04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

33. mál, tollalög

Matthías Ólafsson:

Háttv. þm Stranda (M. P.) sagði, að það hefði verið vorkunnarlaust fyrir þá, sem vildu, að koma fram með brtt. við frv. þetta, þar sem liðið hefðu nú tveir dagar milli þingfunda. En veit hv. þm. (M. P.) ekki, hve miklum önnum þingmenn voru yfirleitt hlaðnir þá daga, nje heldur, að sumir voru þá fjarverandi úr bænum þeirra, sem mest eru við mál þetta riðnir?

Samanburður hv. þm. (M. P.) á brensluspíritus og hreinum spíritus var gerður meir af vilja en mætti; þess gætir ekki mikið, þótt nokkur tollur sje lagður á meðalaspíritus, því að það mun vera fágætt, að hann sje gefinn öðruvísi en í smáskömtum sem læknislyf. Munu því spíritusmeðul hvers einstaklings ekki geta hækkað að verulegum mun í verði. Tillaga hv. Ed. um toll á brensluspíritus er afar óbilgjörn, ekki síst á þessum tíma, þegar flestur eldiviður er svo afskaplega dýr; og svo er þess að gæta, að tollur þessi legst mestmegnis á kaupstaðabúa, en sveitamenn komast að mestu hjá honum; þeir brenna mestmegnis sauðataði, og sumir mó með, en munu fæstir nota suðuvjelar, svo nokkru nemi. Aftur á móti nota fjölmargir kaupstaðabúar að miklu leyti steinolíuvjelar, sem kveikt er á með brensluspíritus, því þótt það sje dýrt, verður annað eldsneyti þó enn dýrara, auk þess sem húsnæðisskorturinn einn út af fyrir sig knýr ýmsa til að nota þessar vjelar. Það verða því fyrst og fremst fátækari heimilin, sem tollurinn legst á, og mun síst of mikið í lagt, að hann nemi, með kaupmannságóðanum á honum, 15–20 kr. á heimili, þar sem olíuvjelarnar eru mikið brúkaðar.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) fanst það mæla mikið með því, að frv. væri samþykt óbreytt hjer, að það flýtti fyrir því, að lögin kæmust í gildi. Hv. Ed. hefir ekki litið þannig á, að mjög mikið lægi á að hraða málinu sem mest, því að hún kynokaði sjer ekki við að tefja fyrir því með því að breyta frv., og eiga með því á hættu, að það hrektist milli deildanna. Það er ekki í fyrsta sinn, sem hv. Ed. leikur sjer að því, að breyta frv. þessarar deildar og það eins þótt fjármálafrv. sjeu og lætur hótanir fylgja, sje ekki gengið að breytingunni, eða svo heyrðist á hv. frsm. (E. Árna.), að í þessu máli væri. Slíkar hótanir ætti þessi deild ekki að láta hræða sig til að hverfa frá því, sem hún telur rjettast. Lofum hv. Ed. að fella frv., ef hún þorir, og taki hún svo á sig ábyrgðina af því. (E. A.: Hvers virði er sú ábyrgð?)