga framkvæmdir í því. En sje starfið áríðandi, eins og það vafalaust er, þá skilst mjer, að ekki megi draga að koma því í framkvæmd. Hv. þm. (P. J.) taldi rjett að bíða með að gera út um þetta mál, þangað til ný stjórn hefði verið skipuð. Jeg sje nú, fyrir mitt leyti, ekkert samband milli þessa tvenns. Það verður auðvitað hvort sem er nýja stjórnin, sem sendiherrann skipar, ef nú verða stjórnarskifti. Og sje einhver hræddur um, að hinu fyrirhugaða sendiherrastarfi sje þegar ráðstafað handa einhverjum ákveðnum manni, þá má spyrja hæstv. forsætisráðh., hvort svo sje. Öll stjórnin getur lýst því yfir, að enga ályktun er búið að taka um, hver skuli hljóta stöðuna. Eftir mínum skilningi væri það mjög leiðinlegt, ef brtt. yrði samþ.; það sýndi óneitanlega þroskaleysi og mundi vekja litla aðdáun í útlandinu. Ef þingið ekki hefir ráð á að kosta einn sendiherra í útlöndum, hvað hefir þá verið meiningin með óskum manna um að fara sjálfir með utanríkismálin? Hvernig hefði þá farið með þann kostnað? Og hætt er nú við, að hætt verði að festa mikla trú á einbeittan þjóðarvilja í sjálfstæðismálunum ef það verður ofan á hjer í þinginu, að skrifstofan í Höfn hafi í hjáverkum mál okkar út á við.

Jeg hefði ekki orðið hissa á því, þótt hv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefði borið fram tillögu þessa, því að honum er sparnaðurinn fyrir öllu, þegar komið er út fyrir Flóann. Hann, sem vill helst afnema ráðherraembættin, til þess að spara. En jeg skil ekki í því, að minn kæri flokksbróðir og einbeitti og harðvítugi sjálfstæðismaður, hv. þm. Borgf. (P. O.), skyldi bera fram brtt. þessa. Það hlýtur að koma til af því, að hann beri ekki fult skyn á, hve afarmikla þýðingu þessi staða hefir fyrir okkur í útlöndum. Jeg veit, að hv. þm. (P. O.) muni reiðast mjer fyrir að segja þetta, en jeg get ekki látið það vera.

Jeg enda svo orð mín með því að segja, að jeg vona, að hv. deild felli brtt. þessa.