25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í C-deild Alþingistíðinda. (3404)

59. mál, bann gegn refaeldi

Guðjón Guðlaugsson:

Þó þetta mál sje lítið, þá hafa orðið talsverðar umræður um það í hv. Nd., og jeg býst við, að það sjeu of mikil veðrabrigði fyrir frv., ef það yrði afgreitt hjer umræðulaust, og vil jeg ekki stuðla að því.

Jeg hallast að því, að frv. sje óheppilegt og að það hafi áhrif í gagnstæða átt við það, sem flm. ætlast til. Ef frv. verður að lögum, verður það fremur fullkomin trygging fyrir refaeldi í landinu, það er að segja viltra refa, er valda tjóni og fjárskemdum. Jeg hygg, að jeg sje svo kunnugur málinu, að jeg geti fullyrt, að það er ekkert ráð betra og farsælla til útrýmingar refa en refaeldi það, er átt hefir sjer stað á nokkrum stöðum.

Í þessum mjög svo leiðinlegu og lítilfjörlegu umr. í háttv. Nd. heyrði jeg ýmsar svo nefndar ástæður með þessu frv., en það var sameiginlegt við þær allar, að þær voru bygðar á algerðu þekkingarleysi á málinu, fullkomnu slúðri, og höfðu ekki við neitt að styðjast. M. a. góðgætis var það, að einhver maður hefði sagt einhverjum kunningja sínum, og hann svo einhverjum þm„ er enginn þó vissi hver var, að miklar líkur væru til þess, að einhvern tíma hefðu refir sloppið á land úr Grímsey og Steingrímsfirði og labbað norður í Húnavatnssýslu. Þegar svo var sagt frá þessu, þá var það orðið að vissu það er svipað og sagan um hænuna, sem reitti af sjer fiðrið. Jeg veit nú, að þetta er hin mesta fjarstæða: í fyrsta lagi eru allir refir í Grímsey markaðir, svo þessir húnversku refir hefðu átt að vera markaðir, ef þeir hefðu verið þaðan, en þess hefir ekki heyrst getið. Það hefir enginn sagt. Í öðru lagi hafa ísalög ekki verið svo mikil, að slíkt gæti átt sjer stað. Það er alstaðar mikið styttra til lands úr Grímsey heldur en þvert yfir Húnaflóa til Vatnsness eða Skagastrandar. Jeg veit það enn fremur, að það hafa verið hafðar nákvæmar gætur á refunum. Hreppstjórinn, er sjer um það, er fremur óvinveittur refaeldinu, og ef til vill sumum refaeigendunum, og hann á, bæði sem hreppstjóri og sýslunefndarmaður, að athuga þetta. Hann telur yrðlingana, sem látnir eru í eyjuna, og hann telur skinnin, og hefir aldrei vantað stórkostlega upp á tölu þeirra, og vanhöldin hafa síst verið meiri síðustu ár, þótt ís hafi verið.

Jeg hefi nú nýverið fengið þrjú brjef um mál þetta, frá mönnum í Dala- og Strandasýslum, og eru þau fróðleg mjög, einkum brjef frá Jóni Guðmundssyni, bónda í Ljárskógum í Laxárdal í Dalasýslu. Hann hefir í mörg ár fengist við refaeldi og hefir tekist það ágætlega, og hann er sannfærður um, að refaeldið sje besta ráðið til þess, að greni verði unnin. Hann hefir gefið mjer fróðlega skýrslu um refatöku og hvað margir refir hafi veiðst í hverjum hreppi í mörg ár, og það kemur skýrt fram, að refaeitrun hefir alstaðar verið mesta tjón. Þar vestra var byrjað á eitrun, en síðan var hætt við það, af því það þótti gagnslaust. Þessi maður hefir gert margar tilraunir með refi, og hann heldur því fram, að refaeldi og refaklak sje viss atvinnuvegur, og hann segir, að það sjeu orðnar kynbætur á refum. Þessar kynbætur stafa af eitruninni; fyrir henni hafi fallið öll heimskustu og dáðlausustu dýrin, og því hin viltari, harðgerðari og um leið hættulegri eftir. Hann segir þetta reynslu sína, og bendir á, að allar aðfarir refanna hafi breyst stórkostlega frá því fyrst að hann man; Þeir eru orðnir miklu varari um sig, og þeir nota ekki lengur greni, er liggja við sjó fram eða nærri bæjum; þeir halda sig meir fram til fjalla, og því verða dýrin harðfærari. Hann segir það víst, að tófan sje orðin hrædd við allar breytingar, og því sje eitrun nú þýðingarlaus, en að ætla sjer að fá skyttur til refadráps, án þess að refaeldi sje, er með öllu þýðingarlaust; kaupið er alt of lítið. Það hefir raunar verið afgreidd hjeðan þingsál.- till. um verðlaun fyrir refadráp, en það er varla efi á því, að þau verðlaun verða svo við neglur numin, að það vill enginn leggja á sig að liggja á grenjum í hvaða veðri sem vera vill, fyrir svo litla greiðslu. Öðru máli er að gegna um það, þegar grenjaskyttan getur átt von á því, að ná í fimm til sex hvolpa, er hún getur selt alla á mörg hundruð krónur; þá er þó fyrir eitthvað að vinna.

Annað, sem gert er með frv., er það, að eyðileggja þá vörutegund, sem dýrust er flutt úr landi hjer. — Jeg man það, þegar jeg var ungur, að þá þóttu tvær vörutegundir gersemi mikil fyrir verðmæti sitt; það voru blá refaskinn og æðardúnn. Nú er svo komið, að refaskinnið er einum tíu sinnum dýrara en dúnpundið; skinnið kostar nú yfir 200 kr., en dúnpundið vart 20 kr. Hefir nú nefndin athugað, hvort rjett er að eyðileggja þessa vörutegund landsmanna? En um hina miklu eftirspurn eftir skinnunum vita allir.

Hið mikla verð skinnanna hefir gert það, að refaeldi hefir tíðkast; skinn af eldisrefum eru það betri en af villirefum, og þetta háa verð hefir enn fremur orðið til þess, að skyttur hafa jafnvel kepst um að fá að vinna grenin í þeirri von, að þeir gætu náð í hvolpa til eldis. Og það er víst, að í þeim sýslum, þar sem refaeldið er, þar ber minst á dýrbít, og það er vitanlega af því, að meira er gert þar að grenjavinslu.

Í Strandasýslu er refaeldi á nokkrum stöðum, t. d. í Ófeigsfirði, og veit jeg ekki til, að þar hafi nokkru sinni sloppið refur, og í Árneshreppi er bóndi, sem í mörg ár hefir alið refi í steinhlöðu, og skinn þau, er hann selur, þykja með afbrigðum falleg, og jeg hefi aldrei heyrt hið minsta kvis um, að refur hafi sloppið hjá honum. Hann hefir ferðast með strandferðaskipunum til yrðlingakaupa, og hefir það orðið til þess, að aðrir hafa átt hægara með grenjavinslu, t. d. Húnvetningar.

Margt fleira má um þetta segja, þótt jeg láti staðar numið að sinni; en jeg vil alvarlega og af hreinni sannfæringu ráða hv. deild til að stytta þessu frv. aldur, en ef hv. deild vill, vegna systurdeildarinnar, ekki fella málið strax, er best að vísa því til landbúnaðarnefndar, þótt hún reyndar sje of göfug til að taka móti svona máli.