25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í C-deild Alþingistíðinda. (3406)

59. mál, bann gegn refaeldi

Guðjón Guðlaugsson:

Ef tófum fjölgar, er það vegna hleypidóma og heimsku almennings, sem notar vitlausar aðferðir til að fækka þeim, svo að þeim fjölgar, í stað þess að á að fækka þeim.

Að frv. þetta gekk gegnum hv. Nd. óbreytt frá því, sem það kom frá flm., sannar ekkert annað en það, að nú eru tiltölulega fleiri heimskingjar í Nd. en áður hafa verið.

Að vitna í góðar grenjaskyttur, sem verið hafi í gamla daga, er engin sönnun. Þá var hægt að fá menn til að vinna fyrir minni borgun en nú. Þá þótti heiður að vinna greni. En jeg er í engum vafa um, að það eina, sem nú ýtir undir menn að leggjast á greni, sem oft hefir vosbúð og jafnvel lífshættu í för með sjer, er ábatavonin, þ. e. vonin um það, að ná yrðlingunum til að ala þá upp og fá svo stórfje fyrir skinnin af þeim, þegar þeir eru orðnir stórir.

Þótt jeg tæki fram, að þetta væri arðvænlegur atvinnuvegur og skinnin dýr, er ekki hægt að draga þá ályktun, að veiðimönnunum sje hagur í því, að láta eldri dýrin sleppa. Veiðimaðurinn sparar sjer ekki til næsta dags það, sem hann getur veitt í dag, því refirnir eru forsjál dýr og ganga ekki nema eitt sinn í sömu gildruna.

Jeg tók ekki svo vel eftir því, sem hv. frsm. (G. Ó.) sagði, enda fundust mjer ástæður hans næsta veigalitlar. — Jeg hefi nú svarað því, sem hann taldi „ósamræmi“ í fyrri ræðu minni, og sömuleiðis lofsöngnum um grenjaskytturnar.

Þegar jeg var unglingur, var jeg eitt sinn með stórfrægri grenjaskyttu. Svo var mál með vexti, að tófa hafðist við skamt frá þeim stað, er jeg sat yfir fje. Kvað talsvert að dýrbiti, og því var sent í fjarlæga sveit til að ná sem bestri grenjaskyttu.

Eftir nokkurra daga eltingarleik fór svo, að grenjaskyttan fór heim aftur án þess að hafa afrekað nokkuð, enda var sú afsökun, að tófan var hlaupatófa.

Jeg hygg, að það sje rjett, sem Jón Guðmundsson heldur fram, að öruggasta leiðin til þess, að grenjavinsla verði vel rækt, sje að leyfa refaeldi og stuðla að refakynbótum, svo það geti orðið sem bestur atvinnuvegur.

Jeg held því fast fram, að ekki þurfi að koma fyrir, að refur missist úr eldi. Slíkt er óhapp eða slys, sem ekki kemur fyrir í einu tilfelli af 20. Enda geta menn sagt sjer sjálfir, hvort ekki sje hvöt fyrir þá, er hafa refaeldi, að gæta dýranna sem best, þegar hvert skinn er 200 kr. virði.