04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í C-deild Alþingistíðinda. (3417)

108. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi í Siglufirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Mjer kemur það fremur á óvart, að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) skuli þannig taka í málið, þar sem hann hefir þó verið hlyntur þeirri jarðeignasölu til bæjarfjelaga, sem þeim er nauðsynleg. Því þeirri ástæðu, að málið sje alls ekki undirbúið, finst mjer naumast hægt að halda fram í fullri alvöru. Bæjarfjelag Siglufjarðar sækir um kaup á jörðunum með vandlega rökstuddri greinargerð, og nákvæm lýsing á jörðunum er fyrirliggjandi. Hjeraðsfundur hefir rætt málið og er meðmæltur sölunni, eins og fylgiskjal II. sýnir. Biskup sömuleiðis, og hlutaðeigandi prestur hefir lýst sig henni fylgjandi. Það er því að eins stjórnarráðið, sem ekki hefir látið uppi álit sitt opinberlega, fyr en þá nú, og virðist mjer það geta átt þess nægan kost að kynna sje alla afstöðu málsins, meðan það liggur hjer fyrir í þinginu. En auk þess skýrði jeg hæstv. forsætisráðherra (J. M.) frá þessari málaleitun Siglfirðinga strax í þingbyrjun, og tók hann henni þá, að mjer virtist, mjög vel. Annars skal jeg, ef unt er, sjá um, að frekari lýsing á jörðunum liggi frammi, þegar hlutaðeigandi nefnd fer að fjalla um málið, þó að jeg geti ekki lofað að láta kort fylgja þeirri lýsingu. En það þykir mjer of mikil hótfyndni af hæstv. stjórn, að leggjast svo á móti málinu, sem hún nú gerir, þar sem hægt er að fá allar nauðsynlegar upplýsingar því viðvíkjandi, enda þær nauðsynlegustu þegar fyrirliggjandi.