25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í C-deild Alþingistíðinda. (3405)

59. mál, bann gegn refaeldi

Guðmundur Ólafsson:

Ekki er að undra það, þótt hv. 4. landsk. þm. (G. G.) haldi mikla og góða ræðu um frv., þar sem hann byrjaði að tala um þetta mál áður en það lá hjer fyrir; hann hefir víst búið sig rækilega undir þessa 1. umr.

En þótt ræðumaðurinn (G. G.) væri vel undirbúinn, þá virtust mjer vera mótsagnir í ræðu hans. Hann vildi telja refaeldið besta og eina ráðið til að útrýma refunum; jeg satt að segja fæ eigi vel skilið það, því eftir því, sem meira er drepið af tófunum, eftir því fá refaeldismennimir færri yrðlinga til eldis. Mjer skilst, að það hafi eitthvað til síns máls, að þeir vilji ekki drepa fullorðnu dýrin, svo atvinnan rýrist ekki. eða hverfi ekki með öllu.

Það er með öllu þýðingarlaust að halda því fram, að ekki sje hægt að fá grenjaskyttur, þótt refaeldi hverfi; það var nóg af þeim, og engu síður góðar skyttur, áður en það kom til, og verður eins eftirleiðis. Og svo er lítið varið í það, þótt tófur sjeu teknar úr greninu, aldar í nokkurn tíma og sleppi svo aftur. Þær fækka lítið við það.

Það var margt talað um refina í hv Nd., og sumt, er þar var sagt, var harla ótrúlegt. Þannig hjelt einn refavinurinn því fram, að komið hefði fyrir, að tófurnar syntu eða kæmust á annan hátt úr eyjum í land, en þær kæmu ávalt aftur áður en slátrun færi fram, til þess að geta þá verið með. Mjer þótti þetta harla ólíklegt, en eftir því, er hv. 4. landsk. þm. (G. G.) fórust nú orð, þá kemur þetta víst af því, að tófan er orðin svo vitur; það hafa verið gerðar á henni svoddan kynbætur með eitran! Vildi ekki hv. þm. (G. G.) gera svona kynbætur á öðrum skepnum ?

Það voru miklar umr. um þetta frv. í hv. Nd., en við hjer erum vanalega orðvarari; en þótt mikið væri rætt um frv. þar, og þótt mjög væri að því veist, þá var það þó að lokum samþ., eins og flm. lögðu til, og sýnir það best, að sæmilega hefir verið gengið frá frv.

Jeg skal játa það, að það væri ekkert á móti refaeldinu, ef hægt væri að fulltryggja það, að refirnir gætu ekki sloppið, en það er það, er á vill bresta, og varla treystandi, að fulltrygt eftirlit yrði haft með því, fremur en öðru. Það er alvarlegt mál, hve refum hefir fjölgað hjer síðustu ár, eftir fregnum víða af landinu.